Home Aðildarfélög Innra starf Pírata á tímum Covid-19

Innra starf Pírata á tímum Covid-19

0
Innra starf Pírata á tímum Covid-19

Innra starf Pírata á tímum Covid-19

Nú er rúmur mánuður síðan fyrsta tilfelli af Covid-19 sjúkdómnum greindist hér á landi og þjóðin komin á þriðju viku samkomubanns. Samfélagið hefur tekið stakkaskiptum á örskotstundu og raskað daglegu lífi flestra íbúa. Viðbrögðin hafa þó verið í takt við áfallið og virðist vera sem aðgerðir almannavarnateymisins og samstaða landsmanna séu að bera góðan árangur í baráttunni við veiruna.

Starfsemi Pírata varð óneitanlega fyrir hnjaski í hringiðunni, en mun fara fram með töluvert breyttu sniði svo lengi sem þörf krefur; Starfsfólk vinnur að heiman og öllum fundum sem voru á dagskrá hefur annað hvort verið frestað um óákveðin tíma eða þeir færðir á fjarfundaþjón Pírata: jitsi.piratar.is.
Stjórnmálin halda þó áfram og starf Pírata sömuleiðis.


Fjarfundir á Jitsi

Til þess að milda áhrif samkomubannsins á félagslífið opnuðum við sérstaka fjarfundarrás til að hanga saman: https://jitsi.piratar.is/samhangs. Stefnan er að hittast þar alla föstudaga kl 17 á meðan samkomubanni stendur. Rásin er opin öllum.

Ef þið viljið tengjast Jitsi Pírata í gegnum appið í símanum ykkar að þá þurfið þið fyrst að setja þessa slóð inn í settings á appinu í símanum ykkar: https://jitsi.piratar.is (sjá mynd).

jitsi instructions

Fréttir frá aðildarfélögum

Aðildarfélög Pírata hafa orðið fyrir mis miklu ónæði af ástandinu, við tókum púlsinn á nokkrum þeirra.

Frá PáNA / PíNA

Helstu fréttir í norðausturkjördæmi eru þær að unnið er sameiningu Pírata á Austurlandi og Pírata á Norðausturlandi í eitt félag: Pírata í Norðausturkjödæmi – PíNA. Hugmyndin er að það verði ein samtök fyrir svæðið en undir þeim samtökum geta verið aðildarfélög sem ná yfir sveitarfélög eða sérstök svæði.

Var aðalfundur PírAust og PáNA haldinn núna á laugardaginn þar sem áætlun var að bera upp slit þeirra félaga og um leið átti að vera stofnfundur PíNA. Á þeim fundum var ákveðið, vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, að fresta aðalfundum og stofnfundi til 16. apríl og leggja áherslu á að hafa fundina í fjarfundi og öll fundargögn rafræn.

Munu því félagar á þessu svæði fá sérstakt fundarboð á frestaðann aðalfund og stofnfund en fundurinn verður auðvitað opinn öllu því fólki sem vill sækja hann. Hann verður 16. apræil kl 20:30 á jitsi vefþjóni Pírata. https://jitsi.piratar.is/PiNA

Pössum heilsuna, andlega og líkamlega, á þessum tímum og nærum okkar innri mann.

Píratar í Norðvesturkjördæmi – PíNK
Sunna

Hið nýstofnaða kjördæmafélag PíNK- Píratar í Norðvesturkjördæmi, hóf göngusína á sama tíma og COVID-19 faraldurinn byrjaði hér á landi. Við vorum/erum stórhuga, planið var að halda fundi um kjördæmið á næstu vikum og mánuðum. Undirbúningur stóð sem hæst á fundi sem halda átti með Akurnesingum, til að kynna okkur samfélagið þar og líka kynna okkur í PíNK fyrir þeim.

Við eins og aðrir landsmenn þurfum að breyta plönum og verkferlum. Verkefni kunna að virðast óyfirstíganleg, en við höfum séð ótrúlegan samfélagsstyrk t.d. hér í Húnaþingi-Vestra þar sem allt samfélagið var á “lockdown”. Við erum mennsk og erum misvel í stakkbúin fyrir svona aðstæður, en munum að engin getur allt en allir geta eitthvað.

Núna stendur yfir undirbúningur á starfi okkar næstu mánuði, við lögðum upp með það í upphafi að virkja tæknina í samskiptum og fundahaldi, enda víðfemt kjördæmi og ótryggar samgöngur í nokkra mánuði á ári. Það gerir það plan auðveldara að “allir og amma þeirra” eru nú að læra að nýta þessa tækni bæði í leik og starfi! Við höldum ótrauð áfram og erum að aðlaga okkur að öðrum, síbreytilegum veruleika, sem fjölskyldufólk, samfèlagsþegnar, pólitíkusar og einstaklingar.

Sunna Einarsdóttir
Formaður PíNK

Píratar í Kópavogi
Indridi

Píratar í Kópavogi hafa tekið í móti Þessum furðulegu tímum af æðruleysi, hálfsmánaðarlegir fundir þeirra sem starfa fyrir Pírata í Kópavogi hafa verið færðir ínn í fjarfundakerfi Pírata með góðum árangri og fyrirhugaður aðalfundur verður haldinn á víð og dreif um Kópavog í fjarfundi í staðin fyrir að vera haldin í aðalsafni Bókasafns Kópavogs.

Við höfum heldur ekki slegið slöku við og höfum haldið á lofti málefnum Pírata.  Nýlega var samþykkt gríðarlega mikilvægt gagnsæismál sem gerir fylgigögn nefndarfunda sjálfgefið opinber. Þetta gerir blaðamönnum og Kópavogsbúum auðveldara að kynna sér það sem er í gangi í stjórnsýslu bæjarins. Einnig standa Píratar vaktina og hafa veitt bæjarfulltúrum aðhald um siðareglur og bænum aðhald um verkfallsbrot.

Píratar ryðja burt aðgangshindrunum!

Indriði

Formaður Pírata í Kópavogi


Píratar í Suðurkjördæmi

Píratar í Suðurkjördæmi eru að sjálfsögðu í félagslegri einangrun vegna heimsfaraldursins, rétt eins og Almannavarnir boða. Við nýtum tímann í undirbúning fyrir starf sumarsins þar sem við ætlum t.d. að vera sýnileg á að minnsta kosti tveim útihátíðum í sumar og förum núna að vinna að málefnavinnu fyrir kjördæmið. Búast má við að heilbrigðismál, matvælaframleiðsla, menntamál, samgöngur, velferðar- og öryggismál verði þar ofarlega á blaði, enda er verulegra úrbóta þörf á þessu mesta ferðamannasvæði og matarbúri landsins. Við verðum vel undirbúin fyrir alþingiskosningar á næsta ári.

Stjórn Pírata í Suðurkjördæmi