Blaðamannafundur Pírata – áherslumálin og skuggafjárlög

Píratar vilja gera stórátak í húsnæðismálum og verja minnst 11 milljörðum strax á næsta ári til að byrja að vinna upp mörg þúsund íbúða skort. Við viljum einnig blása til sóknar í heilbrigðismálum, ekki síst þegar kemur að geðheilbrigði, og tryggja að allir sem þurfa á hjálp að haldai fái viðeigandi aðstoð. Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi sem Píratar héldu nú skömmu fyrir hádegið þar sem helstu stefnumál fyrir kosningar voru kynnt.

Helgi Hrafn Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavík norður, gerði árásir gærdagsins á tjáningarfrelsi að sérstöku umtalsefni og talaði um hvernig fulltrúar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu ruddust inn á Stundina, sjálfstæðan fjölmiðil, og reyndi að gera upptæk gögn og taka niður fréttir um fjárhagsmál Bjarna Benediktssonar, sitjandi forsætisráðherra, í Hruninu. Helgi sagði þessa þöggunartilburði minna á mikilvægi baráttu Pírata fyrir tjáningarfrelsi og öðrum mannréttindum ásamt lýðræðisumbótum, en oddvitar Pírata í öllum kjördæmum sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem þessi aðför að tjáningarfrelsinu var fordæmd.

Auk þess að fara yfir helstu stefnumál fyrir kosningarnar kynntu Píratar í dag  skuggafjárlög sín þar sem tilgreint er í hvaða málaflokkum við viljum breyta út af því sem síðasta ríkisstjorn lagði áherslu á.  Skuggafárlögin eru unnin út frá áherslum hreyfingarinnar en einnig út frá könnunum sem þingflokkur Pírata lét vinna í aðdraganda kosninga um hvernig landsmenn vilja forgangsraða ríkisfjármnum.

Hér er að neðan er stiklað á stóru í áherslumálunum.

Hér eru tillögur Pírata að forgangsröðun í fjárlögum.
https://goo.gl/imuEuv

Hér er svo hlekkur á niðurstöður Gallup
https://goo.gl/ZhwFF2

 

Húsnæðismál

Píratar vilja gera stórátak í húsnæðismálum og verja minnst 11 milljörðum strax á næsta ári til að byrja að vinna upp mörg þúsund íbúða skort. Stærstum hluta þessara fjármuna verður varið í uppbyggingu félagslegs húsnæðis í samvinnu við húsnæðissamvinnufélög og við fyrirtæki sem byggja smærri íbúðir á lágu fermetraverði, sérstaklega til langtímaleigu.

 

Heilbrigðiskerfið

Frá aldamótum hefur verið viðhöfð niðurskurðarstefna í opinbera heilbrigðiskerfinu, þvert á vilja almennings. Heilbrigðisstofnanir skortir húsakost og tækjabúnað auk þess sem starfsaðstæður eru ófullnægjandi. Hluti sjúklinga í lyfja- og þjónustukostnaði er of hár, sjúkraflutningar eru óviðunandi, geðheilbrigðismál hafa setið of lengi á hakanum og álag á starfsfólk er of mikið. Píratar munu setja heildstæða heilbrigðisáætlun, auka fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins um 20 milljarða árlega, og viðhalda þeirri hækkun.

 

Kjör einstaklinga

Píratar ætla að bæta kjör einstaklinga og þá sérstaklega þeirra sem eru í lægstu tekjuhópunum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun en á árunum 1998 til 2016 hefur heildarskattbyrði einstaklinga aukist um 21 prósentustig. Það hefur bein áhrif til lækkunar á ráðstöfunartekjum fjölskyldna. Áhrifaríkasta leiðin til að bæta kjör allra er að minnka skattaálögur á almenning með hækkun persónuafsláttar. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 kr. á mánuði. Takmarkið er að ná fram hækkun á afslættinum sem nemur 26.000 kr á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun, og verður þá við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur.

 

Til viðbótar

Píratar ætla að bæta stöðu öryrkja með því að einfalda greiðslukerfið, útvíkka atvinnumöguleika eldri borgara, styrkja menntakerfið og ljúka vinnu við nýja stjórnarskrá. Útvíkkun og efling mannréttinda verður alltaf keppikefli Pírata, sem og aðkoma almennings að ákvarðanatöku og bætt stjórnmálamenning á Íslandi.

 

Hvernig greitt verður fyrir þetta allt saman

Tekjuafgangur ríkissjóðs verður lækkaður úr 1,6% í 0,5% af VLF. Með því að lækka kröfu um afgang til skuldaniðurgreiðslu má auka ráðstöfunarfé ríkissjóðs og full ástæða er til að nýta jákvæða afkomu ríkissjóðs til að styrkja samneyslu og byggja upp innviði. Þá verður fjármagnstekjuskattur hækkaður í 30%. Þessi aðgerð mun auka tekjur ríkissjóðs um 10–14 milljarða. Þá viljum við leggja bann við þunnri eiginfjármögnun, þannig að íslensk fyrirtæki með erlend móðurfélög geti ekki skotið undan skattskyldu sinni með einfaldri tilfærslu á skuldum.