Af prófkjörskosningum Pírata

Kosningar í prófkjörum Pírata í Suðurkjördæmi og sameiginlegu prófkjöri Pírata í Reykjavíkurkjördæmi Suður, Reykjavíkurkjördæmi Norður og Suðvesturkjördæmi eru nú í fullum gangi og standa til 12.ágúst. Nú þegar hafa 368 einstaklingar kosið en allir þeir sem hafa verið skráðir í Pírata í 30 daga áður en kosningu lýkur og eru með lögheimili í viðkomandi kjördæmi hafa kosningarétt.

  • Til þess að kjósa í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi smelltu hér
  • Til þess að kjósa í sameiginlegu prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu, smelltu hér
  • Til þess að nýskrá þig í kosningakerfi Pírata, fylgdu leiðbeiningunum í myndbandinu neðst í fréttinni

Kosningarnar hafa gengið vel og er kerfisstjóri Pírata, Bjarni Rúnar, fljótur að stökkva til og laga hnökra þegar þeir koma upp og framkvæmdastjóri Pírata sér um að aðstoða félagsmenn sem lenda í vandræðum við að kjósa í gegnum netfangið bylgja@piratar.is 

Helstu vandamálin sem þarf að greiða úr er að svara því hvort fólk sé skráð í kosningakerfið, aðstoða fólk við að nýskrá sig í kosningakerfið ef svo er ekki, endursetja lykilorð notenda í kosningakerfinu og útskýra hvernig kerfið virkar. Til upplýsingar fylgir hér stutt útskýring á því hvernig kerfið birtist notendum:

Kerfið virkar á þann hátt að röðin á frambjóðendum á kjörseðli er alltaf í stafrófsröð en það er mismunandi hvar í stafrófinu, eða öfugri stafrófsröð, röðin byrjar og hvort kerfið raði afturábak eða áfram.

Sem dæmi: ef röðin byrjar á E þá eru A, B, C, D, Ð neðst. Kerfið heldur síðan þeirri röðun sem þú sem innskráður notandi sérð og sú röðun er í breytilegri stafrófsröð. Sú röðun er einnig breytileg milli einstaklinga, þ.e. það fá ekki allir innskráðir notendur sömu röð á kjósendum. Hinsvegar, ef þú ert ekki innskráður, þá breytist röðin í sérhvert sinn sem þú ferð inn á kosningavefinn (eða endurhleður síðuna). Hægt er að sannreyna þetta með því að skrá sig inn í kosningakerfið og athuga hvaða röð þú færð. Prófaðu svo að skrá þig út úr kosningakerfinu og endurhlaða vafrann, en þá sérðu að röðin breytist en er þó í stafrófsröð. Þegar þú skráir þig inn aftur sérðu svo sömu röðun á kjörseðlinum og þú fékkst við upphaflega innskráningu en það er gert til þess að hafa kerfið sem kunnuglegast þar sem að um mikinn fjölda frambjóðenda er að ræða.

Einn kjósandi í prófkjöri lenti í því leiðinlega atviki að hann taldi frambjóðendur sem hann hafði kosið hafa horfið út af listanum hjá sér. Þetta var fljótleyst með aðstoð kerfisstjórans en vandamálið og lausnin fólst í eftirfarandi:

Kjósandinn smellti á ,,Kjósa” hnappinn og svo strax á hlekk til að lesa um næsta frambjóðanda. Kerfið fékk þannig ekki tíma til að taka á móti atkvæðinu. Þegar hann fór aftur til baka á kjörseðilinn (back í vafranum) sá hann í augnablik ástandið eins og hann skildi við það (vafrinn sýndi stöðu úr cache), en síðan uppfærði sig svo með réttum gögnum frá kosningakerfinu sjálfu, og þá sá hann að atkvæðið hafði ekki verið móttekið. Hann upplifði þetta þannig að frambjóðendur væru að “hverfa” af seðlinum. Kerfisstjóri útskýrði málið fyrir viðkomandi og þar með var málið leyst.

Kerfisstjóri endurbætti síðan viðmótið til að það yrði sýnilegra hvenær verið væri að ,,senda atkvæði” og hvenær atkvæði væri raunverulega móttekið, og hvort villa hefði átt sér stað og atkvæði ekki skilað sér. 


Kjósendur sem búsettir eru erlendis skulu leita til framkvæmdastjóra í gegnum netfangið
bylgja@piratar.is til þess að tryggja sér kosningarétt í því kjördæmi sem þeir síðast áttu lögheimili.