Johann Hari al­þjóð­legur met­sölu­höfundur hvetur Pírata til dáða

Johann Hari er stuðningsmaður Pírata í baráttunni fyrir skaðaminnkun

Johann Hari var leynigestur á aðalfundi Pírata sem fram fór um helgina. Þar ræddi hann við Halldóru Mogensen, þingflokksformann Pírata, um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna sem er eitt af hugðarefnum Hari. Hann er þannig mikill stuðningsmaður Pírata í baráttunni fyrir skaðaminnkun. „Þið eigið að gera afglæpavæðingu vímuefna að kosningamáli. Ég er með ykkur í liði,“ sagði Hari meðal annars.

Hari útskrifaðist með tvöfalda gráðu frá Cambridge í félags- og stjórnmálafræði og hefur allar götur síðan sérhæft sig í umfjöllun á þeim sviðum. Hann er gríðarvinsæll rithöfundur sem hefur komið tveimur bókum á metsölulista New York Times  auk þess að vera áhrifamikill fyrirlesari, en næstum 50 milljón manns hafa horft á Ted-talk fyrirlestrana hans.

Skrif Hari hafa haft gríðarleg áhrif, ekki bara í heimalandi sínu Bretlandi heldur um allan heim. Hann er kannski hvað þekktastur fyrir bók sína frá árinu 2015, Chasing the Scream, sem gjörbreytti umræðunni um skaðaminnkun og stríðið gegn fíkniefnum. Bókin kom út á íslensku árið 2019 undir heitinu „Að hundelta ópið“ en þá sótti Hari Ísland heim og hitti t.a.m. þingmenn Pírata. Pírötum þótti því einstaklega viðeigandi að fá á aðalfund sinn eftir svikin loforð ríkisstjórnarinnar í vor um afglæpavæðinguna.

Á aðalfundi Pírata um helgina sagði Hari frá því hvernig stríðið gegn fíkniefnum hefur fullkomlega mistekist. Það sé því nauðsynlegt að stjórnvöld heimsins – Íslands þar með talið – hverfi af núverandi braut í vímuefnamálum og taki þess í stað upp skaðaminnkandi nálgun í málaflokknum. Píratar hafa frá upphafi lagt áherslu á skaðaminnkun enda líta þeir á vímuefnanotendur sem manneskjur, ekki glæpamenn.

Hari jós Pírata lofi í erindi sínu og hvatti þá til dáða. Það væri spurning upp á líf og dauða að hafa skaðaminnkun að leiðarljósi. Erindi Hari verður aðgengilegt í heild sinni á piratar.tv síðar í dag.

Nýjustu myndböndin