Björn Leví Gunnarsson mælir í dag fyrir frumvarpi sem gerir skylt að auglýsa stöður sendiherra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. Með frumvarpinu eru breytingar gerðar á lögum um utanríkisþjónustu, en í lögunum er að finna undanþágu frá þeirri skyldu að nauðsynlegt sé að auglýsa laus störf hjá ríkinu þegar um skipun í störf ráðuneytisstjóra og sendiherra er að ræða. Verði frumvarpið samþykkt má íslenska ríkið ekki lengur ráða í slíkar stöður án auglýsingar, og kæmi það því í veg fyrir spillingu þannig að slíkar stöður eru veittar af pólitískri greiðsemi.
Almenningur varð vitni að því síðasta haust hvernig ráðamenn þjóðarinnar stunda hrossakaup um slíkar stöður, þar sem fyrrverandi utanríkisráðherra lýsti fyrir fyrrverandi forsætisráðherra og öðrum þingmönnum sendiherrakapli þar sem sendiherrar voru skipaðir án nokkurra haldbærra forsendna. Samþykkt þessa frumvarps myndi auka gegnsæi um slíkar skipanir og koma í veg fyrir spillingu með því að útrýma bitlingum um stöðu sendiherra.
Frumvarpið sjálft má nálgast á vef Alþingis. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram af þingflokki Pírata, en þar áður af þingflokki Bjartrar framtíðar.