Jón Þór oddviti í RS um frelsi, jafnrétti og kjötsúpu

Ég þoli ekki kúgun og mun benda á hana þar sem mér sýnist hún vera, þótt það sé innan hreyfinga sem vilja berjast fyrir jafnrétti og frelsi.

Aðdragandi greinar sem ég skrifaði fyrir 7 árum var að systir mín varð fyrir því í sífellu að vera spurð hvort hún væri “bara” að hugsa um barnið sitt. Ég skrifaði um þetta blogg þar sem margt má misskilja eins og umræðan síðustu daga hefur sýnt. Umræðan sýnir líka að margar ungar mæður eru enn í dag í sömu stöðu og systir mín var. Skilaboðin sem þær virðast fá er að það að vera heimavinnandi sé eitthvað til að skammast sín fyrir. Þeir sem benda á þessa kúgun eru skammaðir.

Það er ekki jafnrétti á Íslandi. Það hallar á konur í atvinnulífinu. Það hallar á fráskilda feður. Það hallar á heimavinnandi húsmæður og húsfeður, verk sem ég tók mér þegar konan mín var í námi. Það hallar á transfólk og aðra minnihlutahópa.

Ég er gallharður jafnréttissinni og hef í verki barist gegn kynbundnu ofbeldi sem fjölmiðlafulltrúi í átaki Amnesty og Unifem. Ég þoli ekki kúgun og mun ég halda áfram að benda á hana hvar sem ég sé hana, þótt það sé óvinsælt.

Hér getið þið svo séð hvernig hagsýnn heimilisfaðir hendir í núðlu kjötsúpu á tveimur mínútum 🙂