Heimavist samþykkt!
Borgarstjórn samþykkti tillögu um heimavist fyrir framhaldsskólanema sem Dóra Björt Guðjónsdóttir lagði fram á borgarstjórnarfundi.
Tillagan og ræðan:
Ræða Dóru Bjartar
Forseti, borgarstjórn.
Hér er lagt til að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við menntamálaráðuneytið og leggja þannig grunn að auknu jafnrétti til náms óháð búsetu. Mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur og ýti þannig undir fjölbreytta ferðamáta og mannlíf í borginni.
Vegna þess að við stöndum með jafnrétti til náms. Óháð stöðu, óháð efnahag, óháð búsetu og öðrum breytum.
Minni áhyggjur af fjármálum og húsnæðisöryggi skiptir nemendur máli.
Hér er lögð til leið til að mæta því að sum ungmenni fara ekki í nám af fjárhagsástæðum. Það segir sig sjálft að nemendur sem koma af lágtekjuheimilum eru líklegri til að hika við að stunda framhaldsskólanám þegar það þýðir að fara ung út á hinn dýra leigumarkað höfuðborgarsvæðisins.
Heimavist er líka ódýr leið til þess að létta af þrýstingi á leigumarkaði. Ef vel til tekst leysir þetta vanda hóps nemenda sem í dag er á almennum leigumarkaði þrátt fyrir ungan aldur. Um leið losnar húsnæði á almennum markaði.
Það getur þar að auki verið ógnvænlegt og óþægilegt að búa ein síns liðs sextán ára. Það getur jafnvel verið hár og óyfirstíganlegur þröskuldur. Það er ungmennum gott að njóta stuðnings fullorðins fólks og búa í samneyti við jafnaldra í sömu stöðu eins og á staðan er á heimavistum.
Jafnrétti til náms þýðir að skapa öllum sem jöfnust tækifæri til að rækta hæfileika sína og sækja sér aukna þekkingu. Jafnrétti til náms er ein grunnstoð lýðræðisins. Upplýsingar eru forsenda upplýstrar ákvarðanatöku og í öflugu lýðræði hafa borgarar næg tækifæri til að geta veitt yfirvöldum aðhald og tækifæri til að þróa með sér góða og gagnrýna hugsun.
Við viljum styðja við að fólk allsstaðar að hafi tækifæri til þess að velja sína menntun þar sem þeim hentar. Jafnvel þó þau hafi engan til að búa hjá á höfuðborgarsvæðinu. Jafnvel þó þau hafi ekki efni á því að greiða markaðsverð fyrir eigin búsetu. Jafnvel þó þau þurfi stuðning fullorðins fólks og félaga á sama reiki til þess að líða vel og ganga vel.
Þetta viljum við leggja okkar af mörkum til að geta veitt ungu fólki með því að gera það sem við getum til þess að heimavist á höfuðborgarsvæðinu geti orðið að veruleika.
Ég vil veita sem flestum tækifæri til að sækja sér menntun. Með því að samþykkja að borgarstjórn beiti sér fyrir stofnun heimavistar á höfuðborgarsvæðinu í takt við þá þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi um þetta mál, þá erum við einu skrefi nær því að skapa raunverulegt jafnrétti til náms, óháð búsetu og efnahag.
TILLAGA
Tillaga Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að borgarstjórn beiti sér fyrir stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir stofnun heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við menntamálaráðuneytið og leggja þannig grunn að auknu jafnrétti til náms óháð búsetu. Mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur og ýti þannig undir fjölbreytta ferðamáta og mannlíf í borginni.
Greinargerð:
Á 149. löggjafarþingi var lögð fram sú þingsályktunartillaga að fela mennta- og menningarmálaráðherra, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að beita sér fyrir stofnun heimavistar á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema. Markmiðið með tillögunni sem hér er lögð fram er að borgarstjórn lýsi vilja sínum til að hefja virkt samtal um þetta mál við viðeigandi aðila og vilja sínum til að stuðla að þeim mögulegu skipulagsbreytingum og tengdu atriðum sem kunnu að vera nauðsynleg forsenda stofnununar slíkrar heimavistar sem samstarfsverkefnis ríkis og sveitarfélaga.
Fjölbreytnin í menntunarúrvali er meiri á höfuðborgarsvæðinu og því velja margir nemar af landsbyggðinni að sækja sér menntun til höfuðborgarsvæðisins. Það getur reynst ungu fólki erfitt og kostnaðarsamt að finna sér örugga búsetu við flutninginn. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að þau geti öll búið hjá ættingjum eða kuninngjum sem leiðir til þeirrar stöðu að þurfa að búa ein síns liðs frá því um 16 ára aldurinn sem er mun fyrr en hjá flestum ungmennum sem alin eru upp á höfuðborgarsvæðinu og geta búið í foreldrahúsum meðfram námi. Margir erfiðleikar geta fylgt því að þurfa að flytja að heiman ung að aldri án þeirrar festu sem gjarnan fylgir því að vera í umsjá fullorðins fólks. Andlegur stuðningur við þær aðstæður að flytja úr foreldrahúsum getur falist í því að búa í samneyti við jafnaldra í sömu stöðu undir leiðsögn fullorðinna sem starfa á heimavistum.
Bygging stúdentagarða fyrir nemendur á háskólastigi, svokallaðar Vina-íbúðir eða nokkurs konar sambýli með herbergjum eða stúdíóbúðum sem byggð eru í klasa utan um sameiginlegt eldhús og samverurými eru ótrúlega spennandi leið til að mæta þeim áskorunum sem ungt fólk sem er að flytja að heiman í fyrsta skipti mætir. Mætti skoða hentugleika þessarar og fleiri útfærslna fyrir heimavist fyrir framhaldsskólanema.
Að hafa heimavist í grennd við framhaldsskóla og/eða góðar almenningssamgöngur er fallið til þess að draga úr umferð, stuðla að jákvæðri borgarþróun og jákvæðri upplifun.