Birgitta á Le Monde Festival

Birgitta Jónsdóttir á Le Monde Festival

Birgitta Jónsdóttir var í Frakklandi um síðustu helgi þar sem hún var einn af aðalviðmælendum á Le Monde Festival en aðrir viðmælendur voru meðal annars Vandana Shiva og Garry Kasparov. Á viðburðinum ræddi Birgitta við blaðamann Le Monde, Martin Untersinger, um framtíðarsýn Pírata, lýðræði á stafrænum tímum, friðhelgi einkalífs, vernd uppljóstrara og afleiðingar Panamaskjalanna.  Áhugi fjölmiðla í Frakklandi á komandi kosningum á Íslandi er mikill, en Birgitta fór í fjögur viðtöl í kjölfar viðburðarins.

Birgitta var spurð út í möguleika bandaríska uppljóstrarans Edwards Snowdens á því að fá hæli á Íslandi en hún sagði að hæli af pólitískum ástæðum væri ekki nægjanlegt til að verjast mögulegu framsali og því hefði hún hvatt Snowden til að sækja um ríkisborgararétt sem veitir mun betri vernd.

Einnig hitti Birgitta lögfræðing Chelsea Manning, Nancy Hollander, en Manning á yfir höfði sér refsiaðgerðir fangelsisyfirvalda í kjölfar sjálfsmorðstilraunar hennar. Málið verður tekið fyrir hjá agaráði fangelsisyfirvalda þann 22. september, en Manning mun ekki fá að hafa lögmann viðstaddan.