Birgitta Jónsdóttir mælir fyrir frumvarpi um breytingar á starfsháttum Alþingis

Þann 21. mars mælti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata fyrir frumvarpi um breytingum á starfsháttum  Alþingis þannig að mál sem ekki hafa fengið endanlega afgreiðslu við þinglok þurfi ekki að leggja fram aftur, og þannig fara á byrjunarreit við upphaf næsta þings.

Ræða Birgittu:

Það er ákveðinn áfangasigur að fá að mæla fyrir þessu máli. Þegar það var lagt fram síðast og ég fékk að leggja það fram þótti mér það líka ákveðinn áfangasigur. Þau rök sem hafa komið fram gegn þeim breytingum sem lagðar eru til með breytingum á þingsköpum eru helst að þetta stangist á við hefðarhelgun stjórnarskrárinnar.

Núna getum við fengið umsagnir um málið og fengið endanlega úr því skorið hvort málið sé þingtækt. Ég myndi ekki halda að forseti leyfði mál sem ekki væri þingtækt vegna þess að það bryti gegn stjórnarskrá landsins, að það kæmi til umræðu.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á störfum þingsins sem varða líftíma þingmála, þinglega meðferð mála og fyrirkomulag vinnu fastanefnda. Í 48. gr. gildandi laga um þingsköp Alþingis er kveðið á um að þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við þinglok falli niður. Af þeirri reglu leiðir að flutningsmenn þingmála sem ekki fást afgreidd á yfirstandandi löggjafarþingi þurfa að endurflytja mál á næsta löggjafarþingi vilji þeir halda málinu lifandi í þeirri von að fá það tekið fyrir nefnd og í þingsal.

Þess ber að geta að þau mál sem hafa verið lögð fram og mælt er fyrir í dag, mörg hver, hafa með sanni verið endurflutt, aftur og aftur. Á því viljum við taka sem leggjum nafn okkar við þessar breytingar.

Í greinargerð segir:

“Fyrirkomulag þetta hefur nokkuð verið gagnrýnt enda getur það leitt til þess að þingmál „sofni“ í nefnd og falli síðan niður þar sem ekki hefur fengist umræða um það eða meðferð þess ekki verið lokið fyrir þinglok. Fyrirkomulagið gefur formönnum nefnda og meiri hluta nefnda vald til að stöðva mál og koma þar með í veg fyrir að þau fái eðlilega meðferð og komi til atkvæðagreiðslu í þingsal. Slíkt verður að teljast verulegur ágalli á fyrirkomulaginu þar sem ítarleg lýðræðisleg umræða allra þingmanna ætti að fara fram um mál á öllum stigum þess. Hvert þingmál ætti að hljóta fulla og tæmandi þinglega meðferð og vera rætt í þremur umræðum á Alþingi ef um lagafrumvarp er að ræða og tveimur umræðum ef um þingsályktunartillögu er að ræða.

Þingsköp Alþingis gera ráð fyrir að nefndir þingsins skili af sér nefndaráliti um þau þingmál sem til þeirra er vísað og eru álit nefndanna hugsuð sem innlegg í umræðu um viðkomandi mál í þingsal og að lokum er það þingheimur sjálfur sem skal taka lokaafstöðu til þingmála. Framkvæmdin hefur þó oft verið önnur og í raun réttri hefur formaður eða meiri hluti nefndar möguleika á að tefja afgreiðslu máls í nefndinni svo lengi fram eftir þinginu að málið falli niður. Þó ber að halda því til haga að samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þingskapa getur fjórðungur nefndarmanna óskað eftir að nefndin haldi fund og taki á dagskrá tiltekið þingmál. Enga reglu er þó að finna í þingsköpum sem skyldar nefndir til þess að taka afstöðu til þingmála né getur tiltekinn hluti nefndarmanna óskað eftir því að nefnd taki afstöðu til mála eða afgreiði þau.

Á Norðurlöndunum er fyrirkomulag um líftíma þingmála nokkuð misjafnt. Fyrirkomulag íslensku þingskapanna er fengið frá Danmörku þar sem sama reglan gildir, þ.e. þingmál falla niður við lok hvers löggjafarþings hafi þau ekki hlotið lokaafgreiðslu.

Í Noregi er reglan almennt sú að þingmál geta lifað út kjörtímabilið. Óafgreidd stjórnarfrumvörp er hægt að taka upp á næsta kjörtímabili að fenginni tillögu um það frá forsætisnefnd sem áður hefur fengið álit um slíkt frá ríkisstjórn. Hvað varðar þingmannamál og nefndarálit er heimilt að taka þau upp á næsta þingi innan sama kjörtímabils nema viðkomandi þingmaður eða þingnefnd dragi mál sitt til baka.

Í Svíþjóð gildir að þingmál verður að afgreiða á því kjörtímabili þegar það var lagt fram. Hafi fastanefndum ekki tekist að leggja fram álit sitt fyrir lok kjörtímabils telst málið vera fallið brott. Þó gildir sá fyrirvari að þingið sjálft getur samþykkt að tiltekið mál verði tekið á dagskrá á fyrsta löggjafarþingi næsta kjörtímabils.

Finnska þjóðþingið hefur sett sér þær reglur að verði þingmál ekki afgreitt á yfirstandandi þingi getur meðferð þess haldið áfram á næsta löggjafarþingi nema kosningar hafi verið þar á milli. Hvað varðar fyrirspurnir og yfirlýsingar ríkisstjórnar þá halda þær ekki gildi sínu milli þinga en meðferð á skýrslum ráðherra getur þó haldið áfram á næsta þingi ef þingið ályktar um það. Um meðferð þingmála sem varða alþjóðamál er reglan sú að meðferð þeirra heldur áfram á næsta þingi ef þörf krefur og jafnvel þótt kosningar hafi farið fram milli þinga.

Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á nokkurs konar blöndu af því fyrirkomulagi sem gildir á Norðurlöndunum. Í 1. gr. er lagt til að 48. gr. þingskapa Alþingis verði breytt á þann veg að þingmál falli ekki brott fyrr en við lok kjörtímabils þingsins. Þannig heimilar ákvæðið að þingmál sem hlutu ekki lokaafgreiðslu á því löggjafarþingi þegar þau voru lögð fram megi taka upp á næsta þingi og ljúka þá þinglegri meðferð þeirra. Þó er gerður sá fyrirvari að flutningsmaður, hvort sem er þingmaður, þingnefnd eða ráðherra, getur dregið mál til baka ef svo stendur á. Slíkt kæmi mögulega til greina þegar aðstæður tengdar þingmálum hafa breyst og markmið lagasetningar eru ekki lengur raunhæf.

Þá felst einnig í greininni bein krafa á þingnefndir um að afgreiða öll þau mál sem til þeirra er vísað fyrir lok hvers löggjafarþings. Með ákvæðinu er reynt að sporna við því að mál dagi uppi í nefndum. Þó er tiltekið í ákvæðinu að nægilegt sé að nefnd afgreiði nefndarálit um þingmál á yfirstandandi löggjafarþingi en áframhaldandi umræða um þingmál getur beðið næsta löggjafarþings. Þannig má sjá fyrir sér að þingnefndir afgreiði fjölda mála að vori eða í september og síðan fari fram umræða um málin strax á nýju löggjafarþingi. Fyrsti málsliður ákvæðisins opnar einmitt fyrir þessa leið með því að takmarka ekki líftíma þingmála við hvert löggjafarþing.

Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að takast þarf á við nokkur tæknileg atriði sem tengjast m.a. líftíma þingmála, svo sem vegna málsnúmera og annarra atriða í meðförum þingsins, en flutningsmenn telja engin veruleg vandkvæði því tengd. Það er mat flutningsmanna að breytingar þær sem frumvarpið boðar muni styrkja störf og lýðræðislega virkni þingsins.

Frumvarp áþekkt þessu var lagt fram á 138. löggjafarþingi en var vísað frá af forseta á grundvelli 2. mgr. 43. gr. þingskapalaga. Er það eindreginn vilji flutningsmanna að málið fái að ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og metið verði á vettvangi nefndarinnar hvort frumvarpið teljist fela í sér breytingu á stjórnarskrá og forseta beri þannig að vísa því frá. Að mati flutningsmanna felur frumvarpið ekki í sér breytingu á stjórnarskrá. Í stjórnarskrá er gerður greinarmunur á kjörtímabili og löggjafarþingi. Sá greinarmunur kemur þannig fram að þegar um er að ræða löggjafarþing er fjallað um reglulegt Alþingi, samanber t.d. 22. gr. þar sem fram kemur að forseti setji reglulegt Alþingi ár hvert og 35. gr. þar sem segir: „Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar …“ Í 44. gr. stjórnarskrárinnar er ekki vísað til reglulegs Alþingis heldur Alþingis. Til samanburðar má nefna að í 52. gr. segir: „Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess.“ Ef túlka ætti hugtakið „Alþingi“ í 44. gr. þannig að um löggjafarþing sé að ræða mundi það jafnframt þýða að kjósa ætti nýjan forseta þings á hverju löggjafarþingi, samanber 52. gr. Að framansögðu er ljóst að stjórnarskráin stendur ekki í vegi fyrir því að breyta megi þingsköpum með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt að hafa í huga því að nýverið voru fengnir í viðtöl tveir fyrrverandi forsetar Alþingis sem héldu því fram að hér væri um að ræða stjórnarskrárbrot. Mér finnst dapurlegt að það sé þeirra túlkun, einfaldlega af því að það er mjög vel útskýrt í greinargerð að svo er ekki. En nú fáum við tækifæri til að taka þetta mjög ítarlega fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem ég tel að sé full þörf á.

Mér hefur alltaf fundist furðulegt að við þingmenn getum ekki komið okkur saman um að ef það eru einhver mál sem eru vond, illa úr garði gerð, svo óvönduð að þau eiga ekki skilið þinglega meðferð, þá spyrjum við okkur: Af hverju í ósköpunum má leggja slík mál fram? Ef það er enginn gæðastuðull, ef þetta er eina ástæðan — ég hef heyrt það frá mörgum þingmönnum og sér í lagi heyrði ég það oft á síðasta kjörtímabili frá þingmönnum Vinstri grænna, eldri kynslóðinni, að það væri gott að leggja mál fram aftur og aftur því að þau yrðu alltaf betri og betri. Má ég þá vinsamlegast spyrja þingmenn hvort það væri ekki skynsamlegra að vanda betur til verka áður en málið er lagt fram.

Það er líka annað sem hefur verið sagt og ég heyrði síðast í morgun og það er um frumvörp frá ríkisstjórnum. Nú erum við að fá þannig holskeflu yfir okkur að ríkisstjórnarfrumvörp koma inn og það er mikil pressa á að klára þau á mjög stuttum tíma. Þau eru oft tekin inn á afbrigðum og það þýðir óvandaðri lagasetningu. Oft finnst einhverjum í ráðuneytunum það ágætt þegar svo ber undir að málunum er þrýst hér áfram og þau klárast ekki og eru send aftur til baka af því að frumvörpin eru ekki tilbúin. Mér finnst vera um að ræða slíkt ástand. Nýverið voru mjög bagaleg mistök gerð í stóru frumvarpi er lýtur að almannatryggingum. Það eru líka bagaleg mistök í lögum um útlendinga sem þarf að leiðrétta. Þegar er verið að taka risastóra lagabálka eins og heildarendurskoðun á umfangsmiklum stefnumálum og stjórnsýslulegum þáttum finnst mér að við þingmenn ættum að fara fram á að málin séu betur unnin. Mér skilst að verið sé að vinna í að líta aðeins til Noregs þegar kemur að því að vinna mál betur áður en þau koma hér inn, en ef svo ber undir að það er þessi mikli sprengur hjá ráðherrum þar sem þeir vilja sýna að þeir hafi verið að gera eitthvað og öllu er dembt hér inn, samanber þau 100 mál sem á að klára á þessu stutta þingi, þá væri hægt að létta á spennunni með því að leyfa málum að lifa á milli þinga. Það er ekki eins og við skiptum um ríkisstjórn á milli þinga. Það er ekki eins og við skiptum um þing á milli þinga. Við erum bara að fara í sumarfrí.

Ég er að vonast til þess að sú mikla nýliðun sem hefur átt sér stað á Alþingi verði til þess að við breytum vinnubrögðunum í alvöru, að við segjum ekki bara að við viljum hafa þetta betra. Manni líður eins og maður sé staddur í hringrás. Segjum að maður væri að skrifa ritgerð, lokaritgerð, væri á síðasta orðinu og búinn að fá álit frá fullt af mjög kláru og virðulegu fólki sem hefði sérþekkingu á málinu og þegar maður er að leggja lokahönd á ritgerðina, skrifa síðustu stafina þá hrynur tölvan. Og þetta gerist aftur og aftur, fjórum sinnum á kjörtímabili, aftur fjórum sinnum á næsta kjörtímabili, við getum talað um áratugi. Það er búið að leggja sum mál fram fimm sinnum, tíu sinnum. Oft geta þingmenn ekki klárað mál á kjörtímabili því að þeir þurfa alltaf að leggja þau fram aftur og aftur. Stjórnarfrumvörpin ganga alltaf fyrir. Ég vona að þeir þingmenn sem hafa talað fyrir því að þeir vilji efla Alþingi styðji mig í að ná þessu máli í gegn. Ég vonast til þess.

Segjum að fólki sitji við tölvuna og hún hrynji og allt sé farið. Efnið er allt í skýinu og það er hægt að ná í það og halda áfram en nei, það má ekki.

Mig langar líka að benda á að það er eitt að þetta sé bagalegt fyrir þingmenn en það er annað er að þetta sé hættulegt lýðræðinu. Við köllum eftir því að almenningur fylgist með störfum okkar, að almenningur gefi okkur álit sitt á málum sem eru tekin fyrir í nefndum. Við fáum gesti, ráðgjafa, sérfræðinga fyrir nefndir til að fjalla um þingmál af alls konar tagi. Síðan næst ekki að klára málið fyrir þinglok, fyrir sumarfrí. Þá þarf maður, ef maður er svo heppinn að ná því á dagskrá og endurflytja það og fá aftur alla til að vera með o.s.frv., að fá álit um nákvæmlega sama málið. Maður þarf aftur að fá sérfræðingana til að koma, taka sér jafnvel frí í vinnu.

Hugsið ykkur allan tímann sem fer í þetta. Það eru ákveðnar stofnanir og félög sem málinu eru alltaf send til. Þau þurfa aftur og aftur að skrifa álit. Hvað ætli fari mikill peningur í þetta hjá ASÍ? Hvað ætli fari mikill peningur í þetta hjá Mannréttindaskrifstofunni? Hjá umboðsmanni barna? Er ekki tíma þessara aðila betur varið en í að skrifa aftur og aftur sama álitið? Þeir verða að gera það aftur því það gæti verið smávægileg breyting á milli, því að við getum ekki einu sinni haft „track changes“.

Nei, það er ekki nóg að segja bara að við viljum breytt vinnubrögð, við þurfum að sýna það í verki.

Mig langar í lok þessarar ræðu minnar enn og aftur að þakka forseta fyrir að leyfa mér að mæla fyrir málinu því að ég fékk það ekki síðast, út af því að forseti túlkaði málið svo að með því leyfði hann mér að brjóta gegn stjórnarskránni, honum þótti málið ekki þingtækt. En það er það greinilega núna.

Það var ágætissamantekt í DV nýverið um afleiðingar núverandi þingskapa. Með leyfi forseta:

„Af 49 lagafrumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum hafa 30 verið flutt áður. Á sama tíma hafa verið lagðar fram 40 þingsályktunartillögur. Þar af hafa 20 verið fluttar áður á fyrri þingum. Þingkona Pírata segir þetta vinnulag óþolandi tímasóun og ófaglegt.

Af þeim 30 frumvörpum sem lögð hafa verið fram að nýju eru fjögur endurflutt af ráðherrum. Hin 26 eru svonefnd þingmannamál og af þeim eru 19 lögð fram af þingmönnum stjórnarandstöðunnar en sjö af stjórnarþingmönnum. Þarna má sjá nokkur býsna kunnugleg frumvörp, til að mynda frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á áfengissölu sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður að. Það mál hefur verið lagt fram áður í tvígang en ekki gengið til atkvæða. Þá hefur Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, lagt fram frumvarp um ætlað samþykki við líffæragjöf. Frumvarp sama efnis hefur verið lagt fram í tvígang og sömuleiðis hafa tvívegis verið lagðar fram þingsályktunartillögur þessa efnis. Ekkert þessara þingmála var afgreitt. Svandís Svavarsdóttir flytur nú í fjórða sinn frumvarp um textun myndefnis í fjölmiðlaveitum en það mál hefur aldrei orðið útrætt á fyrri þingum.

Ein þingsályktunartillaga er nú endurflutt af ráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra leggur á nýjan leik fram rammaáætlun en málið vakti gríðarharðar deilur á síðasta þingi og varð ekki útrætt. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram á nýjan leik fimmtán þingsályktunartillögur og stjórnarþingmenn endurflytja fjórar slíkar. Framsóknarþingmaðurinn Willum Þór Þórsson leggur þannig fram í þriðja sinn tillögu um mótun klasastefnu í atvinnulífinu. Vilhjálmur Árnason er þá fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll og er það í fimmta sinn sem sú tillaga er lögð fram.

Umrædd þingmál sem eru nú endurflutt hafa líkt og sjá má hér að framan sum hver ítrekað verið lögð fram áður. Mörg þeirra hafa því fengið ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins og verið til umræðu í þingsal æ ofan í æ, án þess að nokkrar breytingar sem heitið geta hafi verið gerðar á þeim. Sem dæmi má nefna að Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur nú í fjórða sinn lagt fram þingsályktunartillögu um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Með tillögunni fylgir greinargerð og sérstaklega er tekið fram að hún hafi fylgt tillögunni óbreytt frá því hún var fyrst lögð fram.

Þrátt fyrir það sem að framan er rakið hafa umrædd mál ekki komið til atkvæðagreiðslu heldur sofnað í nefndum. Þó sum málanna séu vissulega átakamál er rétt eins algengt að um sé að ræða mál sem ekki ríkja um verulegar pólitískar deilur og flutningsmenn málanna koma úr fjölda flokka.

Ítrekað hefur verið til umræðu að breyta lögum þannig að þingmál lifi milli löggjafarþinga en eins og staðan er í dag þá falla þau dauð hafi ekki tekist að klára þau fyrir þinglok. Slík breyting var meðal annars til umræðu á síðasta kjörtímabili í vinnu er laut að breytingum á stjórnarskránni. Þær breytingar náðu hins vegar ekki fram að ganga. Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, hefur nú lagt fram frumvarp þess efnis að þingmál skuli lifa milli löggjafarþinga. Þess má til gamans geta að það frumvarp er einnig endurflutt.

Í DV var á dögunum fjallað um frumvarp Birgittu og vísað til álits tveggja fyrrverandi forseta Alþingis, sem báðir tóku vel í breytinguna sem frumvarpið fæli í sér. Hins vegar töldu þeir að vafi léki á að hægt væri að breyta þessum vinnubrögðum nema með stjórnarskrárbreytingu. Þessu segist Birgitta vera ósammála og telur ekkert því til fyrirstöðu að klára málið. „Það á bara að láta reyna á málið.“

Birgitta segir að þau vinnubrögð sem nú tíðkist séu óþolandi fyrir þingið, en ekki síður fyrir þá aðila sem kallað sé eftir umsögnum um þingmál frá. Að endurtekið þurfi að skila álitum um sömu mál sé ótækt. Spurð hvort hún telji líklegt að þetta frumvarp fái nú afgreiðslu segist hún svartsýn á það, í meira lagi. „Mér finnst ólíklegt að þessi ríkisstjórn bættra vinnubragða sé eitthvað öðruvísi en aðrar ríkisstjórnir sem á undan hafa gengið. Þetta mun líklega ekkert breytast, þetta verður sjálfsagt svona löngu eftir að ég er dauð.““

Ég ætla að vona, forseti, að við náum þessum breytingum núna, því að það er Alþingi sem ræður. Það erum við öll sem ráðum. Við getum alveg sneitt af vankanta ef það eru áhyggjur af því að hér fari svo mörg þingmál í gegn að þingið stíflist. Við eigum að klára málið. Ímyndið ykkur hvað við myndum spara okkur mikil leiðindi ef við værum búin að fella þetta brennivínsfrumvarp, sem dæmi. Þá gætum við verið að tala um aðra hluti. Þá væri það komið úr deiglunni. Ímyndið ykkur ef við gætum sýnt fólki virðingu sem kemur til okkar, veitir okkur ráðgjöf, umsagnir, því að fólk missir trúna á að það hafi eitthvað upp á sig að segja hlutina. Við fáum þar af leiðandi ekki eins mikið af frábærum umsögnum. Ímyndið ykkur ef við gætum komið okkur saman um að hver flokkur fengi tiltekið mörg mál kláruð á hverju þingi og það væru aðrar leiðir til að vekja athygli á málum en að leggja fram frumvörp sem aldrei eru kláruð. Ímyndið ykkur ef við myndum í alvörunni fara að stunda öðruvísi vinnubrögð. Þetta er ein leið til þess. Þetta er leið til að efla þingið.

Ég hef verið talsmaður þess að vinna gegn matarsóun og tímasóun. Nú legg ég til að við þingmenn vinnum gegn sóun á tíma ræðuritara Alþingis þegar kemur að því að vera endalaust að fjalla aftur og aftur um mál sem við erum öll sammála um. Getum við ekki bara afgreitt þetta?

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....