Helgi Hrafn oddviti í RN er femínisti

Helgi Hrafn portraitÉg stend ekki lengur við það sem er haft eftir mér á Bland.is, í það minnsta ekki nálgunina og hortugheitin, enda er langt síðan ég skrifaði þetta og ég hef gengið í gegnum nokkra lífskafla síðan þá. Skoðanir, viðhorf, aðstæður og umræðan breytast öll, en það sem maður skrifar í brjálæðiskasti fyrir mörgum árum á netinu breytist ekki af einhverjum undraverðum áhrifum meðfram manni sjálfum.

Netið er svolítið eins og opin dagbók þar sem hægt er að glugga í þroskaferli fólks langt aftur í tímann og léttilega má fókusa á bút þar sem maður er í miðjum klíðum við að gera mistök til að læra af. Helst vildi ég taka til baka allt sem ég hef sagt á tveggja ára fresti og byrja upp á nýtt, vegna þess að maður öðlast sífellt betri sýn á málin eða finnur allavega leið til að nálgast þau með betri hætti.

Ég vona að það komi ekki neinum á óvart að á margra ára tímabili þroskist maður aðeins og læri. En það er satt sem er sagt, að internetið gleymir ekki.

Þessi ummæli mín eru frá tíma þar sem ég hafði ekki þá sýn á málin sem ég hef nú og var í einhverju brjálæðiskastinu, og ég vildi gjarnan draga þau til baka, en á sama tíma finnst mér ég eiginlega eiga þetta skilið, jafnvel ef það er bara til að sýna fólki hversu öflugt internetið raunverulega er og hversu erfitt það verður fyrir blóðheitt, skoðanaríkt ungt fólk að verða að opinberum persónum seinna meir, láti það í ljós tilfinningar sínar á netinu í of ríkum mæli. – En þá vaknar mikilvæg spurning; á fólk að ritskoða sjálft sig af ótta við framtíðina? Átti ég að vita betur en að tjá hvernig mér leið á þeim tíma, í allri minni reiði og hroka?

Eru skilaboðin þau að ef maður segi eitthvað ljótt á netinu, þá skuli maður gleyma því að geta reynt að bæta samfélagið mörgum árum seinna?

Eða eru það kannski mistök að dæma manneskjur og hugmyndir þeirra alfarið eftir því versta sem þær hafa nokkurn tíma sagt?

Svona ummæli hefði enginn fundið fyrir daga internetsins vegna þess að það fengi aldrei birtingu í víðtækum fjölmiðli og því væru jafnan ekki heimildir fyrir þeim. Núna getur hver sem er grafið upp hvað sem hver sem er hefur sagt, langt aftur í tímann. Þá er líka alveg hægt að taka “Top 3 Worst of” og skella á Bland.is.

Velkomin á internetið. Þetta er allt annar heimur en sá sem var.

Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hefur fest sig í sessi upp á síðkastið, þ.e. þeirri að femínismi sé “sú skoðun að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið náð og eitthvað þurfi að gera í því”, er ég sjálfur femínisti.