Guðrún Ágústa stefnir á þing fyrir Pírata: „Þjóna hagsmunum flestra, ekki bara flokkseigendanna“

Þegar ég bjó á Egilsstöðum í upphafi tíunda áratugarins þá fann ég það svo áþreifanlega hvernig það er að vera ung, ómenntuð og valdalaus kona í heimi karla og hafa ekkert um nokkurn skapaðan hlut að segja,

segir Guðrún Ágústa Þórdísardóttir Pírati, rekstrarfræðingur og spunakona.

„Það er þetta sem mér finnst Píratar standa fyrir, það eru engir kóngar í glímukeppni sem munu leysa málin eða útdeila valdi svo að við getum náð tökum á eigin lífi. Nú kemst fólk ekki einu sinni í menntaskóla eftir 25 ára aldurinn og getur fest í fátækrargildrum bara fyrir einhverja hendingu örlaganna. Ég get bara ekki hugsað til þess ef að ég, sem var 28 ára 5 barna móðir árið 1993, hefði ekki getað farið í nám, menntað mig og brotist út úr því valdalitla afmarkaða hlutverki sem ég var í vegna aldurs. Ekki að það hafi verið slæmt líf að vera heimavinnandi, sauma fötin á börnin, gera sultur, taka slátur og því um líkt. En það var ekki alltaf auðvelt að vera sjálfum sér nóg heimavinnandi sjómannskona.“ 

Frá Vopnafirði til Egilsstaða

Guðrún Ágústa telur sig vel heima í málefnum Austfirðinga enda bjó hún eystra í ein þrettán ár áður en hún settist að á Akureyri.

Ég kynntist fyrrverandi manninum mínum Jóhannesi Hermannsyni, frá Fossárdal í Berufirði þegar ég vann í fiski á Vopnafirði og við settumst svo að á Egilsstöðum og eignuðumst fljótlega tvo drengi og byrjuðum að byggja okkur hús. Það voru tímar óðaverðbólgu og við lentum á erfiðleikum eins og algengt var á þeim árum og fluttum suður í smá tíma en komum svo aftur austur, fyrst á Stöðvarfjörð og svo aftur upp á Hérað. Ég eignaðist síðan yngri börnin þrjú í einni beit á árunum 1989-1991 á meðan maðurinn minn fyrrverandi var á frystitogara og tók einn frítúr á ári, því það var þá eins og nú dýrt að eiga mörg börn. Við byggðum síðan í Koltröð á Egilsstöðum en þegar við fluttum til Akureyrar fékk ég tækifæri til að hefha nám að nýju og fór í VMA.

Það má segja að það að ganga menntaveginn hafi skipt sköpum fyrir Guðrúnu Ágústu en árið 1996 hóf hún nám við Rekstrardeild Háskólans á Akureyri og lauk BS-prófi þaðan með áherslu á gæðastjórnun árið 1999. Uppúr aldamótum beindist áhuginn að hugbúnaðargerð og starfaði hún í því fagi um skeið meðal annars sem gæðastjóri, meðfram framhaldsnámi í Tölvunarfræði.

Kannski má segja að ég hafi komið inn í Pírata úr þeirri átt, en um leið er svo margt sem að við í Pírötum höfum um aðra þætti mannlífsins að segja. Heilbrigðis- og menntakerfið er okkur hugleikið og réttlætismál af ýmsu tagi sem eiga samhljóm með skoðunum manns. Þar er grundvallaratriðið þetta beina lýðræði og valdefling þeirra sem eiga ekki rödd í samfélaginu. Við erum oft spurð hvort við séum ekki með einhver sérstök mál sem við viljum berjast fyrir í þágu landsbyggðarinnar og mitt svar er alveg skýrt í þeim efnum. Landsbyggðin þarf að valdeflast með öðrum hætti en hefur verið, þar sem karllæg sjónarmið og stórar lausnir hafa átt að að bjarga byggðamálunum.

 

Jafnræðisreglan grunnurinn að landsbyggðarstefnunni

Þegar talið berst að málefnum landsbyggðarinnar er Guðrúnu Ágústu niðri fyrir, því þar tali gerð flokks eins og Pírata beint inní aðstæðurnar.

Í grunnstefnu Pírata er alveg ljóst að jafnræði og jafnrétti eru gildi sem eiga sérstaklega við um landsbyggðina. Jafnræðisreglan á við um heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngumálin. Það á að vera jafn auðvelt fyrir þá sem búa úti á landi að sækja þessa þjónustu og hún á að vera jafn góð fyrir alla landsmenn, sama hvar þeir búa þó að sjálfsögðu muni aldrei vera hægt að veita fullkomna þjónustu allstaðar. Þetta snýst ekki bara um internetið og ljósleiðara á hvern bæ, heldur það að lífsgæði þeirra sem byggja landið séu til jafns við þau sem íbúar þéttbýlis eða borgarinnar njóta. Það þarf fjölskylduvænt umhverfi þar sem allar grunnstoðirnar virka og íbúarnir hafa um það að segja hvernig samfélag þeirra þróast.

Guðrún Ágústa telur að með auknu beinu lýðræði muni áherslurnar, hvort sem er í samgöngu- eða menntamálum, eða varðandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar, koma frá grasrótinni en þingmenn og ráðamenn þjóðarinnar séu þjónar þeirrar stefnumótunar.

Þær lausnir sem hafa komið að ofan og almenningur hefur engin áhrif á, þær virka ekki til lengdar. Þetta þarf að byggjast upp eins og í tengslaneti jafninga, þar sem hugmyndirnar fæðast í grasrótinni og dafna svo þar sem þær eru ræddar og vaxa af því að þær þjóna hagsmunum flestra, ekki bara flokkseigendanna.

 Spuninn ekki bara í pólítík

Guðrún Ágústa segist nú ekki mikill spunamanneskja þegar kemur að pólítíkinni, hún aftur á móti spinni á rokk og það sýni að Píratar séu fjölbreyttir að gerð en ekki eintómir tölvustrákar. Áhugamálin séu mörg utan pólítíkurinnar, barnabörnin fjögur séu að sjálfsögðu efst á lista en handavinnan er líka ofarlega á blaði. Árið 2009 skellti Guðrún Ágústa sér til Wallsend í Englandi þar sem hún bjó í tvö ár og lærði meðal annars að meðhöndla og lita ull og spinna á rokk hjá þarlendum handverkskonum. Hún telur handavinnuna líka fara vel saman við áhuga á vísinda og afslöppunar en að spinna á rokkinn um leið og horft er á Star Trek í sjónvarpinu. Hún spinnur úr íslenskri ull eins og erkibóndakona, en prjóni sokka og setji upp Linux-kerfi jöfnum höndum; þá eiginleika þurfi til að samræma hefðir í íslenskum stjórnmálum.

Viðtal Arnalds Mána Finnssonar við Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur birtist fyrst í Austurlandi. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.