1.maí-ræða Dóru Bjartar

Ræða sem Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, hélt á 1.maí-kaffi Pírata í Reykjavík sem haldið var á Bergsson Mathúsi:

Til hamingju með daginn kæru vinir og félagar og takk fyrir að koma.

Barátta verkalýðsins snýst um baráttu hinna valdaminni til að komast undan yfirgangi hinna valdameiri. Hún snýst um að standa vörð um borgara- og mannréttindi.

Hættum að gefa afslátt af rétti okkar!

Hluti af mannréttindum er réttur á bestu mögulegu heilsu. Með því að neyðast til að vinna starf sem grefur undan heilsunni er grafið undan mannréttindum okkar. Vinnan á ekki að gera okkur veik.

Í Noregi, þar sem ég bjó lengi og vísa gjarnan til þegar mér finnst að einhverju þurfi að breyta í íslensku samfélagi, er gerð sú krafa gagnvart vinnustöðum að umhverfið sé beinlínis heilsuhvetjandi, andlega og líkamlega. Við eigum öll skilin aukin lífsgæði og vinnu sem eflir heilsu okkar. Það er ekki nóg að hún geri okkur ekki bara ekki veik.

Krefjumst þess! Núna!

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur metið sem svo, að á Íslandi gefist fólki svo lítill tími til að sinna sjálfu sér og áhugamálum sínum, að landið var sett í 34. sæti af 38 mögulegum. Lönd eins og Belgía og Danmörk prýddu efstu sætin, á meðan Tyrkland og Ísland þau lægstu. Það er vegna þess að á Íslandi þarf fólk að vinna mjög langan vinnudag.

 Við Píratar viljum stytta vinnuvikuna, en frumvarp þess efnis hafa Píratar á þingi þegar lagt fram — þrisvar sinnum. Tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar við styttingu vinnuviku hafa gefist vel.

Betur en nokkur þorði að vona.

Skemmri vinnuvika myndi gera okkur betur kleift að sinna okkur sjálfum og halda heilsunni góðri. Alþingi þarf að samþykkja lögin!

Það er léleg hugmynd að ætlast til þess að fólk striti til þess eins að strita svo bara meira. Stytting vinnutíma er lýðræðismál. Það varðar lífsgæði okkar, aukna hamingju og samverustund með fjölskyldunni. Píratar stunda kjarapólitík: alltaf! Þau sem vinna öllum stundum geta illa tekið þátt í lýðræðinu. Þau sem lifa í fátækt geta illa tekið þátt í lýðræðinu.  Þess vegna viljum við stytta vinnutíma alveg eins og þau sem gengu fylktu liði fyrsta maí 1886 fyrir átta stunda vinnudag og bættum kjörum.

Við Píratar berjumst fyrir aðgengi, gegnsæi, ábyrgð og mannlegum stjórnmálum. Auðvitað skiljum við að þetta er kjarapólitík.

Þessir löngu vinnudagar skila okkur heldur ekki meiri framleiðni en nágrannalöndin. Mestu skiptir þó að langir vinnudagar skila okkur ekki meiri lífshamingju eða tíma fjölskyldu og vinum.

Það er vitað að með skemmri vinnudegi fylgir meiri ánægja í starfi, færri veikindadagar og aukin lífsgæði. Við getum gert betur.

Afleiðinguna af þessari miklu vinnu okkar má finna á leikskólunum okkar: Starfsfólkið þar vinnur langan vinnudag, börnin hafa undanfarin ár eytt meiri tíma á leikskólunum, og er nú orðið svo að við eigum met innan OECD í viðveru leikskólabarna á leikskólum. Á sama tíma eru leikskólakennarar farnir að missa heilsuna í frekari mæli, meðal annars að tapa heyrn, vegna aukins hávaða í vinnunni.

Jafnvægi milli vinnu og einkalífs eykur lífsgæði. Það er ekki náttúrulögmál að vinnan komi alltaf á undan fjölskyldunni. Leyfum okkur að njóta þess sem skiptir okkur máli. Nýtum vinnuna til að hafa í okkur og á, en lifum ekki til að vinna.

Launafólk á þakkir skilið fyrir að vinna vinnu sem styrkir grunnstoðir samfélagsins, en líka meiri virðingu og bættari kjör. Það er kominn tími til að breyta hér þeim viðhorfum að hinir efnameiri séu eitthvað merkilegri en aðrir eins og látið hefur verið í boði Sjálfstæðisflokksins. Þeir efnameiri eru bornir á höndum launafólks.

Konur skipa fjölmennar og illa launaðar stéttir. Enn er gert lítið úr framlagi kvenna til samfélagsins okkar. Hvernig í ósköpunum er það metið sem svo lítils virði að taka á móti börnunum okkar við fæðingu þeirra og vera okkur innan handar á okkar mikilvægustu augnablikum? Hvernig í ósköpunum er það metið svo að það að kenna börnunum okkar sé minna virði en að sinna peningunum okkar og jafnvel tölvunum okkar? Er þetta ekki augljóst dæmi um samfélag sem er fjandsamlegt bæði barnafjölskyldum og konum?

Við Píratar viljum bættari kjör, lífsgæði og réttmæta virðingu verkalýðsins.

Við eigum öll að geta átt hér gott líf. Enginn á að þurfa að lifa í fátækt. Við eigum öll rétt á að lifa með reisn. 

Stöndum saman. Berjumst saman. Til hamingju með daginn.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....