
Gunnar Ingiberg Guðmundsson, varaþingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi hélt jómfrúrræðu sína á Alþingi í dag og kvaddi sér hljóðs um sjómannaverkfallið, sem nú hefur staðið í rúmar sex vikur.
Forseti,
Þann 14. desember sl. hófst verkfall sjómanna og það stendur enn. Sjómenn hafa verið samningslausir í um sex ár og á þessum sama tíma hefur hagnaður útgerðarfyrirtækjanna aukist gríðarlega, sem sést til dæmis á því að þau hafa greitt niður skuldir fyrir 355 milljarða síðan árið 2008.
Þessi fordæmalausi hagnaður er m.a. til kominn vegna hagstæðra markaðsskilyrða, sögulega lágs olíuverðs og ekki síst vegna lækkandi veiðgjalda í boði fráfarandi ríkisstjórnar, úr 12,8 milljörðum í 4,8.
Í ljósi þessa verða kröfur sjómanna enn athyglisverðari. Er ásættanlegt við þessar aðstæður að til þess sé ætlast að þeir greiði hluta af olíukaupum skipa sinna, eða endurnýjunar skipaflotans? Er í lagi að útgerðarmenn beiti tvöfaldri verðlagningu til þess að lækka aflaverðmæti og þar með laun sjómanna?
Hvernig má það vera að í kjölfar mestu uppgangstíma íslenskrar útgerðar síðastliðin sjö ár sé ekki unnt að mæta fremur heilbrigðum og réttmætum kröfum þeirra sem vaktina standa úti á sjó?
Helstu rökin fyrir því að halda fiskveiðistjórnunarkerfinu óbreyttu er að við búum, að sögn, við best rekna sjávarútveg í heimi.
Ætti best rekni sjávarútvegur í heimi þá ekki að hafa efni á því að borga laun sem endurspegla verðamætasköpun greinarinnar?
Hafa bolmagn til að endurnýja skipin?
Eiga fyrir vettlingum á starfsfólk sitt?
Vera aflögufær til veiðigjalda?
Hingað til hafa sjómenn haft um fjögurra til sjö vikna svigrúm til verkfalls áður en Alþingi skerst í leikinn og setur á þá lög.
Það er sterk hefð fyrir því á Íslandi, gjarnan með vísan til þjóðarhagsmuna, að dilla útgerðarmönnum og grátkór þeirra; fella gengið og grípa inn í vinnudeilur.
Ég vil vara við því að þetta verði gert nú. Í ljósi rekstrarstöðu greinarinnar er kominn tími til að slíta naflastrenginn á milli valdhafa og útgerðarmanna.
Vinnumarkaðsdeilur eiga ekki erindi inn á Alþingi. Það eru grundvallarmannréttindi að geta samið um eigin kjör.
Þennan rétt þarf að styrkja.
Það gerir Alþingi best með því að láta aðila deilunnar útkljá hana eftir þeim almennu reglum sem gilda um verkföll og samninga á vinnumarkaði.