Frá stjórnarskrá til velferðar

Guðrún Á. Þórdísardóttir & Einar Brynjólfsson skrifa:

Einar Brynjólfsson

Einar Brynjólfsson

Guðrún Á. Þórdísardóttir

Innleiðing nýrrar stjórnarskrár er eitt aðalbaráttumál okkar Pírata. Mörgum finnst það undarlegt og telja að önnur mál séu brýnni í samfélaginu en að endurnýja stjórnaskrá sem hefur lufsast áfram með sæmilegum árangri síðustu 72 árin.

En málið er flóknara en svo. Þjóðin samþykkti með miklum meirihluta (66,9%) í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og þann vilja á að virða. Misvitrir þingmenn eiga ekki að taka sér það alræðisvald að ákveða að vegna þess að þetta er vesen, þá sé best að sleppa þessu bara. 

Einnig gæti hugsanlega spilað inní að hagsmunaaðilar sjá fyrir sér að missa spón úr aski sínum við það að ný stjórnarskrá sé innleidd og einnig gætu sumir stjórnmálamenn séð það sem miður þægilega framtíð að þjóðin væri að skipta sér af, oftar en á 4 ára fresti.

Þrjú ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá virðast fara sérstaklega illa í þessa aðila:

34. grein. Náttúruauðlindir

Þar er gert ráð fyrir að auðlindir þjóðarinnar séu í eigu hennar og að stjórnvöld geti leyft afnot af þeim „gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn“.

65. grein.  Málskot til þjóðarinnar

Þar kemur fram að 10% kjósenda geti „krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt“.

66. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Þar er gert ráð fyrir að 2% kjósenda geti „lagt fram þingmál á Alþingi“ og að 10% kjósenda geti „lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi“.

Efasemdum og „ómöguleikum“ varðandi nýja stjórnarskrá er auðvitað pakkað inn í allskonar lagatæknileg rök og hártoganir um óskyld efni en í grunninn eru þetta ákvæði sem hver einasti spilltur stjórnmálamaður hræðist. 

Þá komum við að velferðinni. Gjarnan er spurt hver á að borga fyrir alla þessa velferð? Okkur langar að benda á sjávarútvegsstefnu Pírata, þar sem kemur skýrt fram að allur afli skuli fara á uppboðsmarkað. Það má borga alveg slatta af velferð fyrir stórauknar tekjur af auðlindum hafsins. 

En velferð er margþætt. Hún er ekki bara krónur og aurar. Hún snýst líka um sjálfsvirðingu og það að geta lifað með reisn, ásamt miklu fleiri hlutum. Ef við viljum standa jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum verðum við að fá meira fjármagn í grunnstoðir samfélagsins.

En það er líka nauðsynlegt fyrir okkur sem samfélag með sjálfsvirðingu að hafa eitthvað um okkar mál að segja, svona eins og að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál.

Eitt þessara mála er heilbrigðiskerfið. Þjóðin er sammála um að setja það í forgang en getur ekki gert það vegna þess að hún hefur ekki tækin til þess. Slíkt tæki er fólgið í ákvæði frumvarps að nýrri stjórnarskrá um að þjóðin geti lagt fram frumvörp til laga. Það hefði þjóðin eflaust gert í staðinn fyrir að setja nöfn á undirskriftalistana hans Kára Stefánssonar. Ráðamenn voru snöggir að stinga þeim listum í næstu skúffu á meðan þeir krotuðu í minnisbókina sína: „Muna að tala um heilbrigðiskerfið þegar þarf að kjósa næst!“

Það er ekki eins og þjóðaratkvæðagreiðslur hafi verið ofnotaðar hingað til á Íslandi. Einungis átta slíkar hafa farið fram frá árinu 1908. 66 ár liðu frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla um afnám sambandslaganna og setningu nýrrar stjórnarskrár fór fram árið 1944 þangað til efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð vegna Icesave árið 2010. Árið 2011 fór fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave og títtnefnd atkvæðagreiðsla um tillögur að nýrri stjórnarskrá fór fram árið 2012. 

Það er svo sem ekki endilega neitt víst að þjóðaratkvæðagreiðslum myndi fjölga verulega eins og sumir óttast. Miklu líklegra er að frumvörp, sem vitað er að eru mjög óvinsæl, muni ekki sjá dagsins ljós, því hvaða ráðherra eða þingmaður vill verða gerður afturreka af þjóðinni? Eins er líklegt að frumvörp um mál sem vitað er að meirhluta landsmanna er umhugað um verði ofarlega á listum stjórnmálamanna sem hlusta á sína kjósendur.

Við hvetjum alla landsmenn til að íhuga þessi atriði. Ef þú, kjósandi góður, vilt vera gerandi í eigin samfélagi, ekki bara þátttakandi á 4 ára fresti, þá áttu samleið með Pírötum. 

Áfram lýðræði, ekkert stopp!

Höfundar skipa efstu sætin á framboðslista Pírata í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar, sem eru fyrirhugaðar 29. október nk.