Alexandra opnaði Hinsegin daga

Forseti borgarstjórnar ýtti Hinsegin dögum 2021 úr vör.

Alexandra Briem, Pírati og fyrsta trans konan sem gegnt hefur embætti forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, flutti hátíðarræðu Hinsegin daga í kvöld. Með ræðunni má segja að formlegri dagskrá hátíðarinnar hafi verið ýtt úr vör, en sökum faraldursins er hún með öðruvísi sniði í ár. Þannig verður engin Gleðiganga eins og borgarbúar hafa fengið að venjast undanfarin ár, auk þess sem ræða Alexöndru og önnur dagskrá kvöldsins var send út í netstreymi.

Alexandra sagði í ræðu sinni að þetta væri henni mikill heiður, rétt eins og það væri henni heiður að tilheyra hinu öfluga hinsegin samfélagi á Íslandi. Þá lagði hún mikla áherslu á mikilvægi Gleðigöngunnar sem hluta af sýnileika hinsegin fólks, sem svo miklu máli skiptir.

„Með því að stíga fram sýndi fólk ekki bara að þau væru mörg, og þau væru fjölbreytt, heldur líka að þau væru alls staðar, þau kenndu fólki að það væri hinsegin fólk í flestum fjölskyldum, flestum vinnustöðum, flestum skólum. Að við værum ekki bara eitthvað annað, heldur samstarfsfólk þeirra, vinir og fjölskylda,“ sagði Alexandra meðal annars.

Þá minnti hún á það að baráttu hinsegin fólks væri ekki lokið, þó Íslendingar væru langt komnir. Samstaðan með öðru hinsegin fólki um allan heim skipti gríðarlegu máli, ekki síst í ljósi þess bakslags sem hefur orðið víða um heim í réttindabaráttu hinsegin fólks.

„Við þurfum að passa að halda áfram að vera sýnileg okkar vegna, passa að baráttan gleymist ekki, passa að það komi ekki bakslag. Viðhorf samfélagsins á Íslandi til hinsegin fólks breyttist hratt, og mér finnst ekki ósanngjarnt að hafa í huga að eitthvað sem getur breyst hratt getur líka breyst hratt til baka.“

Ræðu Alexöndru má lesa í heild hér að neðan.

Góðan dag og verið velkomin á setningarathöfn Hinsegindaga 2021

Ég heiti Alexandra Briem, ég er trans kona, borgarfulltrúi Pírata og ég er forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Í ár veitist mér sá heiður að flytja hátíðarræðu hinsegindaga

Nú er Covid að setja okkur takmarkanir annað árið í röð, og því miður kemur það í veg fyrir að við getum komið saman og fagnað, sýnt okkur og séð önnur, eins og okkur langar að gera. En það kemur ekki í veg fyrir að við getum haldið hinsegindaga og notað þennan tíma til að minna á málstaðinn, minna á baráttuna. Fagna því sem hefur áunnist, og minna á það sem enn er eftir.

En það vantar samt sjálfa gönguna, sjálfa hátíðina, það vantar að við getum gengið fylktu liði og sýnt okkur og séð önnur. En af hverju er það svona mikilvægt?

Það er vegna þess að í baráttunni var ekkert vopn jafn máttugt og sýnileikinn. Áður en hinseginfólk steig út úr skápnum og fór að vekja á sér athygli var auðvelt að líta á þau sem eitthvað óþekkt „annað,“ einhverja illskillgreinda steríótýpu sem hægt var að varpa fordómum og ótta á, án þess að þurfa að bera það saman við raunveruleikann, án þess að þurfa að standa skil á því gagnvart fólkinu sem það bitnaði á. Það var hægt að sjá „hinsegin fólk“ sem eitthvað skrítið og ógnvekjandi, en svo kannski réttlæta með sér að einhver einn og einn sem maður kynni að þekkja væri undantekningin.

Með því að stíga fram sýndi fólk ekki bara að þau væru mörg, og þau væru fjölbreytt, heldur líka að þau væru alls staðar, þau kenndu fólki að það væri hinsegin fólk í flestum fjölskyldum, flestum vinnustöðum, flestum skólum. Að við værum ekki bara eitthvað annað, heldur samstarfsfólk þeirra, vinir og fjölskylda.

Gleðigangan, Pride, setti mannlegt andlit á baráttuna og eyddi þessu óskilgreinda ógnvekjandi „annað.“ Og það breytti öllu.

En þó svo hinsegindagar, og gleðigangan, séu góð nöfn, þá glatast alveg eitthvað í þýðingu úr „Pride,“ því það er svo hinn stóri hlutinn af jöfnunni. Inn á við, til okkar sjálfra, þá snýst þetta um að einhverjir innmúraðir sjálfsfordómar, sem samfélagið hefur í mörgum tilfellum innrætt okkur, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað, eru rangir. Við eigum ekki að þurfa að fela okkur, við eigum ekki að skammast okkar fyrir það hver við erum. Við megum vera stolt. Við eigum að vera stolt.

Á Íslandi hefur vissulega margt áunnist miðað við önnur lönd, og við megum vera stolt af því. Samkynhneigð kona hefur verið forsætisráðherra án þess að það þætti tiltökumál, borgarstjóri hefur tekið þátt í gleðigöngu í dragi og trans kona getur orðið forseti borgarstjórnar og engum þykir það fáránlegt, í raun þótti öllum þetta bara nokkuð eðlilegt og sjálfsagt. En það er munur á því að vita að þessir hlutir GETI gerst og að sjá það raunverulega gerast, áður en eitthvað er raunverulega búið að gerast þá vitum við aldrei algjörlega hvort við séum komin á þann stað. 

Eins má ekki gleyma því að með þessu sýnum við öðrum löndum að himinn og haf farist ekki, þó svo fólk hafi frelsi til að vera það sjálft. Við höfum tækifæri til að ganga á undan með fordæmi, og við höfum gert það.

Og við erum áfram að taka skref sjálf. Lög um kynrænt sjálfræði voru gífurlega mikilvægt framfaraskref. En það vantar ennþá upp á að lög og reglugerðir endurspegli raunveruleika þeirra, að aðstaða í íþróttahúsum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum endurspegli kynrænt sjálfræði og bjóði fólki sem stendur utan kynrænnar tvíhyggju raunverulega möguleika. En þetta eru hlutir sem við höldum áfram að vinna úr.

Baráttunni er nefnilega aldrei lokið. Meira að segja þegar við erum komin með öll réttindi sem okkur gæti mögulega hugnast, þá þurfum við að miðla af reynslu okkar, hjálpa öðrum hópum sem eru jaðarsettir í samfélaginu, og hjálpa hinsegin fólki annarstaðar í heiminum þar sem baráttan er skemmra á veg komin, bæði með fordæmi, og með því að taka á móti þeim. Og við þurfum að passa að halda áfram að vera sýnileg okkar vegna, passa að baráttan gleymist ekki, passa að það komi ekki bakslag. Viðhorf samfélagsins á Íslandi til hinseginfólks breyttist hratt, og mér finnst ekki ósanngjarnt að hafa í huga að eitthvað sem getur breyst hratt getur líka breyst hratt til baka.

Við sjáum núna á Vesturlöndum uppgang öfgafullra afturhalds-lýðskrumara, hatursfulls fólks sem notfærir sér reiði og jaðarsetningu fólks, efnahagslegan ójöfnuð og það valdaleysi sem fólk upplifir, til að ráðast gegn frjálsu lýðræðislegu samfélag og innviðum réttarríkisins, ráðast gegn upplýsingum og vísindum, með samsæriskenningum og rugli. Reyna að búa til sinn eigin hliðar-veruleika. Þetta fólk hefur gert réttindi samkynhneigðra, réttindi trans fólks og annarra að skotmarki sínu og því miður hefur þeim tekist að ná völdum og vinna ómældan skaða.

Þetta er baráttan sem við stöndum frammi fyrir í dag, við erum öll íbúar heimsins og það er mikilvægt að við látum okkur þessa baráttu varða áður en hún festir almennilega rætur hér á landi, þá verður það kannski orðið of seint. 

Það hættulegasta sem við stöndum frammi fyrir eru tilraunir þessara hægri-popúlista til að sundra okkur. Þeir gera það markvisst. Reyna að sannfæra samkynhneigð og tvíkynhneigð um að þeirra réttindi verði látin í friði ef þau rjúfa samstöðu með trans fólki, kynsegin-fólk og intersex fólki, en það er lygi. Markmiðið er að rjúfa samstöðuna, fá okkur til að takast á innbyrðis.

Þetta er allt sama baráttan. Það er ekki hægt að líta svo á að ef réttindi samkynhneigðra séu í höfn, þá sé hægt að slappa aðeins af og láta trans fólk um sína eigin baráttu, ekkert frekar en það er hægt að líta svo á að ef réttindi séu sæmilega í höfn á Íslandi þá sé hægt að slappa af og láta fólk í öðrum löndum um sína eigin baráttu. Þetta er sama baráttan og við megum ekki missa dampinn, megum ekki missa samstöðuna, það má ekki takast að skipta okkur upp og sigrast á okkur hverju fyrir sig. Samstaðan og sýnileikinn eru okkar vopn.

Þess vegna er svo sorglegt að við getum ekki haldið gönguna eins og við viljum, og þess vegna þurfum við að vera þeim mun einbeittari í öllu því sem við getum gert á meðan og einsetja okkur að mæta þríefld til leiks á næsta ári. 

Takk fyrir.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....