Stefna Pírata og Pírata er sett fram sem stefnumál á x.piratar.is í undirþingi Reykjavíkur. Meirihlutasáttmáli SVÆÞ í Reykjavík byggir á þessum samþykktum.

Hér að neðan er stefna Pírata eins og hún var kynnt í sveitarstjórnarkosningum vorið 2014.

Stjórnsýsla og lýðræði

Píratar í Reykjavík leggja ríka áherslu á umbætur á sviði stjórnsýslu og lýðræðis og byggja stefnumörkun sína á sameiginlegri stefnu Pírata um stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi.

Við viljum raunverulegar og róttækar kerfisbreytingar sem færa valdið til íbúanna og opna stjórnsýsluna gagnvart ytra aðhaldi, meðal annars með því að virkja upplýsingatæknina. Borgarstjóri verði kosinn beinni kosningu af borgarbúum. Stefnt verði að því að gagnsæi í stjórnsýslunni verði algjört og nái til allra ferla við ákvarðanatökur. Upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðarsamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir ættu að vera gefnar upp opinberlega. Þjónusta við borgarbúa verði einfölduð og gerð sjálfvirk eins og hægt er. Boðið verði upp á aukið íbúasamráð og kosningar um mál sem í meðferð eru innan stjórnsýslunnar. Áhersla skal lögð á að nýta frjálsan og opinn hugbúnað á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar.

Velferðar- og forvarnarmál

Píratar í Reykjavík vilja tryggja að Reykjavíkurborg uppfylli grunnþjónustu- og framfærsluskyldur sínar gagnvart íbúum borgarinnar. Þeir sem hvergi eigi höfði að halla fái þak yfir höfuðið og slík þjónusta verði ekki háð nokkrum kvöðum af þeirra hálfu. Styrkja ber embætti umboðsmanns borgarbúa og hlutverk hans skal útvíkkað. Sjálfstæði þjónustumiðstöðva gagnvart stjórnsýslunni skal eflt, sem og aðkoma íbúa að starfsemi þeirra. Innheimta skulda einstaklinga við Reykjavíkurborg verði mannúðlegri og valkostir til endurgreiðslu verði fjölbreyttari. Forvarnir skulu ávallt vera fræðilega unnar, sannreyndar og árangursmetnar reglubundið – og þar skal áhersla lögð á fræðslu en ekki hræðslu. Stutt verði við skaðaminnkandi nálganir vegna fíknivanda í því skyni að draga úr þeim heilsutengdu og félagslegu vandamálum sem geta fylgt fíkn.

Skólamál

Píratar í Reykjavík vilja hvetja til aukins sjálfstæðis leik- og grunnskóla varðandi kennsluaðferðir og -hætti innan ramma aðalnámskrár.  Í þessu felst stuðningur við mismunandi áherslur og rekstrarform skóla, aukið áhrifavald kennara til stefnumótunar í skólamálum, sem og aukið frelsi nemenda og foreldra til þess að hafa áhrif á skólaumhverfi og nám. Áframhald breytinga á námi og kennslu verði metið reglulega af skólasamfélaginu til að tryggja að það skili þeim árangri sem lagt er upp með. Ekki skulu allir steyptir í mót skóla án aðgreiningar heldur skal boðið upp á sérskólaúrræði fyrir þá nemendur og fjölskyldur þeirra sem þess óska. Endurskoða skal gjaldtöku í skólum og frístundum til að koma betur til móts við tekjulágt fólk. Miðað skal við að meðallaun kennara verði sambærileg við meðalkennaralaun í OECD-ríkjum.

Íþrótta- og tómstundamál

Píratar í Reykjavík vilja vernda Laugardal og Elliðaárdal sem útivistar- og íþróttasvæði. Aðgangur barna og unglinga að samskiptum við dýr innan borgarmarka verði efldur og kannaðar verði leiðir til að gera börnum kleift að umgangast hesta og leggja stund á útreiðar. Stuðlað verði að fjölbreyttari möguleikum til útivistar og leitað til borgarbúa um hugmyndir í því samhengi. Haldið verði áfram að tryggja aðgengi barna og unglinga að frístundaiðkun með því að framfærslutengja frístundakortið. Skoðaður verði sá möguleiki að frístundakortið verði gefið út á öll börn á leik- og grunnskólaaldri og verði hægt að nota til niðurgreiðslu á öllum frístundum, þ.m.t. tónlistarkennslu, íþróttaiðkun, listnámi og fleiru.

Skipulags- og samgöngumál

Píratar í Reykjavík vilja gera almenningssamgöngur að raunbetri valkosti með því að stórefla þær í samvinnu við íbúa borgarinnar og nærliggjandi sveitarfélög. Leita skal annarra leiða en hraðahindrana til að draga úr umferðarhraða þar sem þess þarf. Skoðaðir verði möguleikar á að minnka og dreifa umferðarálagi á helsta annatíma. Þétta ber byggð, svo fremi sem uppbygging umferðarmannvirkja haldi í við þróunina og þétting verði ekki á kostnað útivistarsvæða. Nauðsynlegt er að ákveða framtíðarstaðsetningu flugvallarins í eins víðtækri sátt höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og kostur er á. Endurskoða þarf aðferðafræði og núverandi form aðalskipulags með það að markmiði að auka lýðræði, þátttöku íbúa og gagnsæi í ákvarðanatöku.

Sameiginleg stefna Pírata um Stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi vorið 2014