Eldhúsdagsræða Birgittu Jónsdóttur

Kæru landsmenn

Margir gleyma því að lög breyta veruleika manna, lög ráða því hvernig nánast allt sem við gerum í lífinu, er framkvæmt, hvað má, hvað má ekki, hvaða réttindi við eigum og hvaða réttindi eru afnumin. Öllu er umsvifalaust markaður staður í litla lagaboxinu. Gleymum svo ekki öllum þessum óskráðu sér íslensku reglum, eins og þessi með samráð og samkeppni.

Verðlags samráð er ein af þessum óskráða reglum í fákeppnissamfélagi og ekkert við því að gera er mér sagt. Sama fólkið og er alltaf að tala um að samkeppni sé smurningin í hinni kapitalísku vél, vill einkavæða allar okkar sameignir fyrir skammtímagróða, vill líka einkavæða grunnstoðnirnar til að samkeppnin geti nú boðið upp á betri þjónustu vandlega studda af skattpeningum ykkar.

Ég hef ekkert orðið vör við að hér sé nein alvöru samkeppni. Serial smá skilaboð með nákvæmlega sömu tilboðunum á nákvæmlega sama tíma sýnir svo ekki verður um villst, að þetta er og hefur verið blekking frá upphafi til enda.

Ég hef fylgst grannt með umræðunni og sér í lagi upplifuninni af Costco meðal almennings. Í facebook grúbbu með yfir 63 þúsund eru allir eru að hjálpast að, deila verði og myndum frá Costco og samkeppnisaðilum þeirra, fyrir og eftir. Það er stórmerkilegt að sjá þessa skyndilegu og auknu neytendavitund og meðvitundinni um þann mátt samstöðu sem fólk er að fatta.

Næsta bylgja samstöðu og hjálpsemi af þessu tagi gæti auðveldlega orðið um laun og launatengd réttindi, nú þegar margir samningar losna.

Þó má ekki gleyma því að mikil samstaða myndaðist um endurreisn. Fjölmennasti undirskriftarlisti lýðveldisins var krafa um endurreisn heilbrigðiskerfisins korteri í kosningar, flokkarnir allir lofuðu og samt lætur ríkisstjórnin eins og það skipti engu máli eftir kosningar.

Samstöðuna og samvinnuna er mjög mikilvæg að halda áfram að þroska og þróa sér í lagi vegna þess að það eru mörg teikn á lofti um að við séum á hættulegum stað í hagsældar bólu, bóla sem hafði mjög jákvæð áhrif rétt eftir hrun en neikvæð áhrif þennslunar eru farin að láta á sér kræla. Það er eðli bólu hagkerfis að það hjaðnar yfirleitt, en sko, bólur eru líka stundum graftarkýli og graftarkýli þarf stundum að stinga á og hreinsa vel og vandlega með sótthreinsandi efnum. Bólur hafa líka tilhneigingu til að koma aftur og aftur ef engu er breytt og nú erum við stödd á þeim stað að það sem hafði frábær áhrif til skamms tíma, er farið að valda verulegu tjóni til framtíðar og eiginlega ekkert hægt að gera nema að undirbúa sig undir að það spryngi og hvað við getum gert ef það gerist.

Mig langar svo að gera eitthvað magnað, með ykkur, vera tilbúin með kistu hugmynda og útfærslna að betra samfélagi ef allt hrynur saman aftur.

Lýðræðið krefst hugsjóna, alúðar og bíræfni, enginn fékk nokkru sinni réttindi án fyrirhafnar. Alvöru mannréttindi kröfðust baráttu og samstöðu sem tók oft áratugi að ná fram.

Ný lýðræðis verkfæri sem nú þegar hafa verið mótuð, bíða eftir því að við tökum þau upp. Við þurfum bara að byrja aftur og upp á nýtt og vita að æfingin skapar meistarann. Við fundum moldina, iðandi af lífi og nýja Ísland var þarna handan við hornið.

Við Píratar viljum nýjan jarðveg, því það er ekki hægt að uppræta spillingarrótina með því að krafsa bara í yfirborðið.

Ég skil og virði djúpstæðan óttann við breytingar, breytingar eru nefnilega óvissa og óvissa er stundum lamandi og óþægileg. En það lærði enginn að synda með því að æfa sundtökin á árbakkanum. Það er bara hægt að læra að synda ofan í vatninu sem er aldrei eins, nema þetta staðnaða og fúla.

 

Við Píratar boðuðum kerfisbreytingar í aðdraganda kosninga, við sýndum í verki að við þorðum að fara út fyrir hefðirnar, kölluðum eftir bindandi samkomulagi flokka fyrir kosningar um hvað þeir gætu unnið saman að eftir kosningar.

Ég held að við værum með betri ríkisstjórn ef það hefði gengið eftir. Þá væru ekki svona margir vonsviknir eins og gerist alltaf eftir kosningar.

Píratar vildu og vilja enn:

Gjaldfrjálsa og örugga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð búsetu

Stöðva fjársvelti heilbrigðis og menntakerfis

Færa tannlækna og sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið

Hætta að refsa veiku fólki

Gera tilraunir með borgaralaun

Stytta vinnuvikuna

Píratar vildu og vilja enn:

Lögfesta málskots- og frumkvæðisrétt þjóðarinnar með nýrri stjórnarskrá

Auka aðkomu borgaranna að ákvarðanatöku samfélagsins með virku lýðræði

Efna loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

Styrkja borgararéttindi með sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga

Styrkja nýsköpun í lýðræði með stafrænum lausnum og öðrum verkfærum upplýsingasamfélagsins

Píratar vildu og vilja enn:

Stórefla upplýsingarétt borgaranna með gagnsærri stjórnsýslu

Opna bókhald hins opinbera fyrir almenningi

Styrkja þær stofnanir er standa vörð um hagsmuni almennings

Við Píratar vildum og viljum enn uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá af því að:

Hún svarar kalli þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála

Hún færir auðlindir í þjóðareign

Hún tryggir mikilvæg réttindi eins og réttinn til bestu mögulegu heilsu

Hún færir almenningi aukið vald og stuðlar þannig að virkara lýðræði

Hún tryggir ábyrgð stjórnvalda gagnvart kjósendum

 

En það breytist ekkert nema að það sé alvöru þrýstingur á þingið utanfrá. Rétt eins og Costco er að þrýsta verðinu niður í öðrum búðum, sem utanaðkomandi aðili, þá er þrýstingur frá almenningi það sem þarf til að búa til réttlátara samfélag.

Við Píratar ætlum að nýta sumarið til að fara og hlusta á fólkið í landinu og finna hvað það er sem brennur á fólki og sameinar það. Við viljum hjálpa til að búa til farveg fyrir hugsjónir ykkar og vonum að aðrir flokkar taki höndum saman með okkur á þeirri vegferð. Framtíðin er óskrifað blað sem þarf á rödd ykkar og hugsjón að halda til að geta orðið að alvöru vegvísi fyrir okkur fulltrúa ykkar.

Við höfum því opnað nýtt pósthólf þar sem við munum taka við hugmyndum. Sendið okkur skeyti á hugmyndir(at)piratar.is