Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, hefur ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Pírata. Eftir samræður milli þingflokksins og Andrésar var ákvörðun tekin á þingflokksfundi í morgun um að samþykkja inngöngu Andrésar í þingflokkinn.
Andrés Ingi og þingflokkurinn hafa átt í góðu samstarfi, flutt saman fjölda þingmála og unnið náið saman í nefndum þingsins. Með tímanum hefur komið í ljós að um er að ræða náttúrulega bandamenn með margar sameiginlegar áherslur. Andrés hefur verið öflugur þingmaður og er á við nokkra þingmenn, þrátt fyrir að hafa undanfarið starfað sem eins manns þingflokkur. Hann er hugsjónamaður með sterka réttlætiskennd sem þorir að færa rök fyrir stórum hugmyndum. Við lítum því á inngöngu Andrésar í þingflokkinn, sem og hreyfinguna í heild, sem góðan liðsstyrk fyrir verkefnin framundan. Andrés hefur lýst því yfir við þingflokkinn að í starfi sínu muni hann starfa í samræmi við grunnstefnu Pírata.
Sjálfur hefur Andrés sagt að með því að ganga til liðs við Pírata gefist honum tækifæri til að vera þátttakandi í hreyfingu sem getur séð til þess að eftir næstu kosningar verði mynduð ríkisstjórn um alvöru breytingar í þágu mannréttinda, fólksins í landinu og framtíðarinnar.
Pírötum mun gefast færi á að kynnast Andrési nánar á föstudaginn kemur en það verður auglýst síðar í kvöld. Við minnum einnig á Pírataþingið um helgina, sjáumst hress og leggjum saman grunninn að sigri í haust!