Í samræmi við ákvörðun stofnfélaga Pírata í Reykjavík á stofnfundi þann 14. desember 2013 mun félagið bjóða fram lista í nafni Pírata í kosningum til borgarstjórnar þann 31. maí næstkomandi.
Samkvæmt lögum félagsins skal raðað á framboðslistann með því að auglýsa eftir framboðum félagsmanna og halda svo netkosningu um listann.
Hér með tilkynnist því að opið er fyrir framboð og atkvæðagreiðsla mun fara fram meðal félagsmanna Pírata í Reykjavík í rafrænu kosningakerfi Pírata á netinu þann 14. febrúar – 22. febrúar næstkomandi. Framboðsfrestur rennur út þann 9. febrúar en þó er hægt að gera undantekningu á því með samþykki stjórnar Pírata í Reykjavík.
Áhugasamir frambjóðendur og kjósendur sem ekki eru félagar í Pírötum í Reykjavík nú þegar geta skráð sig í félagið með því að senda tölvupóst á skraning@piratar.is og taka fram að þeir vilja skrá sig í Pírata í Reykjavík (félagar í Pírötum í Reykjavík eru sjálfkrafa félagar í Pírötum en ekki öfugt) sem og gefa upp kennitölu og heimilisfang. Þetta er nauðsynlegt áður en fólk getur boðið sig fram eða kosið í framboðslistakosningunum, bæði lagalega og ekki síst upp á að fá aðgang að kosningunum á kosningakerfinu.
Þó skal tekið fram að samkvæmt lögum félagsins geta þeir félagar einir kosið í framboðslistakosningunum sem hafa verið skráðir í Pírata í 30 daga. Þetta þýðir að nýir Píratar þurfa að skrá sig sem fyrst til að ná að taka þátt í kosningunum. Frambjóðendur þurfa hins vegar einungis að vera félagar í Pírötum í Reykjavík þegar þeir tilkynna framboð formlega, sem og vera kjörgengir við borgarstjórnarkosningarnar (samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna er hver sá kjörgengur í sveitarstjórn sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu og hefur ekki verið sviptur lögræði) – og auðvitað láta vita fyrir 9. febrúar.
Tekið er við formlegum tilkynningum um framboð í tölvupóstfangið frambod@piratar.is. Frambjóðendur skulu gefa upp nafn, kennitölu, netfang og notandanafn í kosningakerfi Pírata að lágmarki en mælt er með því að þeir láti mynd af sér fylgja og svari eftirfarandi spurningum líka:
Hver ‘ert’ þú?
Af hverju ertu Pírati?
Ertu með einhverjar sértækar áherslur í borgarmálum?
Hvaða sæti býður þú þig fram í (alveg opin spurning, má þess vegna vera ‘hvaða sæti sem er’)?
Tekið er við ábendingum og spurningum í tölvupóstfangið reykjavik@piratar.is.