Halldóra Mogensen og Helgi Hrafn Gunnarsson sátu fyrir svörum í hádeginu um sóttvarnir, álitamál og afstöðu þingmanna Pírata í þeim efnum.
Tilefnið voru breytingar á sóttvarnalögum í liðinni viku. Þá var frumvarpi um hertar aðgerðir á landamærunum ýtt í gegnum þingið á einum sólarhring og samþykkt af minnihluta þingmanna. Þingmenn stjórnarandstöðu, að frátalinni Olgu Margréti Cilia úr Pírötum, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Halldóra og Helgi ræddu lagasetninguna og það sem gerðist á bak við tjöldin á Alþingi. Þau voru sammála um að málið hafi verið drifið í gegn og að of mörg álitamál hafi komið upp á löngum velferðarnefndarfundi, sem ekki var tekið mark á, til þess að hægt væri setja nafnið sitt við það.
Píratar hafi ætlað sér að styðja málið enda séu þeir sammála því að harðari sóttvarnaaðgerðir á landamærunum tryggi betur réttindi borgaranna, frekar en að herða stöðugt sóttvarnir innanlands. Hins vegar verði að vanda til verka þegar skerða á réttindi fólks, ef þingmenn vanda sig ekki eru allar líkur á því að lögin hrynji fyrir dómstólum – aftur – og þá eru varnirnar gagnslausar.
Ríkisstjórnin hafi haft nægan tíma til að leggja málið fram og hnýta lausa enda. Rúmar tvær vikur voru frá því að ríkisstjórnin tapaði fyrir dómstólum og þar til nýja frumvarpið var lagt fram, sem samið var á einum degi. Reglugerðin um aðgerðirnar tók síðan ekki gildi fyrr en fimm dögum síðar. Ríkisstjórnin hafði því nægt svigrúm til að vinna málið vel og gulltryggja öflugar og löglegar sóttvarnir á landamærunum.
Píratar hafi frá upphafi talað fyrir breyttum og betri vinnubrögðum á Alþingi, ekki síst í mikilvægum málum sem þessum. Píratar voru sammála markmiði laganna um hertar aðgerðir á landamærunum – en ósammála því að lögin væru nógu vel unnin til að standast lög, stjórnarskrá og mannréttindasamninga. Þess vegna töldu þeir eðlilegast að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fundinn með Halldóru og Helga má sjá í spilaranum hér að ofan. Áhorfendur gátu sent þeim spurningar á piratar.tv og var spurningunum varpað upp á skjáinn, eins og sjá má.