Upprisa verkalýðsbaráttunnar! 1.maí ræða Valgerðar Árnadóttur

Kæru félagar.
Verið hjartanlega velkomin, það gleður mig að sjá ykkur koma og fagna 1 maí með okkur.
Ég heiti Valgerður Árnadóttir og fyrir utan það að vera pírati þá er ég starfsmaður hjá Eflingu stéttarfélagi og þessvegna hefur mér hlotnast sá heiður að fá að tala við ykkur að þessu tilefni.
Þegar ég hóf störf hjá Eflingu síðasta haust þá grunaði mig ekki hvað þessi vetur myndi vera mér lærdómsríkur. Ég gekk algjörlega græn á bakvið eyrun inn í kjarabaráttuna og skildi mjög fljótt hversvegna þetta er kölluð barátta, ég kýs reyndar að kalla hana styrjöld.

Mig grunaði ekki fyrr en ég var í miðju stormsins hversu hart er barist, hvað vopnin eru beitt og að “virðulegir menn” væru tilbúnir að fella grímuna og sýna sitt hellisbúaeðli við minnsta deiluefni.
Atriði þar sem hótelstjóri hleypur í jakkafötunum fram og tilbaka fyrir framan hótel sitt geltandi á fólk í verkfalli eins og varðhundur auðvaldisns er í huga mér eins og skopmyndasaga. Það var reyndar ekkert fyndið á meðan hann öskraði á mig og ýtti mér en það er gott að geta hlegið að því eftir á, húmorinn heldur manni gangandi þegar aðstæður verða virkilega súrrealískar.
Það sem mér finnst hinsvegar ekki fyndið er vanvirðingin sem ég varð vitni að frá atvinnurekendum gagnvart þeim sem hjá þeim unnu.

Fyrir utan þá láglaunastefnu sem haldin er úti þá var verið að hóta uppsögnum, að minnka starfshlutfall fólks og að hafa af því mætingarbónusa ef yrði af verkföllum og margir hverjir efndu svo þau loforð þvert á friðarsáttmála sem nýjum kjarasamningi fylgir. Ekki vissi ég heldur hversu stórt hlutfall verkafólks er í raun á lægstu launum enda er passað upp á það í fréttum að ræða meðaltal í starfsgreinum sem gefur óljósa mynd af því hversu margir eru að reyna að sjá sér farborða með 300 þúsund krónur fyrir skatt á mánuði.

Áður en ég gekk í þessa styrjöld þá fannst mér þetta ekkert endilega baráttan mín, þrátt fyrir að vera af verkafólki komin, þrátt fyrir að hafa byrjað að skúra gólf og þjóna til borðs á menntaskólaaldri, þrátt fyrir að hafa verið á þrítugsaldri einstæð móðir í tveim láglaunavinnum til að láta enda mætast og þrátt fyrir að vera núna næstum fertug, búin að vera á vinnumarkaði í 20 ár og hafa ekki ENNÞÁ tekist að eignast eigið húsnæði.
Nei fyrir mér var þetta barátta þeirra sem hefur það verra en ég, fólk á lægstu launum, fólk af erlendum uppruna án öryggisnets, án aðstoðar fjölskyldu og tengslanets. Það er fólkið sem ég barðist fyrir og með. Það er fólkið sem ég í vetur grét með og hló með, öskraði með og söng með en fremur öllu er það fólkið sem ég vildi umfram allt að finndi fyrir stuðningi okkar, stuðningi verkalýðsfélaganna, stuðningi stjórnvalda og stuðningi almennings.

Það er mér mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir hvað lægst launaða fólk í samfélagi okkar tók mikla áhættu með aðgerðum sínum, þau ruddu veginn fyrir aðra sem mun nýtast vel í komandi kjarasamningum annarra starfsstétta, starfsstétta sem hafa þó þegar betri kjör en þau.
Starfsstéttir sem hafa aflað sér menntunar og starfsréttinda og vilja að menntun þeirra sé metin til fjár, ég er sammála því að sanngjörnu mark, en ég vil jafnframt að öll vinna og starfsreynsla sé líka metin til fjár. Öll vinna er mikilvæg til að halda samfélaginu og efnahag þessa lands gangandi og allir eiga að fá mannsæmandi laun fyrir. Ef það þýðir að sumir menn fara af ofurlaunum á góð laun og að fyrirtæki skili aðeins minni arði þá er það auðvitað sjálfsagt, það er leiðin að jöfnuði.

Ég get ekki farið í þessa yfirferð án þess að minnast á mennina, mennina sem ég hitti í vetur. Menn sem með nokkrar milljónir í kaup á mánuði börðust gegn hóflegri kauphækkun starfsmanna sinna með öllum tiltækum ráðum. Mennirnir sem froðufelldu eins og börn í frekjukasti yfir kröfunum, kröfum sem myndu skila þeim örlítið minni arði á kostnað betri kjara starfsfólksins sem heldur fyrirtækjum þeirra gangandi. Ég verð að minnast á manninn sem gortaði sig af því að vera “spara” fyrirtæki sínu margar miljónir á ári með því að reka nokkra starfsmenn sem höfðu verið þar í tugi ára og áttu innan við 2 ár í ellilaun. Manni sem krafðist tryggð starfsmanna sinna án þess að sýna þeim neina tryggð, hvað þá vott af virðingu. Maðurinn sem þegar samningar voru undirritaður hótaði verðhækkunum þrátt fyrir að fyrirtæki hans hafi skilað milljarða arði á síðasta ári. Það er nefnilega svo að arðsemi skilar sér sjaldnast í betri kjörum til starfsfólks en þegar það fær nokkrar aukakrónur skal strax seilst í vasa þeirra aftur.

Ég verð að lokum að minnast á manninn sem hótaði að reka allt starfslið sitt ef þau samþykktu verkfallsaðgerðir eða tækju þátt í þeim, sem sagðist ætla að stofna sitt eigið stéttarfélag fyrir þau og sem eftir samninga hefur tilkynnt að laun munu nú lækka og vera metin út frá því hvaða stéttarfélag fólk fer í.
Baráttunni er nefnilega fjarri lokið við undirritun kjarasamninga, við tekur að standa vörð um réttindi fólks.
Ég vildi að ég gæti sagt að loknum þessum vetri að ég finndi fyrir samhug, að ég finndi fyrir stuðningi og að mér þætti almenningur og stjórnvöld hafa stutt við bakið á okkur í kjarabaráttunni.
En ég hef aldrei fundið fyrir jafn mikilli heift, yfirgangi og skilningsleysi frekra manna.
Kannski sárnar það einhverjum að heyra það en mér hefur aldrei þótt þögn góðra manna jafn ærandi.

Mér er það nú ljóst að það er ekki öllum kennt að bera virðingu fyrir fólki burtséð frá stöðu þess, kyni og uppruna.
Það er ekki öllum kennt að það að styðja við baráttu annarra er að styðja við samfélagið allt.
Það er ekki tilviljun að lægst launaða fólk í sveitarfélögum eru leiðbeinendur í leikskólum. Fólk sem við erum öll sammála um að sé í ábyrgðarfullu og mikilvægu starfi sem við viljum að sé vel launað er ekki með nóg til hnífs og skeiðar, það er ætlast til af þeim að vinna í hálfgerðri sjálfboðavinnu til að hugsa um og ala upp börnin okkar, ljós augna okkar og framtíð.

Ég hvet til þess að við höldum vöku okkar og styðjum kjarabaráttu allra þeirra sem vart hafa í sig og á og á ég þá sérstaklega við öryrkja og eldri borgara sem svo er ástatt um að við gerum baráttu þeirra að okkar baráttu.

Að við kennum börnum okkar virðingu og samkennd sem virðist hafa gleymst í uppeldi margra manna, kanski voru þeir aldrei á leikskóla, sungu aldrei með dýrunum í hálsaskógi eða lærðu að deila með sér.

Ég hef þá von í brjósti að upprisa verkalýðsbaráttunnar leiði til vakningar, í vetur fóru börn um allan hinn vestræna heim að frumkvæði Gretu Thunberg í skólaverkföll fyrir loftslaginu, láglaunafólk í verkföll fyrir betri kjörum og hælisleitendur mótmæltu slæmum aðbúnaði og seinagangi stjórnvalda.
Vorum við þar að sýna samstöðu? Hvar varst þú þá? Hvar var ég þá?
Það má alveg spyrja sjálfan sig á stundum?
Ég vil ekki vera partur af ærandi þögn.

Á alþjóðadegi kvenna 8 mars síðastliðinn fóru láglaunakonur í verkfall og í lok dagskrár mælti mæt kona, Nicole Leigh Mosty, hún bað allar konur af erlendum uppruna að standa upp, svo bað hún okkur íslensku konurnar að standa við hlið þeirra og taka höndum saman og segja þeim að við styðjum þær.
Það var eitt fallegasta augnablik þessarrar baráttu.

Styðjum hvort annað, látum okkur hvert annað varða og umfram allt sitjum ekki þegjandi hjá

Sameinuð sigrum vér!

Ræðuna má sjá hér!

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....