Birgitta Jónsdóttir um stöðu fanga á Alþingi í dag

Í dag var Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, framsögumaður í sérstökum umræðum á Alþingi um stöðu fanga á Íslandi og fjallaði um brýnar úrbætur sem nauðsynlegt er að gera á aðbúnaði fanga á Íslandi s.s. aðgengi að sálfræðiþjónustu, launamál og mikilvægi þess að leggja áherslu á betrun fremur en refsingu. Þá kallaði Birgitta eftir svörum frá dómsmálaráðuneytinu við gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem fram kom í útttekt 2013 og sérstaklega hvað liði vinnu við úrbætur fyrir  fanga með geðraskanir.

Ræðu Birgittu:

Forseti

Við Píratar áttum í ágætum samskiptum við fyrrverandi ráðherra innanríkismála Ólöfu Norðdal um stöðu fanga og úrbætur þar að lútandi. Það er einlæg von mín að núverandi ráðherra málaflokksins muni halda áfram markvissum úrbótum þegar kemur að því að lagfæra mjög alvarlega annmarka á þessu kerfi okkar. 

Það er nauðsynlegt að við færum okkur úr hugarfari refsarans yfir í mannúðlegri úrræði fyrir fólk sem vill bæta sig og nýta frelissviptinguna til að byrja upp á nýtt. Því miður er það svo að fá úrræði eru í boði, bæði við afplánun en þó sér í lagi þegar afplánun líkur og allt of algengt er að fólk endi lóðbeint í sama munstur eftir að það hefur lokið aflánun. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður hjá Stundinni gerði mjög ítarlega rannsókn á stöðu fanga nýverið og þar eru mjög mörg sláandi dæmi dregin upp um almennt úrræða og stefnuleysi yfirvalda sem kalla á alvöru lausnir og fjármagn inn í málaflokkinn. Töluvert var rætt um þessi mál hér í þingsal þegar ný heildarlög um refsistefnu voru afgreidd í fyrra, en það sem var mjög lýsandi fyrir stöðuna á þessum málaflokki hve orðið betrun kom sjaldan fyrir í frumvarpinu og hve refsistefna er enn inngróin í hugmyndir um afplánun og úrræði varðandi ábyrgð á refsiverðri háttsemi. 

Það vita allir sem fylgjast með þessum málaflokki að það er brýn þörf á fleiri sálfræðingum sem sinna föngum. Núna eru aðeins tveir sálfræðingar sem eiga að sinna landinu öllu en ég hef fyrir því öruggar heimildir að fangar á Akureyri fá enga slíka þjónustu. Nú síðast í dag lést fangi vegna tilraunar til sjálfsvígs í fangelsinu á Akureyri og ég vona með sanni að það sé tilefni til að tryggja föngunum sem þar eru áfallahjálp af einhverju tagi. Auðvitað ætti að vera sálfræðingur sem hluti af daglegu starfsteymi við hverja starfsstöð sem kölluð er fangelsi, þá er mjög alvarlegt að fangar sem hafa verið að fá aðhlynningu hjá geðlæknum fái ekki að viðhalda sambærilegri meðferð í fangelsi 

Það hljóta allir að vera sammála því að sjúkt fólk eigi ekki að vera vistað í fangelsum og sú stefna að refsa fólki fyrir andleg veikindi er sem betur fer að breytast. En betur má ef duga skal og ekki nóg að tala endalaust um vandamálin ef ekkert er gert til að laga þau. 

Forseti,  í eftirfylgni frá því í fyrra með skýrslu ríkisendurskoðunar til Alþingis um skipulag og úrræði í fangelsismálum frá árinu 2010 kemur þar eftirfarandi fram, með leyfi forseta;

“Árið 2013 ítrekaði Ríkisendurskoðun eina ábendingu til velferðarráðuneytis, þ.e. að tryggja yrði föngum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og mæta þörfum þeirra með viðeigandi greiningu og meðferð, þ.m.t. á geðdeildum. Þá þyrfti að móta heildarstefnu í málefnum geðsjúkra, fatlaðra og aldraðra dómþola og tryggja að þeirri stefnu yrði hrint í framkvæmd.

Í svari ráðuneytisins árið 2016 kom fram að unnið væri að því að koma ábendingu Ríkisendurskoðunar í framkvæmd. Nýlega hefði fjölskipuðum starfshópi á vegum innanríkisráðuneytis verið falið að fjalla um málefni geðsjúkra fanga. Í honum yrðu fulltrúar innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélagsins, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þá kvaðst ráðuneytið áfram sem hingað til vinna að því að skerpa stefnu og bæta úrræði fyrir þá sem vistast í fangelsum landsins og þyrftu á geðheilbrigðisþjónustu að halda.“

Í ljósi þessa vil ég fá skýr svör frá dómsmálaráðherra hæstvirtum hver staðan er á vinnu starfshópsins og af hverju Aðstöðu félagi fanga er ekki boðin þátttaka í þessum starfshóp.

LAUNAMÁL FANGA

Þegar grannt er skoðað hvernig málum er háttað gagnvart föngum þá er ekki annað hægt en að furða sig á að það sé t.d. sjálfsagt mál að fangar fái margfallt lægri laun en aðrir launþegar. Og einmitt vegna þessa hefur gengið mjög erfiðlega að finna fjölhæf störf fyrir fanga. Það er nefnilega þannig að þegar fólk er svipt frelsi sínu og ekkert er fyrir stafni að vanlíðan hellist svo skarplega yfir að allt er reynt, eins og er í mannlegu eðli, til að reyna að flýja óbærileikan, það er þekkt að fangar reyni að komst í vímu með því að drekka raskpíra, ilmvötn, asinton og annan lífshættulegan óþvera til að deifa sjálfsofnæmið. Samt er það alþekkt að edrúgangar og almenn sjálfshjálp með stuðningi getur dregið mjög úr hrárri og óbærilegri vanlíðan. Því er það dapurlegt að heyra að engin slík úrræði eru í boði fyrir kvenkynsfanga og meira að segja er það alþekkt samkvæmt tölfræði að konur fái síður að afplána í opnum úrræðum og fráleitt skilningsleysi yfirvalda að það séu ekki til aðskilin úrræði á við Vernd en komið hefur ítrekað fram að kerfið virðist hafa verið hannað útfrá þörfum karlfanga.

Það hefur t.d. verið aflagt að starfskona Stígamóta komi reglulega í kvennafangelsið og ræði þar við fangana, því var víst hætt vegna þess að það þótti of kostnaðarsamt.

SAMSTARF RÍKIS OG SVEITARFÉLAGA UM STUÐNING VIÐ FANGA

Hyggst innanríkisráðuneytið koma á samstarfi við sveitarfélög og opinberar stofnanir eins og  t.d. vinnumálastofnun til að móta sérstakt ferli og prógram fyrir fanga sem ætti að hefjast nokkru áður en afplánun lýkur, þannig að fanginn sé undirbúinn og hafa að einhverju að hverfa.

Í Danmörku hafa t.d. verið gerðir samningar við sveitarfélög og í Noregi við frjáls félagasamtök sem tryggja að enginn fangi sé án húsnæðis og lífsviðurværis þegar hann kemur úr fangelsi. Þannig halda betrunarúrræðin áfram fyrir fanga sem vilja þiggja.

Þó svo að þetta er ekki beinlýnis á verksviði innanríkisráðuneytisins þó hefur ráðuneytið sýnt því áhuga að fylgjast með því hvernig einstaklingar sem ljúka afplánun fái almenna þjónustu í velferðarkerfinu og hverju sveitarfélagi fyrir sig þó svo að sú aðstoð sem þar er um að ræða er á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Ólöf Norðdal upplýsti þegar hún gengdi embætti innanríkisráðherra að samráð við velferðarráðuneytið um að tengja saman þessa málaflokka hafi verið í burðarliðunum á síðasta kjörtímabilinu.

Í þessu samhengi langar mig að spyrja ráðherra hvort hún telji að það sé tilefni til að tryggja er jafnræðis verði gætt gagnvart kvenkyns föngum þegar kemur að afplánun í opnum fangelsum og áfangaheimili sambærilegu og Vernd.

Málaflokkurinn er risastór og ljóst að ég mun þurfa að eiga fleiri sérstakar umræður við hæstvirtan ráðherra um refsivist fyrir t.d. börn og ungt fólk.

EN ljóst er að engar úrbætur munu eiga sér stað nema að hæstvirtur dómsmálaráðherra hyggst berjast fyrir meiri fjármunum í málaflokkinn og því langar mig að vita hvort að hún hyggist gera það? Það þurfa í það minnsta að vera átta sálfræðingar og mun fleiri félagsráðgjafar. Það kostar.

Endurkoma telst ekki endurkoma ef viðkomandi hefur ekki setið í fangelsi síðustu 5 árin ykkur til upplýsingar.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....