HVERRA HAGUR RÆÐUR AFNÁMI HAFTA?

Birgitta Jónsdóttir tók til máls í umræðum á þingi í gær, þar sem fjallað var um afnám hafta og Benedikt Jóhannesson, efnahags- og viðskiptaráðherra óskað Íslandi til hamingju með áfangann, þótt óljóst sé hvaða afleiðingar þessar aðgerðir munu hafa á kjör almennings.

Í anda leyndarhyggju og ráðherraræðis þessarar ríkisstjórnar er aðkoma Alþingis að málinu engin.

Er tímasetning þessara aðgerða tilviljun?  Hverts vegna gerir starfsáætlun Alþingis ekki ráð fyrir  þingfundum þessa viku? Er það til þæginda fyrir ríkisstjórnina? Það þurfti að beita verulegum þrýstingi til þess að fá í gegn þann þingfund sem haldin var í gær. Umræða sem þarf fór fram var mörkuð af því að þingmenn hafa engar upplýsingar um málsatvik eða rök fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar – umfram það sem blaðamenn hafa. Leyndarhyggjan er alltumlykjandi og þögnin um hvaða afleiðingar þessar aðgerðir geta haft, hvaða úrræði eru möguleg ef gegnið lækkar eða hækkar umfram það sem æskilegt er, ef hrægammasjóðir fara í mál, er ærandi.

Þessi ríkisstjórn er mynduð um sérhagsmuni fjármagnseigenda, stóriðnaðar og sjávarútvegs. Getur verið að þeir ráði för í þessum aðgerðum?

Ræða Birgittu:

Forseti. Nú eru rétt rúmlega átta ár síðan ég gerði mér ferð á þingpalla sem óbreyttur borgari til að verða vitni að setningu neyðarlaga. Ég, man að ég horfði yfir þingsalinn og ekki var laust við að ég fylltist óróa vegna þess hve mikill þungi hvíldi yfir öllu og óvissa var alltumlykjandi. Úti sem inni var drungi og erfiðir tímar fram undan fyrir þjóðina alla.

Neyðarlögin björguðu því sem bjarga mátti og voru okkur til gæfu, því er ekki hægt að neita. Þrátt fyrir þá staðreynd að þeir sem settu varnarhjúpinn um landið höfðu átt mikinn þátt í því ófremdarástandi sem yfir okkur dundi í kjölfar gríðarlegrar ófagmennsku og innansveitarkróniku við einkavæðingu bankanna. Það þekkja allir þá sögu og óþarfi að rifja hana upp núna.

Nú eftir alllangt ferli er verið að taka niður verndarhjúpinn sem hefur gert það að verkum að við höfum verið innan hafta sem hafa gefið Seðlabankanum svigrúm til að handstýra gengi krónunnar nokkuð meira og sveiflur fátíðar á gengi krónunnar, þrátt fyrir að hún, rétt eins og fyrir hrun, hafi hægt og bítandi orðið sterkari gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum.

Það hefur sína kosti og ókosti, en heildrænt séð hefur sá hagvöxtur sem hér hefur drifið upp lífsgæði fyrir marga átt rætur sína að rekja til óvæntra aðstæðna með nýjum tekjulindum sem skila miklum gjaldeyri inn í landið.

Á næstunni mun verndarhjúpurinn hverfa án þess þó að hér hafi verið mótuð heildræn gjaldmiðlastefna. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju þetta er gert í öfugri röð. En það er svo margt sem mér er fyrirmunað að skilja í þessari atburðarás. Síðan til að auka á ónotatilfinninguna kemur í ljós að þeir sérfræðingar sem eiga að leiða vinnuna við peningastefnuna eru fyrrum talsmenn greiningardeilda, auglýsingastofa bankanna í aðdraganda hruns, aðili sem tengdist Sjóði 9 og síðan aðili sem er beintengdur inn í Gamma.

Þetta boðar ekki gott, forseti, þegar kemur að því að skapa traust gagnvart nýjum tímum sem einkenna ættu hið nýja Ísland. Af hverju var sá viðvaningsbragur í samningatækni hafður á að fulltrúar íslenskra yfirvalda hitta helstu vogunarsjóðina á þeirra heimavelli í stað þess að þeir séu boðaðir hingað? Af hverju í ósköpunum þykir það ásættanlegt að seðlabankastjóri beri við slíkum trúnaði að ekki er með nokkru móti hægt fyrir þingmenn að fá neitt uppgefið í þannig umhverfi, að þeim beri skylda að virða trúnað við slíkar upplýsingar. Þá á ég við trúnað um það hverjir þessir vogunarsjóðir eru.

Rétt eins og ég sat hér á þingpöllum fyrir rúmum átta árum og var full af óróa og skynjaði að margt af því sem ætti eftir að gerast væri um margt einkennandi af slembilukku og að þetta reddaðist, samanber t.d. — já, ég ætla að segja það — Icesave-samningurinn hinn fyrsti. Þá rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar forystumenn þessa gjörnings, fjármálaráðherra, forsætisráðherra ásamt seðlabankastjóra, gátu ekki upplýst um að neinar sviðsmyndir væru tilbúnar ef ske kynni að þessi gríðarlega stóra tilraun færi úrskeiðis.

Ítrekað var óskað eftir slíkum upplýsingum á lokuðum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í gær og ekki var hægt að fá neinar slíkar upplýsingar. Þá hlýtur það að vera svo að slíkar sviðsmyndir, eða viðbragðsáætlun, eru ekki til. Það finnst mér mjög óvarlegt og skora á viðeigandi stofnanir og ráðamenn þeirra að gera eitthvað í því nú þegar.

Rétt eins og landsmenn allir fagna ég þessum áfanga og vil leggja á það þunga áherslu að liggja þarf fyrir á mjög skýran og afdráttarlausan máta að möguleiki á að efnahagshamfarir verði ekki aftur og muni ekki standa framförum fyrir þrifum með því að bjóða upp á gloppur í lögum sem geta skapað nýja áhættu með heitum sem minna á ís eða jökla.

Forseti. Ég vona að enginn stjórnmálamaður eða embættismaður fyllist oflæti og haldi að músarleiknum sé lokið við öflugan her lögfræðinga vogunarsjóðanna eða fjármálabraskara, sem kunna að hakka grá svæði á laga- og regluverki til að finna leið til að láta samfélög blæða. Fjármálaráðherrann segir í ræðu sinni: Til hamingju Ísland. En ekki eru nema átta ár síðan þáverandi forsætisráðherra sagði: Guð blessi Ísland. Hollt er að muna að enginn veit sína ævi fyrir né hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Að vera vel undirbúinn undir mögur ár eða óvæntar aðstæður er lykillinn að marglofuðum stöðugleika.

Að lokum vil ég fordæma þann skort á upplýsingum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfa að búa við í þessu máli og algjöran skort á alvörusamráði. Þá vil ég minna á þann mikla aðstöðumun sem þingmenn búa við til að vinna úr og greina þessa aðgerð. Þá er vert að hafa í huga hvað hefði verið hægt að gera fyrir þá 20–49 milljarða sem talið er að við höfum tapað í þessu verkferli.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....