Á síðasta þingflokksfundi Pírata var kosið í stjórn þingflokksins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var endurkjörinn formaður þingflokks, en Halldóra Mogensen var kjörin varaformaður. Jón Þór Ólafsson var kjörinn til að gegna áfram stöðu ritara þingflokksins.
Sú hefð hefur myndast meðal þingflokks Pírata að slembivelja formann Pírata í upphafi hvers löggjafarþings. Er það gert til að uppfylla formkröfur Alþingis þegar kemur að ráðningu aðstoðarmanna við þingmenn, en aðeins formenn stjórnmálahreyfinga sem ekki eru ráðherrar geta ráðið sér aðstoðarmann. Að öðru leyti hefur “formaður” Pírata engum skyldum að gegna og hafa þau sem hafa borið þennan titil fyrir hönd Pírata afþakkað sérstaka álagsgreiðslu sem bætt er við laun þeirra. Aðstoðarmaður formanns starfar jafnt fyrir allan þingflokk Pírata.
Á fundinum var Björn Leví Gunnarsson slembivalinn sem formaður og tekur hann við af Halldóru Mogensen.