Aðgerðir gegn raka- og mygluskemmdum samþykktar

Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu um fjölbreyttar aðgerðir gegn raka- og mygluskemmdum í fasteignum. Aðgerðirnar eru í sex liðum og miða að því að koma í veg fyrir slíkar skemmdir og auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni af þeirra völdum.

Í greinargerð þingsályktunarinnar kemur fram að rakaskemmdir og mygla af völdum þeirra sé nokkuð útbreitt vandamál á Íslandi. Veðráttan hér sé sérstök og því fá fordæmi um hvernig skuli bregðast við þessum vanda. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem rakaskemmdir og mygla hafi í för með sér.

Þingflokkur Pírata auk þingmanna úr Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki stóðu að málinu sem var samþykkt á þingfundi í dag. Auk þeirra undirrituðu allir meðlimir velferðarnefndar Alþingis nefndarálit um málið. Með samþykktinni felur Alþingi félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda í fasteignum.

Það skuli gert með því að:

     1.      Auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda.

     2.      Efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi.

     3.      Efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim.

     4.      Gera aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði.

     5.      Taka upp jákvæða hvata fyrir tryggingafélög til að tryggja húsnæði gegn rakaskemmdum.

     6.      Taka upp jákvæða hvata fyrir fasteignaeigendur til að koma í veg fyrir og uppræta rakaskemmdir á eldra húsnæði.

Fjöldi flýr mygluna

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hefur sjálf reynslu af rakaskemmdum. Hún er meðal þeirra fjölda Íslendinga sem hefur þurft að yfirgefa heimilið sitt vegna myglu, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum.

„Eftir að ég fór að láta mig þessi mál varða kom fljótt í ljós að vandamálið er miklu stærra en mig hefði nokkurn tímann órað fyrir. Ég hef varla haft undan að kynna mér reynslusögur þeirra sem hafa komið að máli við mig.“

Halldóra fagnar niðurstöðu dagsins og segist telja að nú sé kominn grundvöllur að mjög þörfum endurbótum í þessum málaflokki.

„Þó þessi lífsreynsla hafi verið erfið get ég glaðst yfir því að hún skili sér í auknum réttindum fólks sem hefur svipaða sögu að segja og ég. Það gerir þetta allt þess virði.“

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....