1. maí-ræða Rannveigar Ernudóttur

Ræðan sem Rannveig Ernudóttir, sem skiptar 4. sæti á lista Pírata í Reykjavík, flutti á 1.maí-kaffi Pírata í Reykjavík á Bergsson Mathúsi:

Komið heil og sæl. Til hamingju með baráttudag launafólks.

Það er viðeigandi að Píratar taki virkan þátt í 1. maí og bjóði í glæsilegt kaffi. Stytting vinnuviku er eitt af stóru málum okkar Pírata. Við höfum átt okkar þátt í tilraunaverkefnum hjá borginni í þá átt. Uppruni 1. maí er einmitt krafan um styttri vinnudag og meiri frítíma. Ég vona að verkókaffið sem við erum hér á í dag eigi þátt í að festa þennan viðburð í sessi hjá Pírötum.

Sögur formæðra og forfeðra okkar gefa okkur oft innblástur í daglegu lífi, þannig þykir mér t.d. sagan af ömmu hennar Völu, sem skipar 5. sæti listans okkar, hreint út sagt mögnuð. Amma hennar Völu var kona sem af miklu þrekvirki ól upp 7 börn, eftir að hafa skilið við manninn sinn, þá ólétt af 7. barninu og vann myrkranna á milli til að komast úr lítilli íbúð, í raðhús með börnin sín. Kona sem aldrei kvartaði heldur framkvæmdi. Sannkölluð kjarnakona með bein í nefinu! Fyrirmynd fyrir börnin sín og síðar barnabörnin sín.

Sögurnar eru fleiri.
Á hjúkrunarheimili hér í borginni, býr gamall maður. Minnið er farið að miklu leyti en hann nýtur þess að taka þátt í daglegu lífi heimilisins, hann er alltaf rólegur og með bros á vör. Hann man ekki alltaf hvar hann er, en hann man eftir börnunum sínum og barnabörnunum og hann elskar konuna sína, sem lést fyrir 12 árum.

Eftir að hafa setið frammi í setustofu og sagt sögur af barnabörnunum, fylgir honum stúlka inn í herbergið hans. Þar á veggnum eru myndir af ástvinum hans. Á svart hvítri mynd brosir við þeim ung og falleg stúlka.

„Er þetta konan þín?” spyr stúlkan. Andlitið hans ljómar og hann svarar:

„Já! Er hún ekki falleg? Svona er hún að bíða eftir mér!” Hann man hana eins og hún er á myndinni og hlakkar mikið til að hitta hana aftur.

Hann hefur engu gleymt þegar hann hugsar til konu sinnar og ástin er enn jafn djúp og þegar þau felldu hugi saman. Langt fyrir löngu.

Þau hjónin voru fólkið sem tók þátt í verkalýðsbaráttunni, þau tóku þátt í kröfugöngunum og þau eru fólkið sem stritaði svo að verkafólkið í dag eigi sína lögbundnu hvíldardaga.

Þau eru fólkið sem bjuggu við það að ein fyrirvinna var nóg til að framfleyta fjölskyldunni.

Það þýddi hins vegar að hann þurfti að vinna langt fram á kvöld og hún var heima að sjá um heimilið og uppeldið á börnunum.

Þegar hann kom heim á kvöldin var yngsta barnið farið að sofa og hann rétt náði að kyssa eldri börnin góða nótt. Hann sem elskaði að vera með börnunum sínum. Hún var dauðþreytt á því sólarhringsverkefni sem barnauppeldi og heimilishald er, en sinnti því að sjálfsögðu eins og hver önnur eljusöm móðir gerir.

Það var því kraftmikil upplifun fyrir þau að vera hluti af þeirri breytingu þegar konur streymdu út á vinnumarkaðinn.

Til hvers? Jú, svo að þau gætu skipt með sér verkunum.

Svo að hann þyrfti ekki að vinna svona lengi og í burtu frá fjölskyldu sinni og svo að hún þyrfti ekki að sjá ein um fjölskylduna og heimilið.

Þetta var háfeminískt mál. Konur streymdu á vinnumarkaðinn til að umbylta hugmyndum um hlutverk kvenna, á heimilinu og í atvinnulífinu. Þær æddu út og sköpuðu sér starfsframa og tóku þátt í atvinnulífinu og samfélaginu.
Þetta var breyting sem gerðist ekki yfir nótt, heldur tók tíma og oft var hún gagnrýnd harkalega.
En draumurinn var verðugur! Tökum bæði þátt í heimilislífinu, vinnum 50/50 og fáum þannig inn 100% innkomuna okkar, gefum börnunum okkar meiri tíma með okkur og eigum saman gæðastundir. 

Förum svo fram til nútímans.

Sonardóttir gamla mannsins kemur í heimsókn, hún rétt nær að koma við í amstri hvers dagsins. Því flest alla aðra daga, þarf hún að vinna baki brotnu. Hún og maðurinn hennar þurfa bæði að skaffa sitt hvora 100% innkomuna, samanlagt 200%, fyrir heimilishaldi og barnauppeldi. 100% innkoma dugir ekki í samfélaginu okkar!

Pressan á hana er að stunda fullt háskólanám samhliða fæðingarorlofinu sínu, þótt það sé reyndar bannað. Pressan á hana er að vinna 120% samhliða náminu, samhliða uppeldi og heimilishaldi. Pressan á hana er að sækjast eftir frama í atvinnulífinu en um leið halda úti fullkomnu heimili og elda allan mat frá grunni. 

Hann þarf ennþá að vinna baki brotnu til að taka þátt í að þau saman framfleyti heimilinu. Pressan á hann er að skaffa ofurlaun, annars er karlmennska hans í húfi.

Gleymum líka ekki heilsunni, þau þurfa bæði að komast í ræktina eða yogatímann, á hlaupum, því tíminn er naumur og heilsan er mikilvæg!

Þau hafa ekki efni á því að hann taki fæðingarorlof því það skerðir tekjurnar hans svo mikið að þau munu ekki geta staðið undir rekstri heimilisins. Því hann er í karlastarfi og hún er í kvennastarfi. Hún er menntuð, hann ekki, en samt eru launin hans helmingi hærri. Því hún er í umönnunarstarfi og við vitum öll hversu mikilvæg þau eru. Líf er minna virði en peningar. Það meikar sens!

Börnin bíða. Fæðingarorlofið er stutt og áður en þau verða árs gömul eru þau komin í fulla dagvistun, ef pláss finnst.
Þau eru í leik- og grunnskóla frá átta á morgnana til fjögur, fimm, jafnvel hálf sex. Eftir að þeirra vinnudegi er lokið er kominn tími á tómstundirnar, sem allir góðir foreldrar vita að eru þeim nauðsynlegar til að dafna og þroskast, verst bara hvað þær eru dýrar. En það er í lagi, þau nota bara Frístundakortið, þótt það dekki reyndar engan veginn allan kostnað.

Þegar fjölskyldan kemst loksins heim, þá á eftir að elda matinn, munið, frá grunni, sitja yfir heimalærdómi og æfa sig fyrir Pisa könnun. Enda eru þau öll uppfull af orku eftir daginn…

Hvar er gæðastundin? Hvar er hin mjög svo mikilvæga samvera fjölskyldunnar í ró og næði? Hvenær eiga þau að heimsækja afa á hjúkrunarheimilið, afi sem enn elskar svo heitt konuna sína sem gekk með og fæddi börnin þeirra. Konan hans sem hélt heimili og ól upp börnin þeirra mest megnis ein, því hann varð að vinna langt frameftir? Amma og afi sem tóku þátt í að brjóta á bak kúgun og óréttlæti.

Hvaða afleiðingar hefur það svo fyrir börn samtímans, að enginn sé tíminn til að vera með þeim? Afi sá sjaldan börnin sín, í dag sjá hvorugir foreldranna börnin sín, nema í mýflugumynd.

Könnumst við ekki öll við afleiðingarnar í dag? Hvernig líður ungmennunum okkar? Reyndar, hvernig líður börnunum okkar? Kannast einhver við að 9 ára gamli drengurinn þeirra sé kvíðinn? En að 12 ára gamla stúlkan þeirra sé í mikilli depurð? Hvað með átröskunina hjá ungu konunni sem eitt sinn var efnileg íþróttakona? En alvarlega þunglyndi mannsins með sjálfsvígshugsanirnar?

Þessir kvillar eru samfélaginu kostnaðarsamir. Er það í lagi?

Við vitum að þolmörkin eru sprungin, við vitum að fjölskyldurnar geta ekki meir. Við þurfum að hrifsa aftur til okkar það sem Samtök atvinnulífsins tóku, það sem þau tóku frá börnunum okkar. Við þurfum að endurheimta þá þróun að fjölskyldan geti dafnað og blómstrað saman. Við þurfum að hrifsa aftur til okkar það sem amma og afi byrjuðu á.

Svo að foreldrar í dag geti skilað af sér heilbrigðum einstaklingum sem geta hafist handa við það að laga og bæta okkar óheilbrigða samfélag, svo samfélagið verði aftur heilt.

Samtök atvinnulífsins eru mótfallin styttri vinnuviku, þau vilja ekki skilja að styttri vinnuvika skilar betri afköstum fyrir allt samfélagið. Fyrir atvinnurekandann sem og starfsmennina.
Breytingarnar eru hafnar, við horfum upp á Vor í verkó ná flugi og við erum að taka yfir verkalýðsfélögin. Það er kraftur í okkur þótt við séum uppgefin. Það er vilji en fyrst og fremst er von og kraftur.

Vinnan göfgar manninn, en hún á ekki að gera okkur örkumla! Tökum aftur völdin og gerum vinnuna að ánægjulegri þátttöku í samfélaginu og endurheimtum fjölskyldulífið. Virðum framlag ömmu og afa til betra samfélags <3

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....