Píratar styðja öflugri sóttvarnir á landamærunum

Þingflokkur Pírata mun leggja sitt af mörkum á Alþingi í dag til að hægt verði að lifa sem eðlilegustu lífi innanlands sem fyrst. Flokkurinn mun styðja skyldudvöl farþega á sóttkvíarhóteli, að því gefnu að framkvæmdin standist önnur lög og stjórnarskrá. Píratar gagnrýndu fyrri áform stjórnvalda um sóttkvíarhótel vegna þess að fyrirséð var að þau uppfylltu ekki þessi skilyrði, að útfærslan á sóttkvíarhótelum skorti lagastoð – sem kom síðan á daginn. Flokkurinn mun því á Alþingi í dag reyna að tryggja að fyrirhuguð sóttkvíarhótel nái markmiði sínu um eðlilegt líf innanlands.

Þingheimur vinnur nú úr tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á sóttvörnum á landamærum Íslands. Píratar telja farsælustu leiðina til að standa vörð um réttindi fólks í heimsfaraldri að styrkja sóttvarnir á landamærunum. Valið stendur á milli þess að að setja harðar takmarkanir innanlands eða harðar takmarkanir á landamærunum og það er mat Pírata að þær síðarnefndu tryggi heilt yfir betur réttindi borgaranna.

Þess vegna munu Píratar styðja lagabreytingar sem miða að því að renna stoðum undir dvöl á svokölluðum sóttkvíarhótelum, að því gefnu að útfærslan standist lög og stjórnarskrá. Fólk þarf þannig að vera upplýst með góðum fyrirvara hvað bíði þess við komuna til landsins, gestir sóttkvíarhótela þurfa að hafa rétt til útivistar, tryggja verður viðunandi úrræði fyrir barnafjölskyldur, fólk með fatlanir og önnur sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu svo eithvað sé nefnt. 

Píratar telja slíka útfærslu á sóttkvíarhótelum farsælustu leiðina til að standa vörð um réttindi borgara þessa lands – farsælustu leiðina til að tryggja eðlilegt líf innanlands. 

Nauðsynlegt að berja í ýmsa bresti
Það er að sama skapi mat Pírata að ýmsu sé ósvarað um það frumvarp sem þingheimur ræðir í dag. Útfærslan á framkvæmd sóttkvíarhótelanna er t.a.m. óljós, nákvæmar undanþáguheimildir og hvað teljist ónauðsynlegar ferðir er óskýrt og hið séríslenska áhættumat á komufarþegum skýtur skökku við. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er lagt til að miða ekki við skilgreiningu evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar á því hvað teljist há-áhættusvæði, eins og hefur verið raunin hingað til, heldur að miðað verði við miklu hærri viðmið í nýgengi smita, sem eykur áhættuna á smit berist inn í landið. Pírötum þætti eðlilegra að stuðst yrði við skilgreiningu sóttvarnastofnunar Evrópu, eins og sóttvarnalæknir hefur áður gert.

Ætli stjórnvöld sér að takmarka réttindi borgaranna er lágmarkskrafa að þau útlisti nákvæmlega hvaða reglur séu í gildi, um hvaða fólk og hvers vegna þessar reglur séu taldar nauðsynlegar. Skýrar reglur auðvelda öllum að fara eftir þeim. 

Píratar telja jafnframt að málið hefði getað fengið betri þinglega meðferð. Rúmur hálfur mánuður er liðinn síðan ríkisstjórnin var gerð afturreka með síðustu tilraunir sínar í þessa átt. Þann tíma hefði mátt nýta til að tryggja áhrifaríkar og löglegar sóttvarnir á landamærunum, í stað þess að takmarka vinnuna við einn sólarhring. Píratar munu leggja sitt af mörkum í dag til að málið fái, þrátt fyrir takmarkaðan tíma, faglega meðferð í velferðarnefnd Alþingis enda til mikils að vinna.

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, flutti ræðu um afstöðu Pírata í þessu máli fyrr í dag. Þar fer hún í ítarlegra máli yfir athugasemdir þingflokksins við frumvarp heilbrigðisráðherra og tillögur hans að úrbótum. Ræðu Halldóru má heyra með því að smella hér.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....