Frelsisverðlaun Ungra Pírata veitt í fyrsta sinn

Frelsisverðlaun Ungra Pírata voru veitt í fyrsta sinn í dag, en þeim er ætlað að verðlauna baráttufólk fyrir borgararéttindum og aðra talsmenn frelsis.

Ísland er ungt lýðveldi og tiltölulega stutt síðan við öðluðumst flest þau réttindi sem ungt fólk lítur á sem sjálfsögð í dag. Tjáningarfrelsið er einnig ungt, og hefur styrkst síðan við gerðumst aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu en rátt fyrir sáttmálann verða fjölmiðlar og einstaklingar enn að verja rétt sinn frammi fyrir mannréttindadómstólnum.

Í ár hljóta verðlaunin rithöfundurinn Úlfar Þormóðsson og Snarrótin. Úlfar er eini núlifandi Íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir að gera grín að fermingarathöfnum, en árið 1983 var hann dæmdur fyrir guðlast og öll eintök af tímaritinu Spegillinn gerð upptæk, þar sem ekki mátti lesa grínið. Í dag þætti mörgum þetta grín meinlaust, en þó eru ekki nema tvö ár síðan lög um guðlast voru afnumin. Úlfar andmælti dóminum í bók sem kom út ári síðar, Bréf til Þórðar frænda, en málið vakti mikla umræðu og athygli og átti stóran þátt í að breyta viðhorfi fólks í landinu. Barátta Úlfars gerði það að verkum að hann var síðasti maðurinn dæmdur með þessum lögum.

Úlfar Þormóðsson, kátur eftir að hafa veitt verðlaununum viðtöku.

Snarrótin eru samtök sem tala fyrir auknum borgararéttindum og hafa vakið mikla umræðu í gegnum tíðina. Með verðlaununum vilja Ungir Píratar hvetja Snarrótina til að haldaáfram sinni vinnu, birta greinar, sýna heimildamyndir og fá til landsins fyrirlesara. Ef ekki væri fyrir Snarrótina væri umræða á Íslandi um borgararéttindi fábrotnari og ógagnrýnni.

Að verðlaunaafhendingunni lokinni er aðalfundur UP haldin en á honum er kosin ný stjórn árlega.

Á myndinni hér að ofan má sjá Dóru Björt Guðjónsdóttur, formann Ungra Pírata, ásamt fulltrúum Snarrótarinnar.

Þá fylgir hér tengill á rafræna útgáfu af því eintaki Spegilsins sem varð gert upptækt

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=293538&pageId=4341299&lang=is&q=Spegillinn%20SPEGILLINN