Af aðalfundi Pírata í Reykjavík

adalfundur-pir-2014Píratar í Reykjavík, svæðisbundið aðildarfélag Pírata, hélt aðalfund sinn í dag, 11. október.

Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðisins og þar gegnir frjáls fjölmiðlun ómetanlegu hlutverki. Píratar í Reykjavík telja algjörlega óásættanlegt að i frjálsu lýðræðisríki telji valdhafar réttlætanlegt að beita fólki frelsisviptingu sem refsingu fyrir meint tjáningarbrot.

Á fundinum var kosin ný stjórn félagsins og var Þórlaug Ágústsdóttir kjörinn stjórnarkafteinn. Aðrir í stjórn eru Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir, Þórður Eyþórsson, Sigmundur Þórir Jónsson og Júlíus Örn Fjeldsted. Varamenn í stjórn eru Björn Þór Jóhannesson, Gissur Gunnarsson, Sigurður Haukdal og Grímur Hjartarson.

Nýkjörinn kafteinn Pírata í Reykjavík deilir embættinu að eigin ósk með Kötlu Hólm sem lenti í öðru sæti í stjórnarkjörinu.

Helgi Njálsson og Jóhann Haukur Gunnarsson voru kjörnir skoðunarmenn reikninga.

Einnig var rekstaryfirlit fyrir kosningabaráttuna í Reykjavík lagt fram til samþykktar. Þar kom fram að heildarkostnaður við borgarstjórnarkosningarnar var 1.076.268 kr. Af því fór mest í kynningarkostnað eða 673.975 kr. Í rekstur kosningaskrifstofu fóru 278.489 kr. Fjárframlög til félagsins námu 1.464.664 kr. Þar af komu 827.000 kr. frá Reykjavíkurborg vegna árangurs Pírata í kosningunum, í samræmi við 5. gr. laga nr. 162/2006. 637.664 kr. komu frá einstaklingum og fyrirtækjum. Rekstarafgangur eftir kosningar var því 388.396 kr.

 

Fundargerð má sjá hér og streymi af fundinum er hér.