Auglýst eftir framboðum í nefndir og ráð

Kæru Píratar!

Leitin að framtakssömum og framkvæmdaglöðum Pírötum til þess að taka sæti í ráðum og nefndum flokksins er hafin! Við auglýsum eftir fólki sem vill taka sæti í framkvæmdaráði, úrskurðarnefnd, kjörstjórn sem og skoðunarmönnum reikninga. Framboðsfrestur er til klukkan 23:59 að kvöldi miðvikudagsins 16. ágúst 2017. Sjá nánari upplýsingar hér að neðan.

 

FRAMKVÆMDARÁÐ

Ertu nett skipulagsfrík? Góð/ur í reiknikúnstum, ritarastörfum, viðburðastjórnun eða tæknimálum? Ertu klár í fundarsköpum eða fundarstjórnun? Finnst þér gaman að félagsstarfi í fjölbreyttum félagsskap? Býrð þú yfir alls konar hæfileikum sem nýst geta flokknum á þessum spennandi tímamótum þegar flokkurinn verður í stórsókn í komandi sveitarstjórnarkosningum á næsta ári? Þá er ráð að bjóða sig fram í framkvæmdaráð og taka þátt í að efla innra starf flokksins.

Framkvæmdaráð Pírata fer með almenna stjórn og rekstur félagsins og meðal helstu verkefna ráðsins má nefna:

  • Utanumhald yfir fjármuni flokksins,
  • Húsnæðismál og rekstur félagsheimilis Pírata,
  • Starfsmannamál,
  • Viðburðarstjórnun og skipulagning aðalfundar,
  • Yfirumsjón félagatals, kosningakerfis, tölvupósta og vefsíðu Pírata,
  • Samskipti og móttaka fyrirspurna frá aðildarfélögum og félagsmönnum sem og  innlendum og erlendum aðilum er hafa samband við Pírata,
  • Samræming kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélög Pírata.

Framkvæmdaráð sinnir auk þess ýmis öðrum verkefnum er snúa að innra starfi flokksins. Lög félagsins gera ráð fyrir að framkvæmdaráð fundi að minnsta kosti einu sinni í mánuði en undanfarin tvö ár hefur framkvæmdaráð fundað vikulega. Vinnuálag ráðsins stjórnast mikið af ytri aðstæðum en gera má ráð fyrir að hver meðlimur framkvæmdaráðs vinni fyrir ráðið að því sem nemur um 2- 15+ klukkutímum á viku. Ráðið hefur ekki stefnumótunarvald þó einstaklingum innan þess sé áfram frjálst að taka þátt í stefnumótun flokksins sem almennir félagsmenn.

Meðlimir framkvæmdaráðs verða kjörnir á aðalfundi Pírata sem haldinn verður 26.-27. ágúst næstkomandi. Lagabreytingatillaga um framkvæmdaráð var samþykkt í sumar. Samkvæmt nýjum lögum sitja tíu í framkvæmdaráði. Ráðið samanstendur af átta aðalmönnum sem valdir eru með forgangskosningu en auk þess eru tveir meðlimir framkvæmdaráðs valdir með slembivali og koma gestir aðalfundar til greina í því vali.

Hafir þú áhuga á að sinna þessu mikilvæga starfi fyrir flokkinn þá er framboðsfrestur til setu í framkvæmdaráði Pírata 2017-2018 til klukkan 23:59 að kvöldi miðvikudagsins 16. ágúst 2017. Til þess að bjóða sig fram þarf að senda tilkynningu um framboð ásamt hagsmunaskráningu á framkvæmdastjóra Pírata á póstfangið framkvaemdastjori@piratar.is áður en framboðsfrestur rennur út.

Í hagsmunaskráningu ber frambjóðendum að gera grein fyrir þeim trúnaðarstörfum sem frambjóðandi gegnir utan og innan flokksins ásamt öðrum högum sínum sem valdið gætu hagsmunaárekstri í starfinu. Hagsmunaskráningar verða birtar á vefsíðu félagsins sbr. grein 4.15. í lögum Pírata.

Að loknum framboðsfresti fá frambjóðendur upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig staðið verður að kynningu á frambjóðendum. Áhugasamir sem vilja forvitnast frekar um hvað felst í setu í framkvæmdaráði geta haft samband við formann framkvæmdaráðs, Sunnu Rós Víðisdóttur á póstfangið sunnaros@piratar.is

ÚRSKURÐARNEFND

Hlutverk Úrskurðanefndar í lögum Pírata er að úrskurða um ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum Pírata (gr. 8.1) í samræmi við lög félagsins og landslög (gr. 8.4). Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi.
Nefndin er skipuð þremur félagsmönnum og skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert auk tveggja varamanna. Fulltrúar í úrskurðarnefnd skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á meðan þeir sitja í úrskurðarnefnd.

Félagsmenn sem hyggjast bjóða sig fram til setu í Úrskurðarnefnd er bent á að kynna sér málsmeðferðarreglur nefndarinnar frá árinu 2016 til að fá glöggvari mynd af störfum nefndarinnar en vert er að taka fram að þær reglur teljast ekki bindandi fyrir nýskipaða Úrskurðarnefnd. Reglurnar má finna hér: https://piratar.is/wp-content/uploads/2016/06/Ma%CC%81lsme%C3%B0fer%C3%B0arreglur-u%CC%81rskur%C3%B0anefndar-.pdf

SKOÐUNARMENN REIKNINGA

Lög Pírata (gr. 4.11) gera ráð fyrir að tveir skoðunarmenn reikninga skuli kjörnir með STV forgangskosningu á aðalfundi.

KJÖRSTJÓRN

Í lögum Pírata (gr. 4.18) segir að annað hvert ár skuli á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn er tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur bestu kosningu skuli vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Aðilum í kjörstjórn er óheimilt að gegna öðrum trúnaðarstöðum á vegum félagsins eða aðildarfélaga á meðan setu þeirra stendur. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosninga í framkvæmdaráð ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Ennfremur er Kjörstjórn falið að taka á móti framboðum í öll embætti sem kosið er til á aðalfundi og tryggja það að frambjóðendur fái sanngjarna kynningu (sbr. gr. 4.12). Ákvarðanir kjörstjórnar skulu teknar með óháðum og óhlutdrægum hætti.

Framboðsfrestur til setu í Úrskurðarnefnd, Kjörstjórn sem og í stöður Skoðunarmanna Reikninga fyrir Pírata starfsárið 2017-2018 er til klukkan 23:59 að kvöldi miðvikudagsins 16. ágúst 2017.

Tilkynningar um framboð skal senda á póstfangið framkvaemdastjori@piratar.is  áður en framboðsfrestur rennur út. Að loknum framboðsfresti fá frambjóðendur nánari upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig staðið verður að kynningu frambjóðenda.

Píratar af öllum gerðum og stærðum eru hvattir til þess að bjóða sig fram í þessi fjölbreyttu og gefandi sjálfboðastörf.

Við hlökkum til að sjá ykkur á aðalfundinum!