Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykajvík birti í dag baráttukveðju vegna Verkalýðsdagsins, greinin birtist fyrst á frettabladid.is
Fylgjumst einhuga að!
Baráttudagur verkalýðsins sækir uppruna sinn í mál sem er okkur Pírötum hjartans mál; styttingu vinnuviku, það er að segja átta stunda vinnudag og helgarfrí. Fyrstu skref baráttu verkalýðsins grundvölluðust þar að auki í kröfunni um verkfallsréttinn sem telst nú órjúfanlegur hluti af nútímalegum lýðræðisríkjum. Að leggja niður störf til að krefjast bættra kjara er grundvallarréttur verkafólks og nýtist eingöngu þegar allt um þrýtur, er það því réttur sem ganga þarf langt til að standa vörð um. Óneitanlega setur COVID-19 svip á hátíðarhöldin að þessu sinni. Við Píratar viljum óska launafólki góðs dags. Fögnum árangrinum sem náðst hefur og mætum endurnærð til baráttunnar fram undan.
Hinn 1. maí árið 1886 lagði verkafólk í Bandaríkjunum niður störf í kjölfar langrar baráttu fyrir bættum kjörum og átta stunda vinnudag. Íslenskar rætur dagsins sækja einnig upphaf sitt í baráttuna um styttri vinnudag. Vökulögin sem voru lögfest árið 1921 og tryggðu íslenskum sjómönnum sex tíma hvíld á sólarhring. Þau eru einn fyrsti sigurinn sem hefur unnist á Íslandi í verkalýðsbaráttu. „Hér skal orðtakið það: Fylgjumst einhuga að!“ segir í auglýsingu Kröfugöngunefndar á forsíðu Alþýðublaðsins 1. maí árið 1923.
Stytting vinnutíma er lýðræðismál og mannréttindamál. Það er vitað að með skemmri vinnudegi fylgir meiri ánægja í starfi, færri veikindadagar og aukin lífsgæði. Það varðar aukna hamingju og samverustund með fjölskyldunni. Starfið okkar á að styðja við okkar heilsu og velferð. Við erum ekki hlutir sem hægt er að nýta og ofnýta og henda svo í ruslið.
Nýverið var skrifað undir kjarasamninga fyrir lægsta launahóp okkar Reykvíkinga og það er mér mikið gleðiefni að ásamt því að leiðrétta laun kvennastétta og hækka lægstu laun er þar kveðið á um styttingu vinnuviku dagvinnufólks úr 40 í 36 klukkustunda vinnuviku – og enn meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Þessum hópi, Ef lingarfólki og öðru mikilvægu starfsfólki annarra verkalýðsfélaga, vil ég þakka fyrir að standa eins og klettur í framlínunni vegna COVID-19. Ég vil einnig nota tækifærið og hvetja önnur sveitarfélög til að ganga frá samningum. Pólitík er ekki leikur og ábyrgðin er mikil á tímum sem þessum að ganga ekki til samninga.
Baráttunni er hvergi lokið. Við eigum öll rétt á góðu lífi með reisn. Gleðilegan 1. maí.