Af byssum og frelsi

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, varaþingmaður Pírata, skrifar:

 

Af byssum og frelsi

Stríð er friður

Frelsi er ánauð

Fáfræði er styrkur

 

Þegar ég les fréttir þessa dagana þá er ekki skrítið að mér komi þessar línur úr bókinni 1984 í hug. Mér hreinlega líður oft eins og ég sé stödd í aðdragandanum að þeirri bók.

Fáfræði og þekkingarleysi er hampað á kostnað vísindindalegra vinnubragða og nú er svo komið að vísindamenn þurfa að fara í sérstakar göngur til að standa vörð um vísindin.

Stutt leit á netinu er talið ígildi doktorsgráðu og menn eru hreinlega óhræddir við að hampa Google-þekkingu sinni sem áreiðanlegri heimild en traustum vísindarannsóknum.

Umræða um falskar fréttir er orðin daglegt brauð og fer þar fremstur í flokki forseti Bandaríkjanna sem telur allt sem ekki er honum þóknanlegt af slíkum toga.  Almenningur víða hefur gripið þetta á lofti og nú er svo komið að það er ekki á allra færi að greina hvað er satt eða logið.

Við erum á þröskuldi þess að gera slagorðið „stríð er friður“ að raunveruleika og það hræðir mig. Ég fór á fyrirlestur hjá Peter Van Buren, bandarískum uppljóstrara, í fyrra en hann hefur skrifað bækur um ýmislegt sem hann hafði orðið vitni að og sætt heldur óskemmtilegri meðferð yfirvalda fyrir vikið.

En það sem var athyglisvert var að hann sagði að bandaríkjamenn væru hræddasta þjóð í heimi, svo hræddir að þeir væru upp til hópa tilbúnir að láta frelsi af öllu tagi af hendi í staðinn fyrir ímyndað öryggi.

Ég held að við séum hættulega nærri því hér heima að komast á þennan stað, þegar við erum farin að samþykkja sem sjálfsagðann hlut að lögreglumenn beri vopn á fjölskyldusamkomum. Allt hugsandi fólk sér að ef slík hætta er á ferð í raun og veru þá hafa börn ekki neitt á staðinn að gera.

Byssur leysa engin vandmál, þær koma ekki í veg fyrir árásir af þeim  toga sem við höfum verið að sjá síðustu mánuði. Ekki hefðu byssur heldur dugað gegn Breivik sem dulbjó sig sem lögreglumann þegar hann framdi sitt ódæði. Það eina sem byssur gera er að skapa falskt öryggi hjá fólki sem er hrætt.

Það er hins vegar eitt sem byssur eru prýðilegar í og það er að halda fólksfjölda í skefjum, við ættum kannski að hugleiða hvort við séum tilbúin að fara á þann stað, að lögreglan hafi sjálfdæmi um að mæta vopnuð næst þegar okkur dettur í hug að mótmæla spilltum valdhöfum.

Höldum fast í frelsið.