Eldhúsdagsræða Þórhildar Sunnu

Frú forseti, kæru Íslendingar,

Til að breyta leikreglunum þarf maður að þekkja þær. Ekki man ég hvar ég las þetta viskukorn fyrst, en það hefur verið mitt leiðarljós meirihluta ævinnar engu að síður. Það eru forréttindi að fá að starfa hér á þessum stað, þar sem reglur eru settar og reglum er breytt,, og þeim forréttindum fylgir ábyrgð og sú skylda, að vinna að hagsmunum almennings í landinu og raunar heiminum öllum.

Við Piratar trúum því, að með framsýni, gagnrýnni hugsun og virkri, lýðræðislegri þátttöku almennings megi lyfta grettistaki í átt að sanngjörnu og sæluríku samfélagi fyrir alla. Því fleiri, sem láta sig samfélag sitt og velferð þess varða og taka höndum saman um að bæta það, þeim mun hraðar mun það ganga fyrir sig.

Ef við horfum út í heim virðist þróunin þó víða vera meira í hina áttina. Teikn eru á lofti austanhafs og vestan um að lýðræðið standi veikum fótum og stefni jafnvel í að falla á eigin bragði vegna ótta, vanmáttar og reiði almennings – sem er langþreyttur á lygum og svikum þeirra sem veljast til valda.

Eins og margir aðrir hef ég stundum verið við það að gefast upp á leitinni að betra samfélagi – verið við það að láta undan reiðinni – rasa út – villast út úr leitinni og baráttunni og inn í sinnuleysið og deyfðina sem eflaust fylgir hinni endanlegu uppgjöf.

Því rétt eins og víðtæk mannréttindavernd hefur látið á sér standa á heimsvísu þykja mér umbæturnar ganga heldur hægt hér á Fróni. En þegar þannig árar þykir mér gott að muna að þótt hlutirnir hreyfist oft hægar en maður sjálfur helst vildi  mjakast þeir þó í rétta átt.

Árið 2008 hrundi íslenska fjármálakerfið  með ömurlegum afleiðingum fyrir þorra fólks á Íslandi. Almenningur vaknaði í kjölfarið til vitundar um áhrifamátt sinn gagnvart vanhæfri ríkisstjórn sem þóttist ómissandi til  að byggja upp það sem hún hafði sjálf látið hrynja. Söguleg mótmæli settu þeim stólinn fyrir dyrnar og við tók ný ríkisstjórn sem lofaði nýjum samfélagssáttmála til þess að gera upp svikin milli þings og þjóðar.

Ári síðar var stjórnarskráin komin ofan í nefndarskúffu og þeir flokkar sem báru mesta ábyrgð á efnahagshruninu voru kjörnir aftur til valda. Eftir stóð þó að meðvitund almennings um áhrifamátt sinn og ábyrgð hafði aukist til muna, landsmenn þróuðu með sér aukið óþol fyrir spillingu og einkavinavæðingu og stjórnarskráin, þótt geymd væri, var – og er – ekki gleymd.

Ef við spólum aðeins áfram inn í nokkuð skrautlega stjórnartíð ríkisstjórnar háttvirts  núverandi þingmanns og þáverandi forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og stoppum spóluna þann 3. apríl 2016, daginn sem hinn eftirminnilegi Kastljóssþáttur um Panamaskjölin hélt meirihluta landsmanna límdum og gapandi við skjáinn má sjá annað dæmi um þessa þróun, frú forseti.

Næsta dag lét samtakamáttur þjóðarinnar aftur til sín taka, úr urðu stærstu mótmæli Íslandssögunnar, 26 þúsund manneskjur mættu á Austurvöll til þess að mótmæla ríkisstjórn sem hafði misboðið réttlætiskennd þeirra. Krafist var afsagnar þeirra ráðherra sem áttu eignir í skattaskjólum, og nýrra kosninga strax.

Og þó núverandi hæstvirtan forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, hafi einnig verið að finna í Panamaskjölunum þá er samt sem áður um að ræða gjörbreytta stöðu á Alþingi Íslendinga.  Aldrei hafa fleiri nýliðar setið á þingi en nú, konur eru  nær helmingur  þingmanna og meðalaldur okkar hefur aldrei verið lægri. Það er vert að fagna því að þjóðin hafi treyst jafn mörgum nýjum fulltrúum til þess að fara með löggjafarvaldið og raun ber vitni.

Breytingarnar ganga kannski hægt enda er fólk gjarnan smeykt við breytingar, skiljanlega, breytingar fela í sér óvissu sem við viljum alla jafna forðast.

Því ætti kannski ekki að koma á óvart að gamalreyndur hagsmunagæslu- og valdaflokkur leiðir nú ríkisstjórn í skjóli tveggja nýrri flokka sem virðast sjá það sem sitt helsta hlutverk að viðhalda heljartökum auðstéttarinnar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og greiða leið peningaaflanna að vösum almennings í gegnum heilbrigðis- og menntakerfið, og það með minnihluta kjósenda að baki sér.

Frú forseti, Píratar vilja vinna að menningu ábyrgðar og heiðarleika, æðruleysis og hugrekkis í samfélaginu. Að við vinnum í sameiningu gegn þeirri frændhygli og spillingu sem tröllriðið hefur samfélaginu fram að þessu. Til þess verðum við að styrkja eftirlitsstofnanirnar okkar svo þær geti sinnt hlutverki sínu.  Þær eiga að rannsaka spillingu ráðamanna. Þær eiga að vernda borgarana gegn ágangi ríkisvaldsins og tryggja að allir sitji við sama borð. Þær eiga að vernda mannréttindi allra, ekki bara sumra.

Því er ég svo óendanlega þakklát þeim kjósendum sem gáfu okkur tækifæri til  að kynna okkur fyrir þjóðinni, og byggja upp traust og brýr til framtíðar. Við Píratar viljum samfélag þar sem lýðræðislegur réttur allra til þess að hafa áhrif er virtur. Tækniframfarir síðustu áratuga gera það að verkum að beint lýðræði er ekki lengur draumsýn heldur raunhæfur möguleiki. En til þess að geta tekið þátt í lýðræðinu þurfum við að vera upplýst. Við þurfum orku, tíma og skilning á kerfinu. Við þurfum að þekkja réttindi okkar og hafa heilsu til að njóta þeirra.

Það er því gjörsamlega ólíðandi að stór hluti þjóðfélagsins hafi ekki öruggt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna lakra kjara. Og sömuleiðis óásættanlegt að kennararnir okkar skipti í stórhópum um starfsvettvang vegna lágra launa og mikils álags. Því við vitum öll að við höfum alla burði til þess að bjóða upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem tryggir öllum rétt til menntunar og bestu mögulegu heilsu. Meirihluti þjóðarinnar er sammála okkur um það.

Enda er það fullkomlega raunhæft að við byggjum hér samfélag þar sem mannréttindi allra eru vernduð. Samfélag sem kemur fram við alla af virðingu og býr öllum mannsæmandi kjör.

Nútímasamfélag þarfnast fólks með fjölbreytilega hæfileika og frumkvæði. Fólks sem þorir að fara ótroðnar slóðir og prófa sig áfram með nýja tækni og nýjar hugmyndir. Þess vegna viljum við kanna kosti þess að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu.

Það er ekki auðvelt að berjast fyrir betra samfélagi en það er mikilvægt og það er hægt. Við gerum það með því að trúa á rétt okkar allra til þess að hafa áhrif á samfélag okkar og áherslur þess. Við gerum það með því að mótmæla áfram spillingu, valdagræðgi og sérhagsmunapoti ráðandi afla. Við gerum það með því að fylgja réttlætiskenndinni, með því halda í reiðina, með því að virkja reiðina og nýta til góðra verka og með því að gefa ekki upp vonina.

Við Píratar erum búnir að læra reglurnar, frú forseti, en nú viljum við ekki bara breyta reglunum – við viljum breyta leiknum.