Birgitta Jónsdóttir oddviti í SV er með fjölskrúðuga fortíð

Stórsjónum fer vonandi að linna, ég sé til lands.
Seglin eru þanin, bera við himinn,
sem var úfinn og grár, það rofar til.

Umborð í skipinu okkar eru fjölskrúðugar manneskjur, breyskar, hæfileikaríkar, forvitnar, heilar og brotnar, eins og vera ber á öllum lífsins skútum.

Ég horfi yfir áhöfnina og ég er sátt, hugsa: ef þetta er það versta sem hægt var að draga upp úr djúpum hafsins, þá komust við í land. Sá sem hjó aðra með orðum gekk plankann sjálfviljugur. Hinir sem hafa sótt að okkur hafa ekki átt erindi með sínu erfiði við að reyna að draga upp gamla sokka úr sjó. Þeir rakna upp þegar lesið er í líf þeirra sem eitt sinn báru þá, flekkleysi er ekki fortíð, flekkleysi er hvernig maður vinnur úr reynslu, þroskast og lærir. Við erum staðráðin að læra af okkar reynslu, við þökkum öllum þeim sem hafa lagt mikið á sig við að reyna að rífa okkur á hol með fortíðinni okkar.
Screen shot 2012-11-25 at 12.16.31 PM
Ekki hafa áhyggjur ég hef ekkert að fela, hef flaggað öllum mínum úldnu fortíðarsokkum fyrir löngu og það er meira að segja hægt að lesa í þá í bókinni minni, blöðum og hlustað á lykkjurnar leysast upp í 3ja þátta viðtali hjá Jónasi Jónassyni rétt eftir að byltingin skall á fyrir svo óralöngu.

Píratar óttast ekki fortíð áhafnar sinnar, þeir vona að kjósendur séu líka með fjölskrúðuga fortíð. Enginn hefur nokkru sinni komist í gegnum lífið án þess að gera mistök, galdurinn er að ná að láta mistökin verða til þess að gera mann að betri manneskju. Fáir eru eins dómharðir og maður sjálfur hvort er eð.

Ég sé til lands, og þar eru verkefnin öllu flóknari því þar er kerfið með öllum sínu völundarhúsa lagatextaflækjum. Um borð í skútunni erum við að smíða lagatexta á nútímamáli án bragarháttar sem enginn skilur lengur nema örfáir sérfræðingar. Við perlum kóða í orð. Mynstrið er fallegt, enda ofið úr þörfum allra um borð með fljótandi lýðræði. Ég sé til lands og það rofar til.