Bergþórsfrumvörpin lögð fram á Alþingi

Píratar hafa lagt fram tvö frumvörp um breytingar á lögum um almannatryggingar sem miða að  auknum réttindum lífeyrisþega. Annað þeirra felur í sér að festa frítekjumark tekjutryggingar öryrkja vegna atvinnutekna varanlega í lögunum í stað bráðabirgðaákvæðis sem þarf að endurnýja á hverju ár. Hitt snýst um afnám svokallaðrar krónu á móti krónu skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna tekna sem lífeyrisþegar afla sér með atvinnuþátttöku.

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, er fyrsti flutningsmaður frumvarpanna en þau eru lögð fram af öllum þingflokki Pírata.

Innan þingflokksins hefur verið talað um að ef frumvörpin verði að lögum skuli kalla þau Bergþórslögin, í höfuðið á Bergþóri Heimi Þórðarsyni sem hefur um árabil tekið þátt í grasrótarstarfi Pírata og átti frumkvæði að því að hefja vinnu við frumvörpin. Bergþór hefur verið öryrki í 15 ár og segir breytingar á almannatryggingakerfinu, sér í lagi til réttindabóta fyrir lífeyrisþega, sé það sem drífur hann áfram í stjórnumálumm. „Þetta er ástæðan fyrir því að ég er í pólitík,” segir Bergþór.

„Krónu á móti krónu skerðingin er ein sú allra mesta vanvirða við öryrkja og áður aldraða sem stjórnvöldum hefur nokkurn tímann dottið í hug að sýna gagnvart lífeyrisþegum. Skerðingin segir mér að ég sé minna virði heldur en Jón í næsta húsi sem er frískur og fer í vinnuna á hverjum degi og fær greidd laun frá fyrstu mínútu í vinnu.  Miðað við lágmarkstímakaup sem er um 1600 kr. á tímann þá vinn ég fyrir ekki neitt fyrstu 11 tímana á mánuði. Í verstu tilfellunum fær öryrki ekki fyrstu 59 þúsund krónurnar sem hann eða hún vinnur sér inn á mánuði,” segir hann. Margir lífeyrisþegar hafa kosið að taka ekki þátt á atvinnumarkaði vegna umfangs þeirra skerðinga sem þeir mundu þá verða fyrir.

Hvati Bergþórs á bak við hitt frumvarpið voru koma jólanna. „Allir öryrkjar sem þekkja inn á kerfið vita að frítekjumarkið sem við erum með er  bráðabirgðaákvæði. Við vitum venjulega ekki fyrr en rétt fyrir jól hvort það hafi verið munað eftir að framlengja bráðabirgðaákvæðið fyrir næsta ár,” segir hann.

Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram:  „Þar sem að þessi aðgerð felur ekki í sér breytingu frá núverandi fyrirkomulagi, einungis varanlega lögfestingu þess, mun samþykkt frumvarpsins ekki fela í sér aukinn kostnað ríkissjóðs og því er ekki þörf á að fjalla sérstaklega um hann.”

Frumvörpin og greinargerðir með þeim má finna hér

Frumvarp til laga  um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar)

og hér

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum (afnám sérstakrar uppbótar til framfærslu)