Jón Þór segir Davíð Oddsson ekki skilja að hæfileikar séu óháðir kyni

Pressan.is birti í dag (12. október) grein um skrif Jón Þórs varðandi Stakstein sem birtist í Morgunblaðinu sama dag.

Jón Þór Ólafsson, oddviti Pírata í Suðurvesturkjördæmi, segir að Davíð Oddsson og pennavinir hans á Morgunblaðinu skilji ekki að hæfileikar séu óháðir kyni. Þetta segir hann vegna Staksteina sem birtust í blaðinu í dag þar sem gert er lítið úr nýrri stöðu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur.

Í Staksteinum er gert grín að því að Þórhildur Sunna verði aðalsamningsaðili Pírata í stjórnarviðræðum og muni því gegna hlutverki ígildis formanns flokksins í þeim. Jón Þór deilir mynd af Staksteinum, en gera má ráð fyrir að þar haldi Davíð Oddsson ritstjóri á penna. Í Staksteinum segir:

„Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hlaut talsverða upphefð í gær. Hún hafði fram að því verið þingmaður Pírata og varaformaður þingflokks þeirra, en í gær gerðist það að hún fékk að auki titilinn ígildi formanns.

Þetta er í senn ígildi virðingar- og áhrifastöðu innan flokksins, en með völdin munu fara Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, sem verða samningamenn flokksins í komandi stjórnarmyndunarviðræðum.

Gert er ráð fyrir að ígildi formanns verði einnig með ígildi þátttöku í þessum samningahópi.

Athygli vekur að í gær tók annar þingmaður við sem ígildi formanns og svo skemmtilega vildi til að sá er í Viðreisn, sem er einmitt ígildi flokks,“ segir í Staksteinum.

Jón Þór svarar Davíð:

„Davíð Oddsson og pennavinir hans á Mogganum (ekki mbl.is þar sem fagfólk stjórnar) skilja ekki að meritocracy er óháð kyni. Sunna er færasti samningamaðurinn okkar í framboði. Punktur.“