Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram breytingatillögu sem miðar að því að afnema hinn svokallaða transskatt. Yrði hún samþykkt myndi Þjóðskrá Íslands hætta að rukka fyrir skráningu kyns og nafns, en af þeim 17 atriðum sem skráð eru í þjóðskrá er aðeins rukkað fyrir þessar tvær breytingar.
Tillaga Andrésar nýtur breiðs stuðnings bæði innan Alþingis sem utan, en auk Andrésar hafa 11 þingmenn sett nafnið sitt við tillöguna. Þá hafa ekki aðeins Samtökin ’78 og Trans-Ísland lýst yfir stuðningi við baráttu Andrésar gegn transskattinum heldur Þjóðskrá Íslands sömuleiðis. Í umsögn stofnunarinnar við tillögu Andrésar segir Þjóðskrá að breytingin myndi einfalda ferlið, öllum til hagsbóta.
Andrés hefur lengi barist fyrir þessum breytingum. Hann telur að Alþingi hafi gert mistök þegar þingmenn samþykktu lög um kynrænt sjálfræði í lok síðasta árs. Alþingi hafi hreinlega ekki áttað sig á því að kynsegin fólk myndi með breytingunni þurfa að reiða fram 9000 krónur fyrir breytingarnar á kyn- og nafnskráningu sinni.
„Ég efast stórlega um að það hafi verið raunverulegur vilji alþingismanna að hafa þennan hóp að féþúfu, líta á kynskráningu þeirra sem sérstaka tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Einhverjum kann ekki að þykja 9000 krónur há upphæð – en þó að þetta væri ódýrara þá væri þetta samt óréttlátt,“ segir Andrés Ingi.
Það er mat Andrésar að transskatturinn sé óréttlátur því hann gangi gegn þeirri almennu reglu að breytingar á þjóðskrá séu gjaldfrjálsar. „Hann er til óþurftar vegna þess þjóðskrá verður lélegri grunnskrá en ella og hann er ósanngjarn af því að hann gerir hóp fólks að féþúfu. Hóp sem við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við,“ segir Andrés Ingi.
Með breytingartillögunni gefst þingheimi tækifæri seinna í vikunni til að styðja gjaldfrjálsar breytingar á skráningu kyns og gjaldfrjálsar nafnabreytingar hjá Þjóðskrá – eins og Samtökin ’78, Trans-Ísland og Þjóðskrá Íslands kalla eftir.
Nánar má lesa um tillögu Andrésar í grein sem hann skrifaði í mars síðastliðnum, sem ber yfirskriftina „Þingið gerði mistök“