Kynning stendur nú yfir á kosningastefnuskránni, og hana má nálgast hér: x.piratar.is
Á morgun hefst staðfestingarkosning um kosningastefnuskrá Pírata. Að baki stefnuskránni liggur mikil og rík stefnumótunarvinna af hálfu grasrótar og frambjóðenda. Undirbúningur kosningastefnuskrár hófst á Pírataþingi flokksins þann 13. – 14. febrúar síðastliðinn, þar sem ræddar voru áherslur Pírata í komandi kosningum. Í kjölfar Pírataþingsins störfuðu málefnahópar sem unnu áfram að stefnumótun í hinum ýmsu málaflokkum. Eftir að prófkjörum lauk tóku frambjóðendur Pírata, í samráði við stefnu- og málefnanefnd flokksins, að móta þá kosningastefnuskrá sem nú hefur verið lögð fram. Tillaga um að setja kosningastefnuskrána í staðfestingarkosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata var samþykkt einróma á sameiginlegum fundi stefnu- og málefnanefndar og frambjóðenda í gær, þann 23. júlí 2021, til samþykktar og staðfestingar grasrótar.
Kosningin hefst á morgun, þann 25. júlí, kl: 17.00 og mun standa yfir í sjö daga, eða til kl: 17.00 þann 1. ágúst næstkomandi.
Í grein 7.2.4 í lögum Pírata segir að í aðdraganda alþingiskosninga skuli stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggi á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Þetta ákvæði hefur haft að leiðarljósi í allri vinnu við gerð kosningastefnuskrárinnar og er þannig sérstaklega tilgreint í hverjum kafla stefnuskrárinnar á hvaða fyrirliggjandi almennu stefnu eða stefnum sá kafli byggi.