Reglur um prófkjör Pírata fyrir alþingiskosningar 2017 og skyldur frambjóðenda í prófkjöri Pírata í Suðvesturkjördæmi.

Vinsamlegast kynnið ykkur skjalið allt.
Reglur uppfærðar 23. september með bættu orðalagi á ákvæðum 1-2 og breyttri talnaröð ákvæða 1-6. Við það bætist breyting á ákvæði um endurtalningu sjá lið 6.

 • Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata.
 • Frambjóðandi skal tilkynna framboð með tölvupósti til kjördæmaráðs á profkjor2017@piratar.is .
 • Frambjóðandi skráir sig einnig í prófkjörið á viðeigandi undirþingi í kosningakerfi Pírata á x.piratar.is.
 • Kosning hefst kl. 15:00  þann 23. september 2017 og lýkur klukkan 15:00 laugardaginn 30. september.
 • Öllum skráningum skal lokið fyrir kl 15:00 laugardaginn 23. September. Frambjóðendur þurfa að framkvæma þessar skráningar í tæka tíð svo framboðið teljist löglegt.

Siðareglur framboðsins

 • Frambjóðendur í prófkjöri sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi, bæði í ræðu og riti.
 • Frambjóðendur gera grein fyrir öllum þeim hagsmunum sem gætu skipt máli við framboðið.
 • Tilkynna þarf kjördæmaráði eða kosningastjórn um vafasöm atriði í sögu frambjóðanda sem gætu verið dregin fram í dagsljósið við framboð listans.

Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgi framboðinu og samþykki þær

 1. Tölvupóstur til kjördæmaráðs (profkjor2017@piratar.is) skal innihalda eftirfarandi:

Í titli kemur fram kjördæmi sem sóst er eftir að bjóða fram í en í meginmáli skal taka fram:

 • Nafn frambjóðanda
 • Kennitölu
 • Stöðu eða starfsheiti
 • Heimili
 • Símanúmer
 • Netfang

 

 1. Frambjóðendur skrá sig í prófkjör á x.piratar.is en þar þarf fyrst að stofna aðgang. Þegar aðgangur er stofnaður skal frambjóðandi leitast við að gera eftirfarandi.:
 • Setja inn mynd af sér.
 • Taka fram allar þær upplýsingar sem frambjóðendur telji að skipti máli við prófkjörið.
 • Kjördæmaráð óskar eftir að frambjóðendur svari spurningunum 5 sem tilgreindar eru neðar í þessum reglum.

 

 1. Með yfirlýsingu um framboð í prófkjöri í kosningakerfi Pírata telst frambjóðandi lýsa því yfir að hann hafi kjörgengi í Alþingiskosningum á Íslandi.

 

 1. Frambjóðandi samþykkir með undirskrift sinni endanlegt sæti á lista og gefur hann einnig samþykki fyrir umboðsmönnum listans. Þetta skal gert eigi síður en 4 dögum áður en frestur til að skila listanum rennur út, ellegar er heimilt að fella hann af lista.

 

 1. Kosningarétt hafa allir félagsmenn sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur. Dæmi: Þau sem skráðu sig í Pírata 23. ágúst hafa kosningarétt alla dagana en þau sem skráðu sig í Pírata 30. ágúst hafa bara kosningarétt 30. september. ·       

 

 1. Framboðslistanum verður raðað samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð eftir kosningu í kosningakerfi Pírata. Prófkjörinu lýkur kl 15:00  laugardaginn 30. september en áætlður tími úrslita er í kringum kl 17:00. Endurtalið verður sunnuaginn 1. október kl 15:00 en ef frambjóðendur hafa sagt sig af listanum fyrir þann tíma er viðbúið að röðun úr prófkjörinu geti breyst.

Eftir endurtalningu er listinn álitinn endanlegur. Þó er hægt að færa sig neðar á lista eða segja sig af honum en þá tekur næsti maður á lista sæti viðkomandi og svo framvegis.

 

Vinsamleg tilmæli til frambjóðenda í prófkjöri

 • Frambjóðendur eru eindregið hvattir til að bjóða sig ekki fram nema þeir hafi fullan hug á að taka sæti á lista, jafnvel neðar en þeir hefðu óskað sér, sökum þeirrar vinnu og óvissu sem það getur skapað að hafna sæti. Jafnframt er þeim tilmælum eindregið beint til frambjóðenda að lækka sig frekar en segja sig af lista, geti þeir ekki hugsað sér að vera í því sæti sem þeim býðst.

  Frambjóðendur eru hvattir til að svara eftirfarandi spurningum og birta svörin á framboðs síðunni sinni á x.piratar.is:

 1. Ef þú nærð kjöri til alþingis og seinna kæmi til ágreinings og aðstæðna þar sem þú segðir þig úr flokknum. Myndir þú segja af þér og víkja þingsætinu til varamanns eða starfa áfram sem óháður eða með öðrum flokkum?
 2. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
 3. Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?
 4. Hvað gerir þig að frambærilegum kosti til að gegna þingmennsku fyrir Pírata?
 5. Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi? 
 • Óskað er eftir því að hver frambjóðandi skili að lágmarki 10 meðmælum með framboðslistanum að prófkjörinu loknu. Þetta skal gert í samráði við kosningastjórn og framkvæmdastjóra en frekari upplýsingar um það verða gefnar að prófkjörinu loknu.