
Opinn stjórnarfundur Ungra Pírata sem haldinn var í gærkvöldi, þriðjudaginn 15. október samþykkti eftirfarandi ályktun:
Stjórn Ungra Pírata fagnar úrskurði Sýslumannsins í Reykjavík vegna lögbannsbeiðni SMÁÍS og annarra höfundarréttarsamtaka. Lögbannskrafan beindist ekki að meintum lögbrjótum, heldur að netveitum sem ættu ekki að þurfa að skipta sér af því efni sem fer í gegn um þeirra kerfi, með eða án þeirra vitundar.
Útgefendur og framleiðendur ættu frekar að hugsa um þá sem deila milli sin höfundarréttarvörðu efni án sinnar milligöngu sem möguleg viðskipti sem þeir misstu af, en ekki beint sölutap, og í stað þess að kenna mögulegum viðskiptavinum um sínar eigin ófarir ættu þeir að líta í eigin barm og íhuga hvað væri hægt að gera til að nálgast þennan hóp, því þeir sem deila milli sín efni án atbeina höfundarrétthafa eru einnig stærstu neytendurnir þegar kemur að heiðarlegum viðskiptum með sama efni.
Sú kynslóð sem er að koma upp í dag er sú síðasta sem man eftir heimi án Internets og vandamálið felst ekki í því að menn vilji nálgast efni frítt eða í ótakmörkuðu magni, heldur snýst það hreint og beint um aðgengi.
Íslendingar hafa ekki aðgang að þeim efnisveitum sem nágrannalöndin hafa, og þá grípa hérlendir neytendur til örþrifaráða til að nálgast menningarefni sem ekki er hægt að nálgast með öðrum hætti. — Stjórn Ungra Pírata þykir það vera undarleg staðreynd að Íslendingar þurfi að kaupa áskrift að efnisveitum á borð við Netflix í gegn um krókaleiðir þegar nágrannaþjóðir á borð við Færeyinga og Grænlendinga hafa fullan aðgang að slíku án hindrana.
„Segjum bara að það hafi verið óþægilegt að horfa á Kastljósið nú um daginn, þar sem Baltasar Kormákur líkti skráadeilingum við þjófnað á hrossum og vísaði í aðgerðir eins og að reyna að loka á ákveðið efni á netinu. Reynslan sýnir að slíkt virkar bara alls ekki í raun og gagnast alræðisstjórnum frekar en listamönnum“ segir Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir, starfandi formaður Ungra Pírata. „Internetþjónustur eða hagsmunaaðilar ættu heldur ekki að þurfa að skipta sér af eða fylgjast með því sem maður gerir á netinu.“
Ungir Píratar ætla ekki eingöngu að gefa út yfirlýsingar vegna þessa máls, heldur munu þeir láta verkin tala á komandi vikum.
„Við ætlum að hafa beint samband við forráðamenn Netflix til að leita skýringa án milliliða, og eins ætlum við að mæta á árlegt þing Norðurlandaráðs síðar í þessum mánuði þar sem við ætlum að vinna í leiðum til að einfalda réttindamál og þar með dreifingu margmiðlunar– og menningarefnis á Norðurlöndunum öllum“ segir Stefán Vignir Skarphéðinsson starfandi varaformaður Ungra Pírata.
„Ég man ekki til þess að ég hafi nýtt mér Pirate Bay eða álíka til að sækja tónlist eftir að ég skráði mig á Spotify og bíð eftir að Netflix sjái sér fært að opna fyrir sína þjónustu hér. Ég held líka ég hafi keypt þrjá eða fjóra tölvuleiki úti í búð síðan 2006 og fram að því að ég skráði mig á Steam fyrir rétt tæpu ári, en síðan þá hef ég keypt aragrúa leikja og efni þeim tengdum og um leið endurvakið áhuga minn á greininni. Ég efast ekki um að bætt aðgengi að öðru efni muni hafa sömu áhrif.“
Hægt er að vísa í fjölmargar rannsóknir sem benda bæði til þess að dreifing margmiðlunar– og menningarefnis án atbeina höfundarrétthafa skaði ekki rétthafana, og að besta leiðin til að draga úr dreifingu með slíkum hætti sé sú að auka og bæta aðgengi að sama efni og gera það með sanngjörnum hætti.
Nýleg rannsókn markaðsrannsóknarstofnunarinnar Ipsos MMI í Noregi sýnir skýrt fram á að tilkoma Spotify og Netflix þar í landi hafi dregið stórlega úr slíkri dreifingu, en óheiðarleg dreifing tónlistar dróst saman um 82,5% og kvikmynda um rúmlega helming milli áranna 2008 og 2012. — Eins sýndi nýleg skýrsla London School of Economics fram á að óheiðarleg dreifing hefði ómarktæk áhrif á kvikmyndaiðnaðinn sem væri á uppleið á heimsvísu. — Að lokum sýndi franska ríkisstofnunin HADOPI, sem ber ábyrgð á framkvæmd á umdeildum lögum um lokanir á netþjónustu þar í landi nýlega fram á að þeir sem nýta sér skráadeilingarvefi tilheyri einnig þeim hópi sem eyðir mestu fé í margmiðlunar– og menningarefni eins og kvikmyndir og tónlist í hverjum mánuði og að takmörkun á slíku gæti beinlínis dregið úr sölu.
Um Unga Pírata:
Ungir Píratar eru ungliðafélag Pírata og var stofnað 18. ágúst síðastliðinn, en félagið er fyrsta aðildarfélag Pírata sem stofnað er. Allir píratar, 30–ára eða yngri geta skráð sig í félagið.
Hægt er að hafa samband við eftirfarandi vegna þessarar fréttatilkynningar:
- Stefán Vignir Skarphéðinsson, starfandi varaformaður Ungra Pírata — stefan@piratar.is, s. 849-6891
- Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir, starfandi formaður Ungra Pírata — elisabet@piratar.is, s. 868–9131