Aðalfundur Pírata 2022 var haldinn yfir helgina. Píratar kusu í nýja framkvæmdastjórn flokksins og fögnuðu einnig 10 ára afmæli sínu, en flokkurinn fæddist árið 2012 í kjölfar Búsáhaldabyltingar. Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, hélt opnunarræðu aðalfundarins, en í ræðunni minntist hún upphafsins og stofnunarinnar: „Þarna kynntist ég svo yndislegu fólki. Fólki sem var opið, leitandi, uppfullt af ástríðu og von fyrir framtíðina“.
Umhverfisvernd að leiðarljósi í Reykjavík
Kjörnir fulltrúar Pírata í Reykjavík, Alexandra Briem og Kristinn Jón Ólafsson, fóru yfir meirihlutasamkomulag Pírata í Reykjavík og þann stóra þátt sem stefnur Pírata marka í sáttmála meirihlutans. Píratar lögðu í sáttmálanum áherslu á að allar ákvarðanir tækju mið af loftslagsáherslum, að áfram yrði unnið að samgöngusáttmálanum og þéttingu byggðar með manneskjuvænt umhverfi í fyrirrúmi og að samin yrði sérstök borgarhönnunarstefna til að tryggja þau markmið.
Vistmorð verði gerð að alþjóðlegum glæp
Þingfólk Pírata fór yfir fyrsta árið af þingsetu; bæði það góða og það slæma. Pírötum tókst í samstarfi við minnihlutann að krefja meirihlutann um fjármögnun sálfræðiþjónustu, benda á það sem illa fór í sölu Ríkisins á Íslandsbanka (hvernig selur maður óvart pabba sínum hlut í ríkisbanka á afslætti?) og verja rétt Alþingis til að veita ríkisborgararétt. Áherslur þingflokksins hafa verið afglæpavæðing vörsluskammta vímuefna, aðgerðir gegn kynferðisbrotum, aukinn stuðningur við þolendur kynferðisbrota og þingsályktunartillaga um að gera vistmorð að alþjóðlegum glæp.
Tveir nýir Íslendingar kjörnir í stjórn Pírata
Á fundinum var kosið til framkvæmdastjórnar, fjármálaráðs, stefnu- og málefnanefnd og úrskurðarnefndar flokksins. Ný framkvæmdastjórn tekur við og er Atli Stefán Yngvason formaður hennar. Ásamt honum sitja Tinna Helgadóttir og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson í framkvæmdastjórn. Stefnu- og málefnanefnd fær góðan liðsstyrk og tveir nýir Íslendingar fengu kjör í gær: Phoenix Jessica Ramos og Derek Terell Allen. Einnig hlaut Sævar Ólafsson kjör í nefndina. Indriði Ingi Stefánsson verður formaður. Í fjármálaráði halda Píratar áfram að njóta þekkingar Valborgar Sturludóttur fráfarandi formanns nefndarinnar sem var endurkjörin. Stefán Örvar Sigmundsson verður formaður.
Lokaræðan í beinni frá Kúrdistan
Lenya Rún Taha Karim, varaþingkona Pírata í Reykjavík norður, flutti svo að endingu lokaræðu fundarins í gegnum netið þar sem hún var stödd í Kúrdistan í heimsókn hjá fjölskyldu sinni. Lenya Rún hvatti Pírata til þess að hlúa að grasrótinni, bjóða nýtt fólk velkomið í flokkinn og styðja nýja kynslóð: “Kynslóðin sem er núna að komast á kosningaaldur vill breytingar og við ætlum að vera þessar breytingar“. Gestir voru sammála um að lokaræðan hafi verið einn af hápunktum fundarins í ár.
Listi yfir nýja yfirstjórn Pírata
Framkvæmdastjórn
- Atli Stefán Yngvason
- Tinna Helgadóttir
- Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Stefnu- og málefnanefnd
- Indriði Ingi Stefánsson
- Phoenix Jessica Ramos
- Eiríkur Rafn Rafnsson
- Sævar Ólafsson
- Derek Terell Allen
Fjármálaráð
- Stefán Örvar Sigmundsson
- Valborg Sturludóttir
- Tinna Helgadóttir
Úrskurðarnefnd
- Björn Gunnlaugsson
- Magnús Kr Guðmundsson
- Huginn Þór Jóhannesson
- Bjartur Thorlacius
- Magnús Norðfjörð
Skoðunarmenn reikninga
- Álfheiður Eymarsdóttir
- Kristján Gísli Stefánsson