Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.
Alþingi ályktar að fara beri að skýrum vilja meiri hluta kjósenda, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og skorar á forsætisráðherra að hafa þessa ályktun að leiðarljósi við þá endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem fyrirhuguð er á yfirstandandi kjörtímabili. Í þeirri vinnu verði tekið fullt tillit til hins mikla starfs sem fólkið í landinu, stjórnlagaráð og Alþingi lögðu sameiginlega af mörkum við endurskoðun stjórnarskrárinnar.Greinargerð.
Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að allt ríkisvald sé sprottið frá þjóðinni og að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Afdráttarlaus vilji kjósenda varðandi nýja stjórnarskrá liggur fyrir í veigamiklum atriðum eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðaði til og haldin var 20. október 2012.
Alþingi býr sem stendur við fordæmalaust vantraust almennings í landinu. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um traust til Alþingis, sem gefin var út í maí 2013, kemur fram að mikill meiri hluti svarenda taldi að það mundi auka traust þeirra til Alþingis mikið eða nokkuð mikið ef starf þess væri markvissara (93%). Þegar Alþingi spyr þjóðina álits í jafnveigamiklu máli og gert var 20. október 2012 er ekki óeðlilegt að Alþingi lýsi því yfir að taka skuli mark á niðurstöðunni og hlíta henni, annað er ómarkvisst.
Nú liggur fyrir að forsætisráðherra mun skipa í nýja stjórnarskrárnefnd og hefur hann þegar óskað eftir tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Í minnisblaði frá forsætisráðherra segir m.a.:
„Hliðsjón verður höfð af vinnu undanfarinna ára um efnið, meðal annars tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007. Þá verði nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. Nefndin gerir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. Óskað verður eftir því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir. Nefndin ákveður að öðru leyti sjálf verklag sitt.“
Flutningsmenn fagna vilja forsætisráðherra til að halda áfram og ljúka farsællega starfi við endurskoðun stjórnarskrárinnar og vilja með þessari tillögu til þingsályktunar gefa þingmönnum tækifæri til þess að veita áframhaldandi ferli aukið vægi með því að lýsa því yfir af hálfu Alþingis að fara skuli að vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og taka fullt tillit til þess starfs sem fram fór á liðnu kjörtímabili af hálfu stjórnlaganefndar, þjóðfundar, stjórnlagaráðs og Alþingis.