Fréttabréf Pírata – september

Vaknaðu Billie Joe, september er liðinn og fyrsta fréttabréf Pírata er komið út! Hér verður farið yfir það sem hæst bar í liðnum mánuði í Píratastarfinu og loks litið aðeins fram á veginn.

Aðalfundur

Aðalfundur Pírata var haldinn þann 31. ágúst. Nálgast má fundargerðina hér. Þeir sem vilja gera við hana einhverjar athugasemdir geta sent þær á piratar@piratar.is fyrir klukkan 19:00 þann 10. október næstkomandi.

Hagstofufrumvarpið afgreitt á Alþingi

Þann 17. september varð Hagstofufrumvarpið svonefnda að lögum. Með því voru Hagstofu Íslands færðar heimildir til að safna upplýsingum um lán einstaklinga og lögaðila frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna og öllum öðrum fyrirtækjum og opinberum aðilum sem stunda lánastarfsemi. Markmið þessa er að hjálpa stjórnvöldum til að tryggja að aðgerðir þeirra í skuldamálum byggist á traustum grunni.

Píratar veittu frumvarpinu strax frá upphafi harða mótspyrnu á þingi sem og utan þings, í ljósi þess að um er að ræða víðtæka söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga á hendur opinberrar stofnunar, án þess að nægileg rök séu færð fyrir nauðsyn hennar. Samkvæmt laganna hljóðan munu upplýsingarnar verða nýttar til að meta áhrif aðgerða stjórnvalda í þágu lántakenda eftir að þær hafa þegar verið framkvæmdar. Ekki liggur annað fyrir en að þessar aðgerðir feli að mestu í sér niðurfærslur skulda, og varla verður þeim breytt eftirá í ljósi upplýsinga um áhrif þeirra. Þess fyrir utan er eðlilegt að gera ráð fyrir því að áhrif aðgerða stjórnvalda liggi í stórum dráttum fyrir áður en þær eru teknar – ef svo er ekki er það skýr vísbending um að hugsa þurfi aðgerðirnar betur fyrirfram. Ef eitthvað þarf að hugsa vandlega eru það mál sem snerta grunnréttindi á borð við persónuvernd, enda lagðist stofnunin Persónuvernd gegn frumvarpinu.

Mikil umræða fór fram á vettvangi stjórnmálanna sem og í samfélaginu almennt fyrir um 15 árum þegar á Alþingi voru sett lög um svonefndan miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar var fyrirtækinu Íslensk erfðagreining færð heimild til að safna saman upplýsingum úr sjúkraskrám einstaklinga í þágu rannsókna sinna. Eðlilega var þetta umdeilt mál en eitt sem aldrei var deilt um var neitunarvaldið; sumsé réttur fólks til að afþakka það að upplýsingar um það yrðu færðar í miðlæga gagnagrunninn. Engin slík úrræði eru fyrir hendi hvað varðar miðlæga gagnagrunninn á lánasviði og því er hér um mikla afturför að ræða. Nauðsyn þess að berjast af hörku fyrir persónuverndarsjónarmiðum hefur sjaldan verið ljósari.

PR-hópur stofnaður

Í septembermánuði var stofnaður PR-hópur Pírata. Hlutverk hans er að halda utan um kynningar- og markaðsmál, móta áherslur í opinberum málflutningi og samræma hann. Hópurinn verður öllum innan handar sem hafa áhuga á að tjá sig um Píratamálefni. Þórlaug Ágústsdóttir ( thorlaug@piratar.is) leiðir hópinn. Þeim sem vilja taka þátt í PR-málum á formlegum vettvangi eða hafa eitthvað um þau mál fram að færa yfir höfuð er bent á að setja sig í samband við hana.

Framundan

Minnumst 20. október

Þann 20. október verður ár liðið frá því að fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá, þar sem meirihluti kaus með því að tillögurnar ætti að leggja til grundvallar að endurskoðaðri stjórnarskrá. Af því tilefni hyggjast Píratar taka þátt í að minna á þessa niðurstöðu sem og mikilvægi beins lýðræðis almennt. Núverandi valdhafar tala fjálglega um sameiginlega framtíðarsýn þjóðarinnar og mikilvægi þess að allir hafi aðkomu að því að móta hana. Þar tala þeir nánast í anda Píratahugsjónarinnar um lýðræðisumbætur, en hingað til hafa þeir lítið sýnt þennan vilja til umbóta í verki. Píratar eru því allir sem einn hvattir til að minna valdhafa á að það eru verkin sem tala.

Félagsfundur/framfarafundur

Í október verður haldinn félagsfundur/framfarafundur, þar sem farið verður yfir stöðu mála með félagsmönnum. Tímasetning og dagskrá fundarins verður auglýst fljótlega.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....