Tilkynning til félagsmanna Pírata vegna prófkjörs til alþingiskosninga í Norðausturkjördæmi 2017.

Kjördæmisráð NA-kjördæmis gefur hér með út áætlun um framkvæmd prófkjörs Pírata í NA-kjördæmi fyrir alþingiskosningar 2017. Áætlunin gildir fyrir kosningar á árinu 2017.
Óskað er eftir framboðum á lista Pírata í NA-kjördæmi og frambjóðendum boðið að kynna sig fyrir félagsmönnum í samvinnu við aðildarfélög Pírata í NA-kjördæmi. Prófkjör verður haldið í kosningakerfi Pírata, kosning hefst 23. september Kl. 19:00  og lýkur 30. september klukkan 19:00.

Fyrir prófkjör
Framboðsfrestur er til kl. 15:00 þann 23. september.  Allir sem eru skráðir Píratar fyrir kl. 15:00 þann 23. september geta boðið sig fram í prófkjöri Pírata í NA-kjördæmi. Framboðsyfirlýsingu skal senda kjördæmisráði á tölvupóstfangið nordausturland@piratar.is með fullu nafni, kennitölu, lögheimili, símanúmeri og hagsmunaskráningu (frambjóðendur nota eigin dómgreind til þess að meta hvar mögulegir hagsmunaárekstrar liggja).

Kynning frambjóðenda
Aðildarfélög Pírata í NA-kjördæmi kemur kynningartexta allra frambjóðenda inn á kynningarsíðu Pírata í NA-kjördæmi. Félögin munu vinna í sem mestri sátt og samvinnu við frambjóðendur um að koma þeim í samband við Pírata í NA-kjördæmi.

Að öðru leyti er kynning frambjóðenda á ábyrgð þeirra sjálfra og skulu þeir fara eftir samþykktum siðareglum í framboði sínu. Frambjóðendur teljast samþykkja siðareglum prófkjörsins með yfirlýsingu sinni um framboð.

Prófkjör
Rafræn kosning verður búin til í kosningakerfi Pírata undir kjördæmisþingi NA. Þar verða allir frambjóðendur að skrá sig og bera sjálfir ábyrgð á upplýsingasíðu sinni í kosningakerfinu. Aðildarfélög aðstoða frambjóðendur eftir fremsta megni að tryggja að allir séu rétt skráðir áður en kosning hefst. Kosning hefst kl. 19:00 þann 23. september 2017 og lýkur kl. 19:00 þann 30. september. Allir sem eru skráðir í Pírata fyrir 24. ágúst 2017 og með kosningarétt í NA-kjördæmi í alþingiskosningum 2017, eða væru með kosningarétt ef þeir hefðu aldur til, eru með atkvæðisrétt í prófkjöri Pírata í NA-kjördæmi.

Úrvinnsla prófkjörsniðurstaðna
Að lokinni kosningu fer kjördæmisráð yfir niðurstöður kosninganna með frambjóðendum og tekur við staðfestingu frambjóðenda um hvort þeir vilji halda því sæti sem þeir fengu, fella sig af lista eða lækka sig um sæti. Ákveði frambjóðandi að fella sig af lista skal fara fram endurtalning á kosningu í samræmi við lög Pírata. Frambjóðendum er skylt að vera til taks á meðan unnið er úr niðurstöðum prófkjörsins. Sé ekki hægt að ná í frambjóðanda getur það leitt til þess að hann falli niður um sæti, eða verði vikið af lista.

Eftir prófkjör
Kjördæmisráð skipar í tóm sæti, ef einhver eru, þar til öll 20 sætin á framboðslistanum hafa verið fyllt. Niðurstaða prófkjörs og röðunar kjördæmisráðs í tóm sæti er lokaútgáfa framboðslista Pírata í NA-kjördæmi. Ákveði frambjóðandi, eftir lokaútgáfu framboðslista, að hafna sæti skulu þeir frambjóðendur sem eftir sitja færast upp um sæti. Kjördæmisráð skipar í þau sæti sem upp á vantar til að fylla listann.

Almennt um prófkjör og niðurstöður
Ágreiningsmálum um framkvæmd prófkjörs skal vísað til kjördæmisráðs sem tekur ákvörðun um framhald málsins. Annað hvort með úrskurði um það framkvæmdaratriði sem ágreiningurinn snýst um eða með því að vísa málinu annað, til dæmis til trúnaðarráðs Pírata.
Allir frambjóðendur hafa rétt til að vísa málum til trúnaðarráðs, úrskurðarnefndar eða annað skv. lögum Pírata.
Gildir þessi áætlun um kosningar til Alþingis 2017.

Siðareglur Pírata í prófkjöri í Norðausturkjördæmi 2017 

  • Frambjóðendur í prófkjöri skulu sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi.
  • Frambjóðendum er heimilt að birta greinar, blogg og innlegg í öllum hugsanlegum miðlum, ef ekki er greitt fyrir birtingu.
  • Frambjóðendum í prófkjöri er ekki heimilt að borga fyrir auglýsingar eða fyrir birtingu greina.
  • Frambjóðendur skulu ekki fara niðrandi orðum um meðframbjóðendur, hvort sem er í ræðu eða riti.
  • Frambjóðendum er óheimilt að bjóða kjósendum efnisleg gæði í skiptum fyrir atkvæði þeirra.
  • Frambjóðendur skulu ráðfæra sig við kjördæmisráð, ef vafaatriði koma upp.
  • Aðildarfélag skal kynna frambjóðendur á miðlum á vegum Pírata, þar sem öllum er gert jafn hátt undir höfði.
  • Ef frambjóðandi brýtur gegn þessum reglum, er kjördæmisráði heimilt að ávíta viðkomandi með opinberum hætti.

Kjördæmisráð Pírata í NA

Halldór Arason

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Trausti Traustason