Hópfjármögnun Pírata farin í gang

Píratar biðla til almennings og óskum við eftir stuðningi til að koma skilaboðum okkar á framfæri í aðdraganda alþingiskosningana. Sett hefur verið í gang hópfjármögnun á Karolina Fund þar sem hægt er að leggja okkur lið. Pírat­ar ákváðu að velja þessa leið þar sem flokk­ur­inn vill sækja styrk sinn til þjóðar­inn­ar og vera óháður sér­hags­muna­öfl­um, nú sem endra­nær.

 

Þeir sem styrkja Pírata á þennan hátt geta fengið ýmsan skemmtilegan varning að gjöf, svo sem flotta boli, derhúfur og límmiða. Við vekjum athygli á því að hæsta upphæð sem einstaklingur eða fyrirtæki má láta af hendi rakna til stjórnmálaflokks er fjögurhundruð þúsund krónur. Slíkt framlag er auðvitað ómetanlegt en við höfum fengið til liðs við okkur nokkra þekkta listamenn sem gefa verk til  að efla söfnunina, þeirra á meðal eru Sara Oskarsson og Hjalti Parelius. Þeir sem leggja fram þetta hámarks framlag fara í pott og að loknum kosningum, sem nálgast óðfluga, verður dregið út hverjir fá eitt listaverk í þakkargjöf.

 

Það var sögulegur atburður á síðasta ári þegar Píratar stóðu fyrir hópfjármögnun á Karolina Fund til að fjármagna kosningabaráttuna og við treystum almenningi til að treysta okkur. Framtíðin okkar er handan við hornið.

 

Söfnunin fer fram á Piratar.karolinafund.com