Ég vil fá að hafa internetið mitt í friði fyrir ríkisvaldinu

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir skrifar:

Um borgararéttindi

Borgararéttindi eru einn af hornsteinum lýðræðissamfélaga. Í grunnstefnu Pírata segir: „Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.“ Það er greinilegt af ýmsu sem hefur verið í umræðunni á undanförnum árum og því sem er að gerast í dag að það má aldrei sofna á verðinum.

Það er svo sem af nógu að taka í þessum efnum og margt til að berjast fyrir en mér koma tvö dæmi hérlendis upp í hugann sem snúa að internetinu. Fyrra dæmið er hin alræmda klámsía sem innanríkisráðuneytið, sem Vinstri Græn stýrðu, vildi koma á um árið.

Það mál er gott dæmi um að góður ásetningur getur farið úr böndunum. Auðvitað vill enginn að börn hangi á netinu og skoði klám en það er frekar á ábyrgð foreldra að koma í veg fyrir slíkt en ríkisins.

Auk þess hefði þetta aldrei virkað af tæknilegum ástæðum, en það alvarlegasta er að þarna gægðist fram sú hugsun að það væri sjálfsagt að ritskoða internetnotkun almennings í þágu ákveðins málstaðar.

Þá komum við að því sem er alvarlegt, skerðingu réttinda. Það að hefta aðgengi almennings að efni, sem ríkisvaldið ákveður að sé slæmt, er alltaf varhugarvert, því hver ákveður hvað er slæmt og hvar á að draga mörkin?

Síðara dæmið er önnur álíka tillaga og það aftur frá innanríkisráðuneytinu, sem að þessu sinni er á hendi Sjálfstæðisflokksins, að koma upp svokallaðri netlöggu. Nú er klámið ekki aðalmálið heldur ólöglegt niðurhal. Þetta vekur upp tvær spurningar hjá mér: Á ráðuneyti að ganga erinda hagsmunaaðila og setja á stofn sérstaka löggæslu til að tryggja hag þeirra og verður stoppað við þessa tegund vefsíðna?

Nú er ég ekki að verja ólöglegt athæfi, ef einhver skyldi halda það, heldur að benda á að inngripið í netnotkun almennings með þessum hætti er afar varasamt og myndi að mínu mati teljast skerðing á borgararéttindum.

Utan þess að vera vafasamt í meira lagi þá er það tæknilega á gráu svæði þegar talað er um að þvinga fram Pop Up glugga hjá notendum. Ég til dæmis hef fyrir löngu slökkt á öllu svoleiðis og kynni ríkinu litlar þakkir fyrir að taka fram fyrir hendurnar á mér ef ég slæddist inn á netsvæði sem ríkið teldi vafasamt að ég skoðaði.

Bæði þessi dæmi sýna að valdhöfum þykir sjálfsagt, hvar svo sem í flokki þeir eru, að leggja til skerðingu á réttindum borgaranna. Vald er vandmeðfarið og það að vera í valdastöðu krefst þess að fólk íhugi hlutina vandlega áður en þeir eru settir fram, jafnvel sem hugmyndir.
Það að jafn ólíkum flokkum og Vinstri Grænum og Sjálfstæðisflokki þyki sjálfsagt að leggja til að fylgst sé með netnotkun almennings sýnir að það er ekki vanþörf á að vera á varðbergi gagnvart skerðingu borgararéttinda.

Meginstefið í þessum banntilhneygingum er hræðsla og hræðsla er aldrei góður grundvöllur til upplýstrar ákvarðanatöku. Þetta sjáum við nú glögglega í Frakklandi þar sem þykir í lagi að setja reglur um klæðaburð kvenna árið 2016 og framfylgja þeim með lögregluvaldi.

Til að taka það fram þá hef ég engan áhuga á klámi á internetinu. Ég nota Spotify, Netflix og Audible og ef mig skyldi grípa löngun til að lesa ritsafn Einars Kárasonar þá fer ég á bóksafnið.

Ég vil hins vegar fá að hafa internetið mitt í friði fyrir ríkisvaldinu sem gæti ákveðið upp úr þurru að Ravelry handavinnusíðan væri vafasöm eða kannski bara Píratar.

Höfundur skipar 2 sæti framboðslista Pírata á Norðausturlandi í komandi Alþingiskosningum