Ekki er hægt að leggja heiðarlegt, raunsætt og upplýst mat á fyrirhugaða sölu á hlut í Íslandsbanka. Ekki liggur fyrir hvaða skilyrði verða sett fyrir sölunni, hvað skal selja stóran hluta, hver ábatinn verður og er fjölmörgum öðrum spurningum enn ósvarað nú þegar ýta á söluferlinu úr vör. Það væri frágangssök í eðlilegu viðskiptaumhverfi. Því væri réttast að fresta sölunni, svo að renna megi styrkari og faglegri stoðum undir allt ferlið, í stað þess að drífa það í gegn eins og til stendur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Smára McCarthy, þingmanns Pírata og nefndarmanns í efnahags- og viðskiptanefnd, um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir sömuleiðis að söluferlið til þessa hafa verið gallað. Björn telur „að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og 20. gr. laga um opinber fjármál um stefnumótun stjórnvalda séu ekki uppfylltar með greinargerð ráðherra til fjárlaganefndar eða í öðrum kynningum fyrir nefndinni í kjölfarið, “ eins og hann orðar það. Söluferlið hafi því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.
Aðkoma Alþingis lítil
Í athugasemdum sínum gerir Smári alvarlegar athugasemdir við það hvernig staðið hefur verið að málinu til þessa. „Í öllu falli er aðkoma Alþingis að ferlinu svo lítil að það er varla hægt að tala um eiginlega aðkomu enda hefur ákvörðunin verið tekin og álit þingsins mun vart fá því breytt, “ skrifar Smári.
Það að ekki sé hægt að leggja heiðarlegt, raunsætt og upplýst mat á fyrirhugaða sölu er í sjálfu sér áfellisdómur yfir söluferlinu og myndi teljast frágangssök í eðlilegu viðskiptaumhverfi. Það er erfitt að ímynda sér fyrirtæki sem myndi ákveða að selja eignir frá sér án þess að hafa ákveðið jafnvel einföldustu atriði eins og það hversu mikið af eignum ætti að selja.
Smári McCarthy
Í athugasemdum sínum segir Smári að þó svo að ekki teljist „hættulegt“ að selja hlut í Íslandsbanka á þessari stundu sé ekki ljóst hvort „betra sé að selja hlut en að gera það ekki.“ Stjórnvöldum hafi mistekist að sýna fram á að hver ábatinn verður, sérstaklega í ljósi þess hvað sé undir.
Hætta á samfélagslegum skaða
„Jafnvel ef knýja mætti fram mikinn efnahagslegan ábata, sem virðist ólíklegt, væri samfélagslegi ábatinn mjög neikvæður vegna þeirrar tortryggni sem gætir í garð söluferlisins, vantrausts til ráðherrans sem fer fyrir ferlinu og þeirrar upplifunar meginþorra landsmanna að hagsmunir hans séu látnir mæta afgangi. Ef traust til stjórnmálanna væri meira væri möguleiki á bæði samfélagslegum og efnahagslegum ábata af söluferli sem þessu.“
Það er því mat Smára að það verði að standa betur að söluferlinu ef ætlunin er að tryggja farsæla niðurstöðu fyrir allan almenning. „Þar sem hvorki ráðherra, meiri hlutinn, né í raun nokkur annar hefur fært sannfærandi rök fyrir því að ábatinn sé mikill er eðlilegt að bíða með söluferli en nýta þess í stað vorið til að meta hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að ábati af slíkri aðgerð verði mikill.“
- Athugasemdir Smára og frekari rökstuðning fyrir þeim má nálgast hér, á blaðsíðum 7 til 10.
- Athugasemd Björns Levís má nálgast hér, á blaðsíðu 8.