Sveitarstjórnarkosningar eru afstaðnar og kominn tími til að fagna okkar mögnuðu grasrót, frambjóðendum og sjálfboðaliðum sem gerðu þessa flottu baráttu að því sem hún var.
Píratar náðu góðum árangri í Reykjavík og bættu fylgið sitt frá kosningunum 2018 úr 7.7% í tæplega 12% þar sem þrír fulltrúar okkar eru nú í borgarstjórn, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Alexandra Briem og Magnús D. Norðdahl. Í Kópavogi situr Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áfram fyrir hönd Pírata í bæjarstjórn en fylgið okkar jókst úr 6.8% í 9.5%. Áfram Árborg náði líka oddvita sínum í bæjarstjórn, en það er Píratinn Álfheiður Eymarsdóttir.
Öllum þeim sem hjálpuðu á einn eða annan hátt í kosningabaráttu Pírata árið 2022 er boðið í partí í Tortuga kl.18 í kvöld (föstudaginn 27. maí). Indriði Ingi Stefánsson ætlar að töfra fram ný-reykt og rifið grísakjöt og rifið blómkál, það verða fljótandi veigar á boðstólnum og hver veit nema karaókígræjan verði dregin fram þegar fjörið færist yfir. Ekki missa af þessu!







