Píratar XP

Álfheiður Eymarsdóttir

1. sæti Suðurkjördæmi

Stjórnmálafræðingur og varaþingmaður| f. 18. júní 1969

Ég hef unnið lengst af sem kerfisstjóri, embættismaður, framkvæmdastjóri, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum og hef átt og rekið eigin fyrirtæki. Störf mín í gegnum tíðina hafa aðallega tengst tölvu- og samskiptabúnaði,veflausnum og rafrænni þjónustu/sjálfsafgreiðslu, umbótaverkefnum í þjónustu og stjórnunarstörfum ásamt sjávarútvegi. Ég er menntaður stjórnmálafræðingur frá HÍ og með Diplóma í Alþjóðlegum stjórnmálakenningum & stjórnmálaheimspeki frá Edinborgarháskóla og stefni á að ljúka Msc gráðu þaðan vorið 2022

Ég hef verið varaþingmaður Suðurkjördæmis frá árinu 2017 og notið þeirra forréttinda að fá að starfa þó nokkuð á löggjafarsamkundu Íslendinga í fjarveru þingmannsins Smára McCarthy á kjörtímabilinu.

Mín áherslumál

Ég styð grunnstefnu Pírata heilshugar. Skoðanir mínar grundvallast á frelsi einstaklingsins, ábyrgð yfirvalda og kjörinna fulltrúa gagnvart kjósendum, gagnsæi, opnu lýðræði og gagnrýnni hugsun. Ég hef enga þolinmæði fyrir óvönduðum vinnubrögðum, hagsmunaárekstrum, vanhæfi, nepotisma og hvers kyns spillingu. Ég horfi einnig sorgmæddum augum á aukna samþjöppun og einsleitni á öllum sviðum. Ég vil meiri fjölbreytni og er hrifnari af valddreifingu, litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Of mikil samþjöppun skapar alltof mikið ójafnvægi. Netið sem var frjálst í upphafi er nú í fjötrum alþjóðasamsteypa sem safna um okkur upplýsingum með miður sæmilegum vinnubrögðum.

Ný stjórnarskrá, kerfisbreytingar, kvótakerfið og baráttan gegn spillingu er mér ofarlega í huga. Það er rík þörf á kerfisbreytingum: Stjórnkerfi, kosningakerfi, heilbrigðiskerfi, hagkerfi, velferðarkerfi, kvótakerfi og fjármálakerfi. Þessi kerfi eru úreld, flókin, ógagnsæ, virka illa, brjóta gegn jafnræði í mörgum tilfellum og eru ósjálfbær. Hér þarf að endurhanna, nútímavæða og einfalda. Kerfisbreytingar án kollsteypu. Mín helstu málaáherslur liggja á sviði sjávarútvegs,nýrrar hugsunar um velsældarhagkerfið, þar með talið skilyrðislaus grunnafkoma, sjálfbærir framleiðsluhættir þannig að við hættum að ganga of mikið á auðlindir heimsins.

Ég hef mikinn áhuga á atvinnulífi og tel það eitt mikilvægasta málefni Suðurkjördæmis. Sjávarútvegurinn er mér afar kær, ég hef barist gegn kvótakerfinu um árabil og rak um skeið eigin fiskútflutningsfyrirtæki. Það verður að losa þjóðina undan oki kvótakerfisins og arðráni stórútgerðar með því að tryggja eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni, að allar nýtingarheimildir verði tímabundnar, að jafnræði ríki við úthlutun nýtingarheimilda í gegnum uppboð, tryggja að auðlindarentan renni til þjóðarinnar í gegnum uppboð veiðiheimilda og síðast en ekki síst að tryggja sjálfbæra nýtingu í gegnum vísindalega ráðgjöf.

Framtíðarsýn

Við erum tilbúin til að vinna í ríkisstjórn með þeim sem eiga samleið með málefnaáherslum okkar. Ég get ímyndað mér að sú ríkisstjórn einhendi sér í að hrinda í framkvæmd nýrri stjórnarskrá, kerfisbreytingum í sjávarútvegi og hefji innleiðingu nýs velsældarhagkerfis með öflugri nýsköpun og velferð til að búa til raunhæfa, sjálfbæra framtíð fyrir alla afkomendur okkar.

Af hverju Píratar?

Píratar eru eini raunhæfi kosturinn í pólitík ef við viljum að samfélagið breytist, vaxi og dafni til framtíðar. Píratar gera sér grein fyrir og hafa þor til að leiða nauðsynlegar kerfisbreytingar og hafa svör við spurningum kjósenda. Burt með spillingu, ný stjórnarskrá, bráðnauðsynlegar kerfisbreytingar í sjávarútvegi, nýjar áherslur í hagfræði um velsældarhagkerfið og loftslagsmál. Píratar er eina stjórnmálaaflið í dag með svör á reiðum höndum við spurningum og áhyggjum kjósenda. Við leggjum áherslu á fjölbreytt samfélag þar sem allir mega vera eins og þeir eru, sterkt velferðarkerfi, ábyrga framleiðsluhætti, nám og störf án staðsetningar, samgöngur og heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Við gerum kröfu um að loftslagsmálin séu ekki tekin neinum vettlingatökum heldur með raunhæfum aðgerðum sem virka strax. Við erum ekki föst í neinum kreddum. Það hefur sýnt sig að hefðbundnu flokkarnir eru með fá svör og skortir getu og vilja til að takast á við spillt fyrirgreiðslukerfi sem þjónar þeim og þeirra eiginhagsmunum. En við getum það, viljum og þorum. Píratar hafa pólitískt hugrekki.

Af hverju varðst þú Pírati?

Eftir hrunið 2008 fann ég mig fyrst knúna til að taka þátt í stjórnmálum. Þar til hafði ég fylgst með sem stjórnmálafræðingur og áhugamanneskja um pólitík. En í kjölfar hrunsins fann ég þessa þörf fyrir að taka þátt. Það var ekki lengur nóg að sitja í sófanum og pæla. Reiðin sem sameinaði fólk í Búsó og í Hreyfingunni var þó veikur grundvöllur árangursríks samstarfs til frambúðar. Reiði og hræðsla eru aldrei gott veganesti til að byggja gott samfélag.

Píratar urðu til í framhaldinu og eru með þessa frábæru grunnstefnu, raunhæfa framtíðarsýn og pólitísku hugrekki. Grunnstefnan og stefnumál Pírata ýtir okkur mjúklega úr þessu gamaldags vina- og vandamanna samfélagi og inn í framtíð þar sem allir fá að njóta sín í gjörbreyttu samfélagi 21.aldarinnar.

Ég tók fyrst þátt í starfi Pírata í sveitarstjórnarkosningum 2014, sat þá á lista í Reykjavík og er mjög stolt af því að hafa tekið þátt í að koma Halldóri Auðar Svanssyni í borgarstjórn Reykjavíkur. Það var mikið gæfuspor fyrir íbúa Reykjavíkur.

Ofurkraftar?

Ég er mjög öflug í hámhorfi. Fínn kerfisstjóri. Sérhæfi mig í stýrikerfum og netþjónum. En hámhorfið stendur líklega uppúr.

Bóka viðtalstíma

Tryggjum framtíð Garðyrkjuskólans að Reykjum

Þegar Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi tók til starfa árið 1939 endurspeglaði hann nýsköpun þess tíma. Upp úr aldamótunum 1900 fóru einstaklingar og áhugamannafélög að...

Átta ára meinsemd

Það var augljóst löngu fyrir heimsfaraldur að heilbrigðisþjónustan í heild var í klípu. Mönnunarvandi, fjársvelti, plássleysi, mygla og gamaldags skipulag stóð þjónustunni fyrir þrifum....

Íslenski humarinn er í útrýmingarhættu

Humarinn er nánast útdauður á Íslandsmiðum. Humarstofninn er kominn undir varúðarmörk og búið að friða helstu humarslóðirnar. Veiðar á humri byrjuðu ekki að ráði...

Samþjöppuð stórútgerð 1-0

Fallin með 4,8 Þá er komin niðurstaða með veiðigjöld ársins í fyrra. Reiknisérfræðingar ríkisins segja að 4,782 milljarðar skulu það vera heillin. Leiguviðskipti með rúmlega...
X
X
X