
Þingflokkur Pírata tilnefnir einn aðila og annan til vara til setu í þróunarsamvinnunefnd, samkvæmt lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Nefndin skal sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Einnig skal nefndin m.a. fjalla um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi, framlög til þróunarsamvinnu, val á samstarfslöndum, þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu, sem og helstu skýrslur um árangur í þróunarsamvinnu.
Þingflokkur Pírata óskar einnig eftir fulltrúa í samráðshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Hópurinn er skipaður í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu. Samráðshópurinn er skipaður fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Hópurinn mun vera verkefnisstjórn til ráðgjafar, en sú verkefnisstjórn mun móta tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðum.
Fulltrúar Pírata skulu hafa menntun, þekkingu og/eða reynslu á viðkomandi sviði og vera reiðubúnir að starfa samkvæmt þeim leiðbeiningum sem þingflokkur Pírata hefur mótað um starf fulltrúa þingflokksins. Ekki er greitt fyrir störf í þessum nefndum, en ferðakostnaður er endurgreiddur.
Umsóknarfrestur er til hádegis föstudaginn 8. febrúar 2019. Frekari upplýsingar og móttöku umsókna veitir Eiríkur Rafn Rafnsson, starfsmaður þingflokks Pírata, á netfangið eirikurrafn@althingi.is.